Á kjörtímabilinu hefur Framsóknarflokkurinn unnið að mörgum málum í samræmi við grundvallarstefnu sína. Flokkurinn er félagshyggjuflokkur sem grundvallar stefnu sína á samvinnu og jöfnuði. Unnið hefur verið að málefnum aldraðra og öryrkja í samræmi við það. Beint hefur verið meiri kjarabóta til þessara hópa en annarra. Bætur almannatrygginga, óskertar mánaðargreiðslur til einhleypings sem er örorkulífeyrisþegi hafa hækkað úr 69.405 kr. í byrjun árs 1999 í 98.186 kr. á mánuði í dag sem er 41,5% hækkun. Bætur til annars hjóna þar sem bæði eru örorkulífeyrisþegar hafa hækkað úr 45.884 kr í byrjun árs 1999 í kr 76.420 kr. á mánuði í dag sem er 66,5% hækkun. Bætur ellilífeyrisþega hafa hækkað svipað eða 42,5% og 76,4%. Í tíð Alþýðuflokksins á árunum 1991-1995 hækkuðu þessar bætur aðeins um 7,6% og 11,1% hjá öryrkjum. Hækkunin síðustu 4 ár er sex sinnum meiri hjá öryrkjum en var 4 árin í tíð Alþýðuflokksins. Framsókn hefur gert 6 sinnum betur. Dregið hefur verið úr tengingu bóta við eigin tekjur og tekjur maka og það hefur bætt kjörin og fyrir liggur samkomulag við Öryrkjabandalagið um hækkun grunnlífeyris öryrkja sem allt að tvöfaldar hann fyrir þá sem fara ungir á örorkubætur. Um næstu áramót verður grunnlífeyririnn endurskoðaður og hækkaður hjá hverjum og einum lífeyrisþega miðað við þann aldur sem hann var á þegar taka bóta hófst. Þetta eru allt verulegar kjarabætur og sérstaklega öryrkja og undirstrikar þá stefnu Framsóknarflokksins að beina efnahagslegum ávinningi ríkissjóðs fyrst og fremst til þeirra sem hafa minnst úr að spila. Loks má minna á að réttur til umönnunarbóta hefur verið rýmkaður verulega fyrir foreldra langveikra barna og margir notið góðs af.
Bætur almannatrygginga verði skattfrjálsar
Í samþykktum síðasta flokksþings er að finna samþykktir sem lýsa að áfram verði haldið á sömu braut. Ályktað um að hækka persónuafslátt einstaklinga en það bætir kjör lágtekjufólks meir en annarra. Sérstaklega er ályktað um að samræmi verði milli skattleysismarka og bóta almannatrygginga þannig að bætur almannatrygginga verði skattfrjálsar. Það er mikil kjarabót fyrir þann hóp sem í hlut á en þar sem bætur hafa hækkað meira en almennt verðlag greiðir hluti bótaþega nú skatt.
‘Eg vil einnig benda á ályktun um atvinnuleysisbætur en þar er kveðið á um að hækka þær strax og stefna að því að bæturnar verði jafnháar lægstu launatöxtum.
Fjölskylduáherslur
Tvær áherslur varðandi fjölskyldufólk miða að því sama að bæta kjör þeirra og þó meir hjá fólki með lágar tekjur. Þær eru að leikskólagjöld verði frádráttarbær frá skattstofni foreldra og að þeir geti nýtt sér ónýttan persónuafslátt barna 16-18 ára.
Barnabætur voru hækkaðar verulega á kjörtímabilinu Áætlað var að hækkunin gæti numið 2 milljörðum króna þegar hún væri að fullu komin til framkvæmda. Hluti af þessari aukningu er óháð tekjum foreldra en meirihluti fjárins er bundinn tekjum. Áfram er ætlunin að auka fjármagn til barnabóta um svipaða fjárhæð á næsta kjörtímabili.
Að lokum vil ég nefna almenna skattalækkun með lækkun skattprósentunnar í 35,2% en vek athygli á því að þá skattalækkun á að gera í samráði við aðila vinnumarkaðarins og mun hún verða útfærð í tengslum við kjarasamninga. Það skiptir miklu máli að svo verði gert.
Allar þessar aðgerðir á undanförnum árum og samþykktir um áherslur næstu ára eru til marks um félagshyggjuna í stefnu Framsóknarflokksins.
Kristinn H. Gunnarsson
Athugasemdir