Öngstræti frjálslyndra

Greinar
Share

Eðlilegt er að láta sig sjávarútvegsmál miklu varða og ég er í hópi þeirra sem gagnrýni núverandi stjórn fiskveiða. Kerfið leiðir af sér ósanngjarna eignamyndun, samþjöppun veiðiheimilda, veldur byggðaröskun vegna þess að nýliðun er nánast ógerleg og hefur ekki byggt upp fiskistofnana eins og til var ætlast, sérstaklega þorskstofninn. Þjóðin er líka ósátt við kerfið eins og nýleg könnun Fréttablaðsins leiðir í ljós, liðlega 80% svarenda eru andvígir því. Þá er málið í 3. sæti yfir þau mál sem kjósendur láta ráða afstöðu sinni til stjórnmálaflokka skv. könnun Félagsvísindastofnunar sem unnin var fyrir Morgunblaðið.
Frambjóðandi Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi skrifaði grein í Mbl. í síðustu viku, lýsti sig sammála greiningu minni á vandanum í kerfinu og skoraði á mig að kynna mér stefnu hans flokks. Það hef ég gert og ég verð að segja að lausnir þær sem Frjálslyndi flokkurinn býður upp á eru ekki trúverðugar og enda í öngstræti sem minna um margt á núverandi kerfi. Almennt má þó segja um sóknarstýringu að hún hefur þann kost að brottkast hverfur og að veiddur afli kemur á land. Það er góð breyting.
Takmarkaður fjöldi veiðileyfa
Megintillaga Frjálslyndra er að fara í sóknarstýringu og takmarka fjölda báta með veiðileyfum. Mér er mjög til efs að þessi leið gangi. Hæstaréttardómur féll fyrir rúmum 4 árum í svonefndu Valdimarsmáli og greining á dómnum leiddi í ljós að talið er óheimilt að takmarka þann fjölda báta sem haldið er til veiða. Lögum var breytt þannig að allir bátar sem uppfylla almenn skilyrði fá veiðileyfi, en skilið er á milli veiðileyfis og veiðiheimilda. Hvernig ætlar Frjálslyndi flokkurinn að komast framhjá Hæstaréttardómnum ? Mér sýnist að það verði fyrst að breyta stjórnarskránni og taka af öll tvímæli um heimild til þess að stjórna fiskveiðum með því að takmarka stærð og fjölda skipa.
Nýliðun ómöguleg
Takmörkun veiðileyfa og útgáfa sóknardaga leiðir af sér sama vanda og er í núverandi kerfi. Nýir aðilar verða að afla sér veiðileyfis og kaupa það væntanlega af einhverjum sem fyrir er og nýr aðili þarf líka að kaupa sér daga af einhverjum sem hefur þá undir höndum. Verðlagningin á þessum réttindum verður með sama hætti og í núverandi kvótakerfi enda lokaður hópur sem hefur réttindin í báðum kerfunum og líklega sami hópurinn. Reyndar er ekki ljóst í tillögum Frjálslyndra hvort útgerðarmenn megi framselja veiðileyfi og daga og ef framsal á að vera óheimilt þarf að útskýra hvernig nýliðun geti átt sér stað og hvernig verðmyndun verður á réttindunum.
Engin takmörkun á sóknargetu
Ekkert í tillögum Frjálslyndra sem takmarkar vaxandi sóknargetu einstakra báta. Sóknarkerfi án slíkra takmarkana er dæmt til að springa í loft upp.
Misvísandi tillögur
Ósamræmi og innri mótsagnir er víða að finna í stefnu Frjálslyndra. Skipta á flotanum í fjóra flokka. Þrír eiga að vera í sóknarkerfi en einn áfram í framseljanlegu aflamarkskerfi og um þann flokk segir: "Einnig má benda á að margt bendir til þess að mögulegt sé að stjórna veiðum þar sem svo til eingöngu er verið að veiða eina tegund á hverjum tíma, með kvótum." Þessi röksemd á við um flestar veiðar eins og t.d. línu- og handfæraveiðar sem Frjálslyndir leggja til að verði í sóknarkerfi. Þarna vega þeir sjálfir að undirstöðu eigin stefnu og nú skiptir brottkastið ekki lengur máli.
Einn útgerðarflokkurinn á að greiða aflagjald og þeim útgerðum er gert skylt að selja fisk sinn á fiskmarkaði en hinir þrír útgerðarflokkarnir eru undanþegnir þessum gjöldum og kvöðum.
Aðeins tveir útgerðarflokkar eru ákvarðaðir með útgáfu veiðileyfa en hinir tveir flokkarnir takmarkaðir við þær útgerðir sem eru í dag í viðkomandi flokkum.
Niðurstaðan er sú að Frjálslyndi flokkurinn á langt í land með að móta trúverðuga stefnu sem leysir úr þeim vanköntum sem vissulega eru á kvótakerfinu. Þeir hafa ekki lausnir á takteinum í helsta máli sínu. Þeir fá falleinkunn.
Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir