Sáttin sem ekki varð

Greinar
Share

Á kjörtímabilinu hefur verið unnið að endurbótum á kvótakerfinu í sjávarútvegi í því skyni að skapa meiri sátt um það en verið hefur. Hafa ber í huga að atvinna og stöðugleiki er mikilvægast að flestra mati samkvæmt skoðanakönnunum. Það á líka við í byggðarlögum sem styðjast einkum við sjávarútveg. Botnfiskveiðar og –vinnsla er líklega stærsta greinin innan sjávarútvegs og þar hafa orðið miklar breytingar.
samdráttur og samþjöppun
Þorskveiðar hafa dregist saman úr 300-350 þús. tonn á ári í minna en 200 þús. tonn. Samdrátturinn er að jafnaði ekki minni en þriðjungur. Mikill niðurskurður á veiðiheimildum í rúman áratug virðist ekki skila sér í uppbyggingu þorskstofnsins.
Samþjöppum hefur verið síðan framsalið var innleitt, þó einkum síðustu 5 árin. Hlutur 10 stærstu fyrirtækjanna í heildarkvóta hefur tvöfaldast frá 1990, var þá 21,9% en er nú 42,6% skv. haustskýrslu 2002 Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Þetta hlutfall hefur enn hækkað og er líklega að nálgast 50%.
framsal kvóta
Í sömu skýrslu er að finna upplýsingar um áhrif framsalsins. Tekin er saman hlutdeild einstakra kjördæma (þeirra gömlu) í úthlutuðu heildaraflamarki á hverju fiskveiðiári frá 1991 til 2002/2003. Tvö þeirra Norðurland vestra og Suðurland hafa haldið sínum hlut. Reykjavík og Vesturland hafa bætt við sig um fjórðung. Á Vesturlandi er það einkum Akranes sem hefur aukið heimildir sínar, en ekki er ljóst hvernig mál þróast þar eftir að Eimskip eignaðist stærsta sjávarútvegsfyrirtæki staðarins. Á Norðurlandi eystra hafa heimildirnar aukist um 30%, úr 16,8% í 21,8% og þar er aukningin einkum á Akureyri en samdráttur á mörgum öðrum stöðum í kjördæminu. Á Austurlandi og Reykjaneskjördæmi hefur hlutdeildin minnkað um 10%. Langverst hefur framsalið leikið Vestfirðinga, hlutdeild þeirra hefur minnkað um liðlega 40%, minnkað úr 14,8% í 8,8%.
Þegar saman fer að hlutdeild einstakra byggðarlaga og landssvæði í kvóta minnkar og magnið sem hlutdeildin gefur dregst saman þarf enginn að vera undrandi á því að atvinna dregst saman, tekjur minnka og fólki fækkar.
nýliðun ógerleg
Tilfærslu á kvóta þurfa ekki að fylgja vandkvæði í atvinnulífi ef unnt er að afla veiðiheimilda í stað þeirra sem fara og nýir menn geta haslað sér völl í útgerð í stað þeirra sem hætta. Þessu er því miður ekki svo farið. Menn verða að kaupa eða leigja kvóta í dag. Verðið á leigukvóta í þorski er um 150 kr/kg en söluverðið á þorskinum sem veiddur er fyrir þessa heimild er á bilinu 110-150 kr/kg. nema eingöngu sé veiddur allra stærsti þorskurinn þá fæst hærra verð. Það sér hver maður að nýliðun er ógerningur við þessar aðstæður. Það er stærsti vandi kvótakerfisins. Verð á kvóta er ekki í samræmi við verð á fiski. Komið er í veg fyrir endurnýjun og því verða sjávarplássin svo viðkvæm fyrir ákvörðunum einstakra útgerðarmanna.
ólokið verk
Sú niðurstaða að breyta engu varðandi úthlutun veiðiheimilda en ætla úgerðarmönnum að greiða 2-5 kr fyrir hvert úthlutað kg í þorskveiðiheimild breytti í raun engu um meginvandann í greininni, verðlagningu veiðiheimildanna. Vegna andstöðu LÍÚ var hafnað að fara að vilja meirihluta Auðlindanefnar sem lagði til innköllun veiðiheimilda á löngum tíma og að verð þeirra yrði ákvarðað á markaði. Eftir stendur að vandinn er óleystur og sáttin sem að var stefnt er ekki í sjónmáli.
Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir