Engin ásættanleg niðurstaða er komin

Greinar
Share

Kvótakerfið í sjávarútvegi er mjög svo umdeilt svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Á kjörtímabilinu hefur verið unnið að endurskoðun á því með það fyrir augum að skapa meiri sátt um það og niðurstaðan varð sú að engin breyting verður á úthlutun aflaheimilda, en greitt verður svonefnt veiðigjald fyrir þær, 2-5 kr/kg miðað við þorsk. Á móti því verða felld niður gjöld sem nú eru innheimt. Í dag er greitt fyrir hvert kg. af aflaheimild í þorski um það bil 150 kr eða 30-75 sinnum hærra verð.
Þessi niðurstaða er ekki ásættanleg þar sem ekki er tekið á helstu göllum núverandi kerfis. Á meðan svo er verður enginn friður um óbreytt ástand.
Í fyrsta lagi er ekki tekið á eignamynduninni. Með framsalinu urðu veiðiheimildirnar verðmiklar og hægt að selja þær fyrir mikið fé þótt ekki hefði verið greitt fyrir þær í upphafi. Talað var um að skattleggja hagnað af sölu veiðiheimilda en það hefur ekki gengið eftir. Þvert á móti hafa opnast möguleikar á það taka hagnaðinn út sem fjármagnstekjur og greiða aðeins 10% í skatt.
Í öðru lagi hraðar kerfið mjög samþjöppun veiðiheimilda á fárra hendur. Ætla má að 10% stærstu fyrirtækin ráði yfir um helming allra veiðiheimilda og þessi þróun heldur áfram að óbreyttu. Það er ekki aðeins eignarhaldið sem færist saman heldur starfsemin sjálf. Dæmi um það er að þorskveiðar og vinnsla er svo gott sem horfin frá Hólmavík, Raufarhöfn og Akranesi til Akureyrar.
Í þriðja lagi veldur samþjöppunin verulegri byggðaröskun á þeim stöðum sem veiðiheimildir hverfa frá. Í nýjustu haustskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands kemur fram að veruleg tilfærsla hefur átt sér stað síðan framsalið var heimilað. Suðurnes, Austfirðir og Vestfirðir hafa tapað hlutdeild en Norðurland eystra, Vesturland og Reykjavík bætt sinn hlut. Vestfirðingar höfðu 14,8% af heildaraflamarki árið 1991 en nú aðeins 8,8%, hafa misst 6,1% eða með öðrum orðum misst 41% þess kvóta sem þeir höfðu árið 1991. Norðurland eystra hefur bætt við sig 5%, úr 16,8% í 21,8%. Þeir hafa í raun aukið hlut sinn um 30%. Þessu fylgir tilfærsla á störfum og tekjum svo sem berlega kemur fram í annarri haustskýrslu (2001)Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þar er sýnt fram á að meðaltekjur lækka verulega í sjávarplássum sem missa kvóta, þar sem störfin fara með.
í fjórða lagi er nýliðun ógerleg. Enginn getur haslað sér völl í sjávarútvegi nema að kaupa eða leigja veiðiheimildir. Það mun ekki breytast heldur verður að vinna að lausn út frá þeirri staðreynd. Leiguverð í þorski er í dag um 150 kr/kg en söluverð á þorskinum sem veiddur er fyrir þessa heimild er á bilinu 110 – 150 kr. Það sér hver maður að nýliðun er ógerningur við þessar aðstæður. Tilfærsla á veiðiheimildum kemur auðvitað ekki að sök, þar sem nýir menn í sjávarplássunum geta hafið rekstur í stað þess sem hættir og ætla má að menn velji að stunda útgerð þar sem hagkvæmt er. Þegar nýliðunin getur ekki orðið þýðir framsal kvóta byggðaröskun.
Í núverandi kerfi er enginn óhultur, enginn veit hver verður næstur í samþjöppuninni og tilfærslunni og enginn getur tekið við þeim sem hættir. Þessi staða er óþolandi og þess vegna er engin ásættanleg niðurstaða komin.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir