Hafró frá hagsmunaaðilum

Greinar
Share

Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp mitt þar sem lagt er til að flytja þau verkefni frá sjávarútvegsráðuneyti til umhverfisráðuneyti sem lúta að hafrannsóknum, friðun og ákvörðun um heildaraflamark úr einstökum fiskistofnum. Samhliða er gert ráð fyrir að yfirstjórn Hafrannsóknarstofnunar flytjist milli ráðuneyta til umhverfisráðuneytis. Umhverfisráðherra mun ákvarða heildaraflamark ár hvert og ráðuneytið hafa yfirumsjón með rannsóknum og gera tillögur varðandi almennt skipulag veiða innan efnahagslögsögunnar, ekki síst þær er tengjast hafsbotninum. Þá mun það veita ráðgjöf um friðunaraðgerðir og notkun veiðafæra, jafnframt því að setja almennar reglur um notkun veiðarfæra. Sjávarútvegsráðuneytið mun áfram annast stjórn fiskveiða að öðru leyti og hafa yfirumsjón með eftirliti með veiðum og mati á sjávarafurðum.
Nauðsynlegt er að gera umrædda breytingu og leggja þannig ríkari áherslu en verið hefur á umhverfisþátt rannsókna og stjórn á álagi við hagnýtingu auðlindarinnar. Ekki er eðlilegt að hagsmunaaðilar geti ráðið miklu um ákvörðun sem varðar þá miklu fjárhagslega. þegar í húfi eru náttúruauðlindir sem þjóðin byggir afkomu sína á í svo miklum mæli sem raun ber vitni. Þessi tillaga er liður í því að færa rannsóknar- og vísindastofnanir ríkisins undan beinum áhrifum einstakra atvinnugreina.
Mikil áhrif stjórnar
Helstu hagsmunaaðilarnir eru útgerðarmenn og gildandi lög gera ráð fyrir að LÍÚ tilnefni einn stjórnarmann af fimm í Hafrannsóknarstofnun. Áhrif þeirra hafa hins vegar lengi verið mun meiri, nú eru tveir stjórnendur stærstu sjávarútvegsfyrirtækja í stjórninni. En til skamms tíma voru þeir þrír eða meirihluti stjórnarinnar og þar var einn formaður stjórnarinnar. Þetta eru mjög mikil áhrif sérstaklega í ljósi þess hve víðtækt hlutverk og valdsvið stjórnarinnar er. Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn stofnunarinnar og tekur ákvarðanir um meginatriði í stefnu og starfi hennar. Stjórnin staðfestir reikninga stofnunarinnar, áætlun um rannsóknarleiðangra og þátttöku í rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum. Þá gerir stjórnir tillögu til ráðherra um skipan forstjóra og aðstoðarforstjóra, um skipulag stofnunarinnar og um starfs- og fjárhagsáætlun hennar. Það er ljóst að stjórnin kemur að öllum þáttum í starfsemi Hafrannsóknarstofnunarinnar með beinum og óbeinum hætti.
Ráðgjafarhlutverk ekki nægilegt
Athyglisvert er hve mikla áherslu LÍÚ leggur á bein áhrif, sbr. yfirlýsingar framkvæmdastjóra og stjórnarformanns samtakanna nýverið, þegar haft er í huga að lögin gera ráð fyrir aðkomu sjávarútvegsins á Hafró í gegnum svonefnda ráðgjafarnefnd, sem á að fylgjast með rekstri stofnunarinnar og vera forstjóra og stjórn til ráðuneytis. Nefndin skal fjalla um starfsáætlun stofnunarinnar og gera tillögu um verkefnaval og starfshætti. Hnykkt er á þýðingu ráðgjafarnefndarinnar með því að formaður hennar á sæti í stjórn Hafró með málfrelsi og tillögurétti.
Hins vegar koma hagsmunaaðilarnir koma sér fyrir í stjórninni og ráðgjafarnefndin hefur ekki verið skipuð umlangt árabil. Lögð er áhersla á bein áhrif og ráðgefandi hlutverki hafnað. Þetta tel ég ekki vera eðlilegt og legg því til að breytt verði lögunum um skipan stjórnarinnar og hún verði ekki skipuð hagsmunaaðilum. Áfram munu þeir þó eiga kost á ráðgefandi hlutverki.
Talsmenn LÍÚ eru mér ósammála um þetta málefni og er ekkert við því að segja. Það er eðli lýðræðisins að ólíkar skoðanir eru uppi, en harkaleg viðbrögð þeirra í minn garð eru slík að mér finnst sá vísindamaður ekki öfundsverður, sem setur fram sjónarmið sem þeim er ekki að skapi. Öruggast er að hafa rannsókna- og vísindastofnunina utan áhrifasviðs slíkra hagsmunaaðila.

Athugasemdir