Veikar byggðir gerðar veikari

Pistlar
Share

Víðast hvar á landsbyggðinni er sjávarútvegur burðarás í atvinnumálum. Þróun í þeirri atvinnugrein hefur mikil áhrif á stöðu einstakra landssvæða og byggðarlaga. Nægir þar að benda á skýrslu sem Haraldur L. Haraldsson vann fyrir Byggðastofnun. Þar kemur skýrt fram að innan aflamarkskerfisins hefur verið síðustu ár hröð þróun og aflaheimildir færst saman í æ færri stór fyrirtæki sem eru á nokkrum stöðum á landinu svo sem á Akureyri, Akranesi,Grindavík og Vestmannaeyjum, en verulegur samdráttur verið á Vestfjörðum, Austurlandi og Norðurlandi utan Akureyrar.
Á Vestfjörðum hefur samdrátturinn síðustu 3 ár verið slíkur að um hrun er að ræða. Í öðrum landshlutum er líka að finna dæmi um byggðarlög sem mátt hafa þola svipað og Vestfirðingarnir.
Samdráttur í veiðiheimildum þýðir samdráttur í atvinnu og umsvifum og því fylgir atvinnuleysi og í framhaldi af því fólksfækkun. Að sama skapi standa þau byggðarlög vel þar sem kvótastaðan hefur styrkst.
Einkennandi fyrir smábátaútgerðina er að hún hefur eflst einkum á þeim landssvæðum sem hafa látið undan síga í aflamarkskerfinu. Í gegnum þá útgerð hafa komið fram dugmiklir einstaklingar sem hafa nýtt sér þá möguleika í löggjöfinni að sækja í svonefndar aukategundir, ýsu, steinbít og ufsa, án þess að þurfa að kaupa kvóta fyrir þeim afla. Þetta hefur gert mönnum kleift að standa undir kaupum á bát og veiðiheimildum í þorski, hefja útgerð, ráða til sín fólk í vinnu og sækja fram. Þetta hefur verið andsvar manna við þeim vonbrigðum að kvótinn var seldur burt og þar með atvinnan. Forsenda byggðar eru að atvinnugrundvöllur sé traustur til lengri tíma litið og ef hann er ekki til staðar flosnar byggðin upp.
Kvótasetning aukategundanna næstkomandi haust stöðvar uppbygginguna, lokar þeim möguleika sem var, leiðir af sér fækkun útgerða, sölu á kvóta og samdrátt í atvinnu.
Það er algerlega óásættanleg byggðastefna að framkalla samdrátt og afturkipp í atvinnulífi byggðarlaga sem standa veikt fyrir. Gildir þar einu þótt boðnar sé bætur sem breyta litlu um áhrifin. Það er bitur reynsla fyrir því að kvóti er seldur og aðrir en útgerðarmenn sem búa í byggðarlögunum eru ekki spurðir og sitja eftir með sárt ennið. Það er ekki brýn þörf á því að bæta við þann kvóta sem fáir hafa undir höndum og geta verslað með, en hins vegar er mikil nauðsyn fyrir fólk í sjávarbyggðum á að aðgangur sé að tryggum veiðiheimildum.
Áhrifin af kvótasetningunni eru mönum ljós. Því á ekki að hrinda henni í framkvæmd nema aðrar breytingar á fiskveiðilöggjöfinni skapi nýja möguleika til mótvægis og unnið verði að atvinnuuppbyggingu á öðrum sviðum. Þetta er viðfangsefni þeirra sem vinna að endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar : að líta á málin í heild sinni með hagsmuni allra í huga, ekki hvað síst þess fólks sem ekki á kvóta.
Það voru engin rök fyrir því að taka málefni smábáta út úr endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, veiðar þeirra eru að vísu um 5000 tonnum af ýsu umfram það sem þeim er ætlað. En veiðum báta í aflamarkskerfinu eru líka um 5000 tonnum af ýsu umfram það er þeim er ætlað. Munurinn er sá að umframveiði smábátanna er landað og úr ýsunni unnin útflutningsvara að verðmæti a.m.k. 1 milljarður króna, en umframveiði aflamarksbátanna er hent og verður engum að gagni. Það er einkennilegt að LÍÚ liðið unni sér ekki hvíldar vegna veiði smábátanna en lætur eins og brottkastið sé eðlilegur hluti veiðanna. Það skyldi þó ekki vera að eitthvað sé bogið við verðmætamat LÍÚ.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir