Ársfundur Byggðastofnunar 2001

Greinar
Share

Ágætu ársfundargestir, iðnaðarráðherra, alþingismenn, Arne Hyttnes forstjóri SND, atvinnu- og byggðaþróunarsjóðs Noregs, stjórnarmenn í Byggðastofnun núverandi og fyrrverandi, starfsmenn Byggðastofnunar og aðrir góðir gestir.

Mér er það sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin til annars ársfundar Byggðastofnunar, sem er haldinn að Selfossi, höfuðstað Suðurlands.
Sú breyting hefur orðið á skipan stjórnarinnar frá síðasta ársfundi að Karl V. Matthíasson sagði af sér þegar hann tók sæti á Alþingi. Við sæti hans tók Örlygur Hnefill Jónsson. Þá fékk Gunnlaugur Stefánsson leyfi frá störfum síðastliðið haust og gengdi Anna Kristín Gunnarsdóttir störfum hans þar til Gunnlaugur tók sæti að nýju í stjórninni í byrjun síðasta mánaðar. Ég vil þakka þeim Karli og Önnu Kristínu fyrir samstarfið og óska Karli velfarnaðar á nýjum vettvangi. Jafnframt eru þeir Örlygur Hnefill og Gunnlaugur boðnir velkomnir til starfa. Þá lætur Einar K. Guðfinnson af störfum nú og við tekur Dréfa Hjartardóttir. Ég vil færa Einari bestu þakkir fyrir samstarfið í stjórninni síðan 1995 og bíð Drífu velkomna til starfa.

Stærsta viðfangsefnið á vegum stofnunarinnar undanfarið ár hefur verið flutningur stofnunarinnar frá Reykjavík til Sauðárkróks. Það er vandasamt verk að flytja stofnun milli landshluta og auk þess eru ekki eru fordæmi fyrir svo umfangsmiklum flutningum sem raun ber vitni. Það skiptir miklu máli að vel til takist bæði með flutninginn sjálfan og starfsemi stofnunarinnar að flutningi loknum þannig að ekki leiki vafi á því að það er hægt að flytja opinbera starfsemi til og sinna henni með góðum árangri eftir sem áður.

Upphaflega var gert ráð fyrir að það tæki um það bil ár að flytja stofnunina og að hún tæki til starfa á nýjum stað 1. júní á þessu ári.
Þessar áætlanir hafa í meginatriðum staðist, flutningum frá Engjateigi í Reykjavík lauk í enduðum maí og opnað var í nýjum húsakynnum að Ártorgi á Sauðárkróki í byrjun síðasta mánaðar. Unnið er að frágangi húsnæðisins, sem tekið var á leigu og stefnt að því að þróunarsviðið sameinist annarri starfsemi stofnunarinnar í næsta mánuði.

Starfsmönnum Byggðastofnunar í Reykjavík var boðin áframhaldandi vinna hjá stofnuninni, en þeir afþökkuðu það að einum undanskildum. Í framhaldinu var deilt um biðlaunarétt og höfðaði Samband íslenskra bankamanna mál fyrir dómsstólum til þess að fylgja eftir kröfum starfsmanna. Samkomulag tókst þó að lokum þegar stjórn Byggðastofnunar ákvað að leggja niður stöður átta starfsmanna, enda lá fyrir að stofnunin yrði endurskipulöggð að nokkru. Við það myndaðist biðlaunaréttur sem starfsmenn njóta fái þeir ekki annað starf á næstu 12 mánuðum. Fái þeir annað starf á tímabilinu sem er lægra launað en það sem þeir gegndu hjá Byggðastofnun er greiddur mismunur launanna í 12 mánuði. Stofnunin aðstoðar þessa starfsmenn við að fá annað starf og eru góðar horfur um að það takist. Verði svo verður kostnaður Byggðastofnunar af biðlaunaréttinum ekki mikill.

Aðrir starfsmenn en þessir átta höfðu ýmist fengið sér annað starf og látið af störfum eða við þá hafði verið gerður starfslokasamningur. Niðurstaðan er að tekist hefur samkomulag við alla sem störfuðu í Reykjavík, sem er mikið fagnaðarefni og það greiddi verulega fyrir því að flutningur Byggðastofnunar gengi samkvæmt áætlun.

Það sem deilt var um er hvort flutningur stofnunarinnar milli landshluta jafngildi því að starf sé lagt niður en þá verður um biðlaunarétt að ræða. Það var sjónarmið iðnaðarráðuneytisins og Ríkislögmanns að ekki sé um niðurlagningu starfs að ræða en SÍB heldur hinu gagnstæða fram. Þessi lagalegi ágreiningur er óleystur og mun rísa að nýju þegar næsta stofnun verður flutt, hvort sem það verður í heilu lagi eða að hluta.

Segja má að Byggðastofnun verði verulega breytt stofnun þegar flutningur stofnunarinnar er að fullu yfirstaðinn. Miklar mannabreytingar verða og nýju fólki fylgja gjarnan breyttar áherslur. Breytingarnar eru það miklar að í raun verður um nýja stofnun að ræða. Eftirsjá er af því starfsfólki sem lætur af störfum og ég færa því þakkir fyrir vel unnin störf um langt árabil. Sérstaklega vil ég þakka fráfarandi forstjóra Guðmundi Malmquist fyrir störf hans, en hann hefur verið forstjóri frá því að Byggðastofnun var sett laggirnar árið 1985. Nýr forstjóri Theódór A. Bjarnason hefur tekið við og er hann boðinn velkominn til starfa ásamt þeim sem eru að koma til starfa um þessar mundir. Nýrra starfsmanna bíða mikil verkefni en líka mikil tækifæri. Það er bjargföst skoðun mín að það sé nauðsynlegt og raunar stofnuninni til góðs að vera staðsett á því landssvæði sem hún á að sinna.

II.

Það er nauðsynlegt að undirstrika að þýðing stofnunarinnar minnkar ekki við það að færast út á land, heldur verður hún betur í stakk búin til þess að sinna hlutverki sínu, veita stjórnvöldum upplýsingar og ráðgjöf , móta stefnu til uppbyggingar í atvinnumálum og hrinda henni í framkvæmd með lánveitingum og framlögum. Stjórn stofnunarinnar hefur markað þá stefnu að engin breyting verði á kjaramálum starfsmanna við flutninginn og verða þeir á kjörum bankamanna eins og verið hefur. Byggðastofnun er flutt út á land í því skyni að styrkja hana en ekki til þess að breyta henni í áhrifalitla pappírsframleiðslustofnun.

Ég vil minna á að það var stjórn stofnunarinnar sem ákvað fyrir nokkrum árum að breyta stofnunni meðal annars vegna óánægju með skýrsluframleiðslu sem lítið hafði fram að færa.
Voru fengnir aðilar m.a. við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands til þess að gera úttekt á orsökum byggðaþróunar og draga fram helstu áhrifavalda hennar og að því fengnu samdi stjórnin tillögu að byggðaáætlun sem síðar var staðfest af Alþingi í marsmánuði 1999. Þróunarsvið stofnunarinnar var flutt til Sauðárkróks og síðar stofnunin öll. Þessar aðgerðir hafa breytt stofnuninni og stefnu stjórnvalda í byggðamálum.
Næstu áfangar, þar á meðal tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum sem er í undirbúningi, verða byggð á þeim grunni sem þá var lagður og upplýsingum sem stofnunin hefur aflað með athugunum erlendis um stefnu stjórnvalda.
Ég tel nauðsynlegt að draga þetta fram með skýrum hætti við þessi tímamót, að það voru hinir pólitískt kjörnu fulltrúar sem tóku af skarið og breyttu umræðunni um byggðamálin, þegar stjórnsýslan einkenndist af kyrrstöðu og áhugaleysi um málaflokkinn. Það eru líka hinir sömu pólitískt kjörnu fulltrúar sem hafa sótt auknar heimildir til lánveitinga og þannig gert stofnunina nokkurs megnuga,en það er deginum ljósara að árangur í byggðamálum er fyrst og fremst háður því fjármagni sem til staðar er, í því er aflið fólgið.
Það er mikill misskilningur ef menn halda að byggðastefna sé eitthvað sem einskorðast við landsbyggðina . Stjórnvöld hafa á hverjum tíma mikil áhrif á atvinnuþróun og ekki má gleyma því að ríkisvaldið er stærsti vinnuveitandinn á landinu. Mestu aðgerðir í byggðamálum á Íslandi síðustu áratugi hafa verið á höfuðborgarsvæðinu og ríkisvaldið hefur þar lagt mest af mörkum. Stærstu dæmin síðustu árin eru tengd ríkisbönkunum sem hafa notað sjóði sína til atvinnuuppbyggingar með hlutafjárkaupum. Bankarnir keyptu hlutafé í íslenskri erfðagreiningu fyrir 6 milljarða króna og auk þess beittu stjórnvöld sér fyrir sérstakri löggjöf málinu til styrktar. Árangurinn er líka eftir því, nú er talið að liðlega 500 manns hafi atvinnu af starfsemi fyrirtækisins. Þetta er nefnt til þess að undirstrika að þróunin er ekki náttúrulögmál heldur niðurstaða af aðgerðum stjórnvalda á hverjum tíma. Árangurinn á höfuðborgarsvæðinu er besta dæmið um hverju menn geta fengið áorkað ef viljinn er fyrir hendi.

Athugasemdir