Ertu búinn að gleyma því, Steingrímur ?

Greinar
Share

Ég sé það í Morgunblaðinu laugardaginn 23. okt. að þú hefur gert Framsóknarflokkinn að höfuðandstæðingi nýja flokksins þíns. Öðruvísi mér áður brá,þegar íhaldið var andstæðingurinn. Þú segir að ráðherrar Framsóknarflokksins hafi misst nokkra áratugi úr í umræðunni um umhverfismál og að forneskjan sé holdgerð í þeim. Gagnrýni þín beinist fyrst og fremst að Fljótsdalsvirkjun og álveri í Reyðarfirði.
Ertu búinn að gleyma því, Steingrímur að leyfið fyrir Fljótsdalsvirkjun var gefið út í apríl 1991? Þá varst þú samgönguráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags og ég minnist þess ekki að þú hafir mótmælt því opinberlega. Leyfið gaf út Jón Sigurðsson, ráðherrra Alþýðuflokksins. Ertu búinn að gleyma því, Steingrímur að einmitt þess daga var Alþýðuflokkurinn að semja við Sjálfstæðisflokkinn um nýja ríkisstjórn og að við vildum báðir að gamla ríkisstjórnin héldi áfram ? Þú vildir áfram vera ráðherra með Alþýðuflokknum og Fljótsdalsvirkjunin var ekki ásteitingarsteinn.
Ertu búinn að gleyma því, Steingrímur að þegar núverandi lög um umhverfismat voru sett árið 1993 voru allir sammála því að nýju lögin giltu ekki um þegar útgefin leyfi, þú líka ? Nú kallar þú það forneskju sem þú áður varst sammála, að virkja og að Fljótsdalsvirkjun fari ekki í umhverfismat skv. nýju lögunum.Og þú segir að ráðherrar Framsóknarflokksins hafi misst úr nokkra áratugi í umræðunni. Hefur þú nokkuð misst úr þín eigin viðhorf árin 1991 og 1993 ?
Ertu búinn að gleyma því að árin 1991 og 1993 átti rafmagnið frá Fljótsdalsvirkjun að renna í álver á Keilisnesi í Reykjaneskjördæmi en nú á álverið að vera í Reyðarfirði í Austurlandskjördæmi ? Ertu búinn að gleyma því að árið 1993 var mikið atvinnuleysi einkum á höfuðborgarsvæðinu en nú er því nánast öfugt farið ? Uppbygging á stóriðju hefur skipt sköpum, stækkun álvers í Straumsvík, nýtt álver í Hvalfirði og stækkun á Grundartanga hafa skapað mörg vellaunuð og eftirsótt störf. Á iðnaðaruppbygging bara að vera á höfuðborgarsvæðinu, Steingrímur ?
Að lokum, af hverju ræðst þú persónulega á umhverfisráðherra fyrir að framfylgja sömu stefnu og þú varst tilbúinn að standa að ? Þú segir það þitt hlutverk að ryðja braut nýjum viðhorfum, breyta hugsunarhætti og gildismati. Það er göfugt hlutverk, en finnst þér persónulegar árásir á pólitískan andstæðing vera til vitnis um það ? Er það ekki einmitt forneskjan holdi klædd ?

Athugasemdir