Afturhald og álver

Greinar
Share

Mikið rétt, á síðustu árum hefur af hálfu landsbyggðarmanna verið talað fyrir því að þjónustustarfsemi á landsvísu sé hægt að veita víðar en frá höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuþróunin er á þann veg að störfum fækkar í sjávarútvegi og landbúnaði en fjölgar í þjónustu, verslun og stóriðju. Þá hafa tekjur farið lækkandi í sjávarútveginum og í landbúnaði en hækkandi í hinum greinunum. Fólk fer eðlilega þangað sem störfin er að hafa, sækir í betri laun og ekki hvað síst í meira öryggi um atvinnu sína. Byggðaþróunin á því sér skýringar og vísast til skýrslu Stefáns Ólafssonar, prófessors við Háskóla Íslands um rannsókn á orsökum búferlaflutninga til frekari upplýsinga.
Flytjum störfin
Gott ráð til þess að ná betra jafnvægi í byggðaþróun er því að auka framboð af eftirsóttum störfum á landsbyggðinni. Þetta hefur verið gert að nokkru leyti. Landmælingar Íslands voru fluttar frá Reykjavík til Akraness. Þróunarsvið Byggðastofnunar var flutt frá Reykjavík til Sauðárkróks. Þá hefur Íslensk miðlun ehf unnið stórvirki á þessu sviði að undanförnu og stjórnvöld hafa stutt þá viðleitni eftir megni. Allt eru þetta eftirsótt störf og engum vandkvæðum hefur verið bundið að fá fólk til starfa, t.d. sóttu liðlega 20 manns um störfin á Sauðárkróki, flestir háskólamenntaðir og setti ekki fyrir sig staðsetninguna.
Afturhald Morgunblaðsins
En þetta hefur ekki allt gengið þrautalaust. Mikil andstaða birtist við flutning opinberru starfanna. Þar var Morgunblaðið framarlega í flokki. Ritstjórar blaðsins hömuðust gegn flutningnum af öllu sínu afli og töluðu af fyrirlitningu um þau rök að um byggðamál væri að ræða. Í leiðaranum gægist fram óvart sama afturhald Morgunblaðsins gagnvart fólki á landsbyggðinni. Bent er á að KEA gæti starfrækt verslun á höfuðborgarsvæðinu gegnum Netið og „raunar má spyrja hvort það hefði ekki verið skynsamlegri ákvörðun hjá KEA heldur en að hefja samkeppni með hefðbundnum hætti“. Stórfyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu hafa opnað verslanir í nokkrum kaupstöðum á landsbyggðinni og hafið samkeppni við verslanir á staðnum. Það hefur ekki borið á því að Morgunblaðið hafi gagnrýnt það, heldur hefur þvert á móti verið á það bent að samkeppnin hafi lækkað vöruverðið. Spyrja má af hverju Morgunblaðið vill verja Bónus og Hagkaup fyrir samkeppni á höfuðborgarsvæðinu ?
Enn á móti
Ánægja ritstjóra Mbl. yfir hinni nýju byggðastefnu, sem felst í því að netbanki er á Seyðisfirði í stað þess að vera í Reykjavík, vekur vissulega vonir. Þó verð ég að segja að mér sýnist að þessi nýi tónn sé einungis sleginn til þess að Mbl. geti af enn meiri hörku beitt sér gegn álveri á Austurlandi. Störf í stóriðju eru eftirsótt og vellaunuð. Það sýnir sig bæði í Straumsvík og Hvalfirði. Af einhverjum ástæðum telja ritstjórar Mbl. að fólki á landsbyggðinni eigi ekki að standa þau til boða þar. Í leiðaranum er röksemdafærslan á þann veg að dæmið um netbankann sanni að álver sé ekki eina leiðin til þess að auka fjölbreytni atvinnulífs á Austurlandi og því er blaðið á móti álveri. Þetta er ekki frambærileg röksemd heldur miklu fremur gróf móðgun við landsbyggðarmenn. Uppbygging álvera í Straumsvík og Hvalfirði er ekki eina leiðin til þess að auka fjölbreytni atvinnulífs við Faxaflóa, samt styður Morgunblaðið þá uppbyggingu. Af hverju ? Ef netbankinn verður fluttur til Reykjavíkur ætlar Morgunblaðið þá að snúast á móti stækkun álveranna í Straumsvík og Hvalfirði ? Og af hverju leggur blaðið að jöfnu áhrifin af álveri og netbanka á atvinnulíf á Austurlandi ? Það er mál að linni þessum fíflagangi á Morgunblaðinu og að ritstjórarnir snúi sér að því að gera blaðið að blaði allra landsmanna og láti af þessum þröngsýnu hreppasjónarmiðum sem þar ríða röftum.

Athugasemdir