Tekjuauka á að verja til að draga úr þjónustugjöldum

Greinar
Share

Herra forseti, góðir áheyrendur.

Á þessari öld hafa orðið meiri framfarir en dæmi eru um í 11 alda sögu þjóðarinnar. Þjóðin hefur hafist frá fátækt til velsældar á ótrúlega skömmum tíma og byggt upp þjóðfélag í fremstu röð í heiminum. Velferðarkerfið er í meginatriðum gott og styðst við velmenntað og þjálfað starfsfólk. Gallalaust er það hins vegar ekki og aðhaldsaðgerðir á síðustu árum hafa sýnt betur en áður brestina í kerfinu sem íslenska þjóðin er svo stolt af.

Landlæknisembættið sendi alþingismönnum nýlega skýrslu um aðgengi að læknisþjónustu á Íslandi árin 1996 og 1997. Minnir embættið á að almannatryggingar hafi verið stofnaðar fyrir hálfri öld til þess að tryggja almenningi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu landsins. Fullyrt er að það hafi tekist og að öllum hafi verið gert kleift að leita læknis án tillits til efnahags. Á allra síðustu árum hafa hins vegar borist kvartanir frá fólki vegna hárra þjónustugjalda og voru því gerðar tvær kannanir á aðsókn almennings að heilbrigðisþjónustunni.

Síðla vetrar 1996 gerði Landlæknisembættið könnun á högun 3000 barnafjölskyldna og kom þar fram að stór hópur fólks hafði ekki haft efni á að leita til læknis eða sérfræðings. Liðlega 30% fullorðinna í lægsta tekjuflokknum hafði frestað eða hætt við að fara til heilsugæslulæknis eða sérfræðings, 60% til tannlæknis og 25% höfðu hætt við eða frestað að taka út lyf.
Tekjulægsti hópurinn er með fjölskyldutekjur lægri en 130 þús kr. á mánuði. Könnunin leiddi einnig í ljós að slæmur efnahagur hafði líka bitnað á börnum þeirra foreldra. Allt að 10% barnanna höfðu frestað eða hætt við að fara til heimilislæknis og 17% til tannlæknis.
Þetta er algerlega óviðunandi ástand og mikill ljóður á okkar velferðarkerfi.

Önnur könnun sem félag heilbrigðisstétta stóð fyrir leiddi í ljós m.a. að 62% þeirra sem voru með tekjur undir 150 þús kr á mán. fannst að versnað hefðu möguleikar þeirra til að nota heilbrigðisþjónustuna með tilliti til kostnaðar. Athuganir þessar staðfesta að á nýjan leik ber á því að fólk hefur ekki efni á því að sækja nauðsynlega læknisþjónustu og að ástæðan fyrir því eru einkum hækkandi þjónustugjöld. Á síðustu árum hefur hækkað verulega komugjald á heilsugæslustöð og til sérfræðinga svo og göngudeildargjald. Rannsóknar- og sýnatökugjöld eru mörgum þungur baggi. Og í heild hefur hlutur sjúklings í lyfjakostnaði hækkað úr rúmum 18% í 33% sem er svipað hlutfall og í nágrannalöndunum. Í þeim samanburði ber að geta þess að laun og félagslegar bætur eru til muna lægri á Íslandi en t.d. á Norðurlöndunum.
Það sér hver maður að fráleitt er að sjúklingar hér greiði sama hlutfall af lyfjakostnaði en af minni efnum.

Meginniðurstöður úr athugunum Landlæknisembættisins eru að þjónustugjöld fyrir heilbrigðisþjónustu virðast vera of há fyrir 20-30% fólks í lægstu tekjuflokkum. Þetta eru niðurstöður sem ber að taka alvarlega.
Einn er sá hópur sem ætla má að hækkandi þjónustugjöld í heilbrigðisþjónustunni leggist þungt á, en það eru öryrkjar.
Bætur til þeirra eru aðeins um helmingur þess sem er á hinum Norðurlöndunum en af augljósum ástæðum þurfa öryrkjar oft að sækja meira til heilbrigðisþjónustunnar en aðrir. Þarna er að finna að mínu mati veikasta blettinn á íslenska velferðarkerfinu og því miður virðist það vera í mörgum tilvikum ávísun á fátækt að verða öryrki. Minna má á að skerst hafa möguleikar þeirra til þess að afla sér tekna til viðbótar við óskertar bætur almannatrygginga þar sem svonefnt frítekjumark hefur aðeins hækkað um 11% á sama tíma og almenn launavísitala hefur hækkað um 30%.
Um þessar mundir ríkir góðæri í efnahagsmálum og nýtur ríkissjóður óspart góðs af því. Þannig eru tekjur ríkissjóðs taldar verða um 15 milljörðum króna hærri á næsta ári en fjárlög þessa árs ráðgera. Auðvitað á að verja hluta af þessum tekjuauka til að draga úr þjónustugjöldum í heilbrigðiskerfinu og að bæta kjör þeirra sem verða að reiða sig að mestu á velferðarkerfið sér til framfærslu.
Auk þess tel ég að fyllilega komi til greina að fresta eða jafnvel hætta við fyrirhugaða skattalækkun um næstu áramót og verja því fé til þeirra viðfangsefna sem ég hef gert hér að umtalsefni. Velferðarkerfi okkar verður að rúma alla landsmenn.

Ég þakka þeim sem hlýddu.
Góðar stundir.

Athugasemdir