Byggðastefnu í stað veiðileyfagjalds

Greinar
Share

FYRIR rúmum þremur mánuðum var tekin ákvörðun á aukalandsfundi Alþýðubandalagsins um sameiginlegt framboð með Alþýðuflokki og
Kvennalista fyrir næstu Alþingiskosningar. Sú ákvörðun leiddi þegar í stað til úrsagna úr Alþýðubandalaginu og allstór hópur yfirgaf flokkinn, þar á
meðal tveir alþingismenn hans og sá þriðji batt enda á samstarf við hann. Þetta varð dapurleg niðurstaða og ég leyni því ekki að ég taldi ekki farsælt
að kljúfa Alþýðubandalagið til þess að taka upp samstarf við Alþýðuflokkinn.

Einn flokkur í stað samstarfs

Ákvörðun aukalandsfundarins um sameiginlegt framboð án þess að málefnagrundvöllur lægi fyrir leiddi af sér að eðlisbreyting varð á umræðunni um
samfylkingu stjórnarandstöðuflokkanna, í stað þess að vera samstarf flokkanna til sóknar í næstu Alþingiskosningum varð markmiðið að sameiginlegt
framboð leiddi til stofnunar nýs flokks í stað hinna þriggja og klofningur í Alþýðubandalagi og Kvennalista var skilgreindur sem fórnarkostnaður sem
yrði að reiða fram nú en myndi skila sér í góðum kosningaúrslitum í þarnæstu Alþingiskosningum árið 2003 undir fána hins nýja flokks.

Mikill ágreiningur er um þessa ákvörðun innan Alþýðubandalagsins og ljóst að hún mun sundra liðsveit flokksmanna og kjósenda umfram það sem nú
þegar hefur komið fram.

Ég hef ekki viljað lýsa yfir stuðningi við framboðið af þessum sökum en ákvað að bíða þess að fyrir lægi málefnalegur grundvöllur framboðsins og
gerði mér vonir um að þar væri að finna betrumbætur sem gæfu færi á að fylkja liðinu saman á nýjan leik.

Nú liggur sá grundvöllur fyrir í öllum meginatriðum eftir að málefnaskrá flokkanna var kynnt á dögunum og því hægt að taka afstöðu til málsins á þeim
forsendum. Þar er að finna ýmis góð fyrirheit en alla efnahagslega undirstöðu vantar í stefnuna og ef henni yrði hrint í framkvæmd leiddi hún til
óstöðugleika og verðbólgu. Þar er um of haldið í gildandi reglur um þátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði og kostnað við heilbrigðisþjónustu og fráleitt er
að mínu mati að huga að aðild að Evrópusambandinu.

10.000 manns suður?

Þörfin er hvað mest á djarfhuga og róttækum aðgerðum til þess að styrkja byggð um landið og stöðva fólksflutningana suður. Árlega flytjast um 2.000
manns suður af landsbyggðinni með tilheyrandi þjóðfélagslegum kostnaði og erfiðleikum fjölda manna.Í stað skilnings og stuðnings á þessu vandasama
og erfiða úrlausnarefni er meginbaráttumál sameiginlega framboðsins að efna til sérstakrar skattlagningar um milljarða króna árlega á aðalatvinnuveg
landsbyggðarinnar, sjávarútveginn. Þennan skatt munu sjómenn og aðrir launamenn í atvinnugreininni að lokum greiða með lægri launum sínum. Þessi
viðhorf styð ég ekki og hef ítrekað gert kröfu um að þeim verði breytt. Ljóst er nú að ekki verður orðið við þeim kröfum, þvert á móti er það
járnsleginn vilji forystumanna Alþýðuflokks og Kvennalista að halda óbreyttu striki og afla drjúgra tekna með þessum hætti. Þessi stefna mun ekki
verða landsbyggðinni til gagns, heldur mun hún frekar auka á strauminn suður. Á næsta kjörtímabili gætu 10.000 manns flutt suður umfram þá sem
flytja út á land með þessari stefnu. Nýir skattar af þessu tagi efla ekki byggð á Vestfjörðum.

Ég treysti mér ekki til þess að standa að framboði á þessum grundvelli og mun ekki styðja sameiginlegt framboð Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og
Kvennalista.

Í aðdraganda næstu Alþingiskosninga munu þingflokkar þeirra flokka sem standa að sameiginlegu framboði af augljósum ástæðum leitast við að
samræma afstöðu sína og þeir þingmenn sem hyggja á endurkjör verða að miða málflutning sinn við það. Í sumum málum, svo sem varðandi
veiðileyfagjald í sjávarútvegi, mun ég óhjákvæmilega lenda í andstöðu við þá sem fylgja sameiginlegu framboði. Ég tel ekki rétt að efna til slíkra
árekstra og trufla málflutning samfylkingarinnar innan frá. Ég tel eðlilegast að stíga úr röðum þeirrar fylkingar og tala fyrir mínum sjónarmiðum á eigin
forsendum, enda hef ég fullan hug á því að leggja störf mín og áherslur í dóm kjósenda í næstu Alþingiskosningum. Að vandlega athugðu máli hef ég
ákveðið að segja mig úr þingflokki Alþýðubandalagsins og í framhaldi af því úr Alþýðubandalaginu. Ég vil færa samstarfsmönnum mínum innan
þingflokksins og Alþýðubandalagsins þakkir fyrir samstarfið á undanförnum árum og árna þeim velfarnaðar á þeim vettvangi sem þeir velja sér og læt í
ljós þá ósk að störf þeirra megi verða landi og þjóð til heilla.

Athugasemdir