Jafnrétti í byggðamálum.

Greinar
Share

Undanfarna daga hafa byggðamál verið nokkuð fyrirferðamikil í fjölmiðlunum enda full ástæða til. Í Reykjavíkurblöðunum er sagt frá fundi á Akureyri þar sem leitast var við að svara spurningunni: Hefur góðærið náð til landsbyggðarinnar? Og ennfremur sagt stuttlega frá umræðu á Alþingi um ársskýrslu Byggðastofnunar. Þar kemur berlega í ljós að heldur andar köldu í garð landsbyggðarinnar. Í sem allra stystu máli eru skilaboð Reykjavíkurblaðanna: Þið getið bjargað ykkur sjálf. Byggðastofnun er sukk og svínarí. Það á ekki að vera nein fyrirgreiðsla til landsbyggðarinnar eða sérákvæði í lögum! Gott og vel, þetta er gott og gilt sjónarmið og hefur ýmis rök sem styðja það. En Reykjavíkurblöðin geta ekki um það og þegja yfir að það er rekin markviss byggðastefna í þágu höfuðborgarsvæðisins.

Ég vil hér nefna nokkur atriði mál mínu til stuðnings. Það fyrra er að áratugum saman hefur ríkissjóður kostað rekstur fjölmargra leikskóla og dagvistarheimila í Reykjavík auk þess að greiða stofnkostnað þeirra að mestu. Árið 1990 voru um 700 börn í þessum leikskólum og þar störfuðu um 200 starfsmenn þar af 100 fóstrur. Reksturinn kostaði það ár um 230 milljónir króna. Hér er átt við dagvistarheimili sem sjúkrahúsin í Reykjavík hafa rekið fyrir börn starfsmanna sinna. Við þessa starfsemi er að sjálfsögðu ekkert að athuga annað en það að sveitarfélög hafa þetta verkefni með höndum ekki ríkið. Sveitarsjóður á að greiða kostnaðinn ekki ríkissjóður. Það getur hver og einn reynt að áætla hversu hár þessi sérstaki byggðastyrkur ríkisins til Reykjavíkurborgar nemur þegar styrkurinn er á þriðja hundrað milljónir króna árið 1990.

Í fjárlögum íslenska ríkisins er ekki þessa fjárhæð að finna þaðan af síður að hún sé sérgreind sem byggðaframlag. Nei, fjárhæðin er falin í fjárframlögum til spítalanna og heitir kostnaður við rekstur sjúkrahúsa. Hitt málið sem ég vil nefna tengist því að rekstur grunnskólanna var að öllu leyti falinn sveitarfélögunum á þessu ári en áður hafði kostnaður við byggingu skólanna verið á herðum sveitarfélaganna um nokkurra ára skeið. Samhliða breytingunni á þessu ári var sett lagaákvæði til styrktar nokkrum sveitarfélögum svo þau mættu skammlaust sinna því að einsetja grunnskólann hvert hjá sér.
Sveitarfélögin sem fá þennan sérstaka ríkisstyrk eru þau sem hafa fleiri en 2.000 íbúa og samtals nemur styrkurinn um 2 milljörðum króna og greiðistá fimm árum. Langstærsti hluti þessarar fjárhæðar rennur til höfuðborgarsvæðisins, í raun er þetta sérstakur byggðastyrkur. Í ljósi hinnar miklu áherslu á sameiningu sveitarfélaga með þeim rökum að því fjölmennari sem þau væru þeim mun öflugri yrðu þau, enda gætti hagkvæmni stærðarinnar, það er kapítuli út af fyrir sig, að hinir vísustu menn komust að hinni gagnstæðu niðurstöðu. Fámennu sveitarfélögin gætu af litlum efnum byggt sína skóla en þau fjölmennu þyrftu sérstakan stuðning ríkisins. Það skyldi ekki vera að sú staðreynd, að fjölmennið er á höfuðborgarsvæðinu, hafi ráðið miklu um að í þessu máli var rökunum snúið á hvolf?

Mórallinn í þessum pistli er þessi: Það er rekin miklu víðtækari byggðastefna af hálfu ríkisins en almennt er viðurkennt. Fyrst og fremst er áherslan á byggðastefnuna í þágu höfuðborgarsvæðisins. Það er megin skýringin á miklum uppgangi höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum og það er líka stærsta skýringin á því að landsbyggðin hefur átt í vök að verjast á sama tíma. Á landsbyggðinni geta menn vel bjargað sér sjálfir og starfað með góðum árangri án sérstaks stuðnings en þá verða sömu reglur að gilda um aðra og láta verður af því að mismuna þegnunum með því að beita ríkinu, höfuðborgarsvæðinu stórlega í hag. Við þurfum jafnrétti í byggðamálum.

Kristinn H. Gunnarsson. Bæjarins besta 13. nóvember 1996.

Athugasemdir