Að stjórna fyrir fólkið.

Greinar
Share

Ólíkt hafast menn að í Noregi og á Íslandi, en nú eru málavextir þeir að líklegra er að Íslendingar flýi land og fari til Noregs en hið gagnstæða að Norðmenn þyrpist til Íslands eins og gerðist fyrir 1100 árum. Kannski að Norðmenn hafi lært eitthvað af reynslunni. Ekki er ég með þessu að vísa til afkomu norska ríkisins sem mun skila þvílíkum hagnaði á næsta ári að hann einn dugar til að borga allan rekstur íslenska ríkisins í nærfellt 4 ár auk þess að norska ríkið er skuldlaust. Það sem ég á við er að Norðmenn leyfa sér að stjórna landinu í þágu fólksins og gæta að ólíkum hagsmunum þannig að allir geti vel við unað.

Í Noregi er sjávarútvegur stór atvinnugrein eins og hér á landi og á stórum landssvæðum byggir fólk afkomu sína á sjávarfangi, bæði veiðum og vinnslu. Þar eins og hér er talið nauðsynlegt að stjórna veiðum með löggjöf. En Norðmenn kappkosta að gæta hagsmuna þeirra sem búa á umræddum landssvæðum. Í því liggur munurinn: Í Noregi er fólkið í fyrirrúmi en á Íslandi er löggjöfin sniðin að þörfum fjármagnsins. Norðmenn vilja ávaxta samfélagið en Íslendingar vilja ávaxta pundið. Ekki þar fyrir, það er svo sem ágætt að ávaxta sitt pund en það er verra þegar það er gert með því að láta greipar sópa um vasa annarra og skilja þá eftir tómhenta.

Í Noregi er kvótinn byggðatengdur í þremur nyrstu fylkjum landsins. Það þýðir að ekki er hægt að selja hann suður á bóginn, ekki heldur er hægt að láta skip veiða kvótann sem gert er út á í öðrum fylkjum. Kvótinn er bundinn svæðinu en ekki eigandanum eða skipinu. Eigandinn getur flutt suður en hann getur ekki tekið með sér kvótann. Það er bannað að leigja kvótann, þ.e. hið hvimleiða framsal innan ársins er óheimilt. Varanlegt framsal er einungis heimilt milli skipa innan sama svæðis og auk þess takmarkanir milli skipaflokka. Markmið löggjafarinnar er augljóst: að vernda hagsmuni fólksins sem býr í sjávarplássunum. Það er líka hagur þjóðfélagsins að þeir starfi í sjávarútvegi sem vilja það og kunna það. Íslendingar mættu læra af Norðmönnum, það eru gildir hagsmunir að huga að stöðu fólks á landsbyggðinni og það er ekkert bannað að verja þá hagsmuni. Um þetta snýst málið hér á landi að fá landsbyggðarmenn til að trúa því að þeir eigi fullan rétt og berja í borðið og gera mönnum ljóst að lögmætur réttur verði sóttur. Haldi stjórnvöld áfram harðræði sínu kann þeirra að bíða sama hlutskipti og harðráðum norskum ribböldum í konungssæti fyrir 11 öldum, þeir flæma frá sér þegnana.

Kristinn H. Gunnarsson

Bæjarins besta 23. október 1996.

Athugasemdir