Hvar er góðærið á landsbyggðinni ?

Greinar
Share

UNDANFARIN áratug hefur mjög hallað undan fæti á landsbyggðinni. Öll fjölgun landsmanna frá 1985, alls 26 þúsund manns, hefur safnast á
höfuðborgarsvæðið. Landsbyggðin hefur ekki náð að halda því sem nemur sínum hlut í fólksfjölguninni eða um 12 þúsund manns, heldur hefur orðið
bein fólksfækkun. Það er engin tilviljun að á þessu sama tímabili hefur vaxið upp 12 þúsund manna byggð í Grafarvogi. Þetta er þróun sem enginn
hagnast á þegar upp er staðið.

Reisa þarf mannvirki á höfuðborgarsvæðinu fyrir milljarða króna, skóla, götur, lagnakerfi og íbúðarhúsnæði fyrir fólkið sem flytur frá landsbyggðinni,
en þar standa sams konar mannvirki tilbúin til að þjóna þörfum sama fólks. Fullyrða má að undanfarinn áratug hefur verið varið tugum milljarða króna í
opinbera fjárfestingu umfram það sem hefði þurft, ef jafnvægi hefði ríkt í íbúaþróun. Þessi kostnaður er tekinn út í lakari lífskjörum þjóðarinnar, bæði á
höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Auk þess leiðir af röskuninni verðfall á íbúðarhúsnæði þar sem hallar undan fæti. Það lendir á eigendunum og
kemur fram við sölu.

Milljarðar króna þar.

Byggðaþróunin á sér ýmsar skýringar og leikur stefna stjórnvalda lykilhlutverkið í henni, bæði í atvinnumálum og uppbyggingu opinberrar þjónustu.
Það skiptir öllu hvernig fiskveiðum er stjórnað eða búið að fiskvinnslunni svo dæmi séu nefnd. Það skiptir líka miklu máli hvernig opinber þjónusta,
einn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar, er uppbyggð og dreifð um landið. Síðustu 10 ár hefur um 70% af öllum nýjum störfum í opinberri þjónustu verið
valinn staður á höfuðborgarsvæðinu, þar sem bjuggu um 54% þjóðarinnar. Þau störf draga til sín fólk og nú búa tæplega 60% landsmanna á svæðinu.
Röskunin er afleiðing af mannanna verkum.

Annað dæmi: Frá 1990 til 1994 varð um 16% fækkun á ársverkum eða um 2200 störf á Norðvesturlandi, en þar á ég við Vesturland, Vestfirði og
Norðurland vestra. Á móti varð aukning í opinberri þjónustu um 200 ársverk sem segir lítið upp í 2200 ársverka samdrátt. Á höfuðborgarsvæðinu
fjölgaði hins vegar um 2350 störf í opinberri þjónustu eða ríflega það sem samdrættinum nam í öðrum atvinnugreinum, sem var um 2000 ársverk.
Niðurstaðan varð þessi: á Norðvesturlandi fækkaði störfum um 2000 eða 10% en þeim fjölgaði um 350 á höfuðborgarsvæðinu. Afleiðingin varð
fyrirsjáanleg, frá 1990 hefur fækkað um 1400 manns á Norðvesturlandi í stað þess að fjölga um 1600 manns sem hefði þurft til að svæðið héldi hlut
sínum í íbúafjölda landsins. Á aðeins 5 árum tapaði svæðið sem svarar 3000 manns. Það verður seint kallað góðæri.

Þessi niðurstaða er afleiðing af stefnu, stefnu sem er hin eiginlega byggðastefna. Það er krafa til stjórnvalda að breyta um byggðastefnu og þau hætti að
beita ríkinu landsbyggðinni í óhag. Uppbygging opinberrar þjónustu og dreifing hennar á að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi um land allt. Það er krafa til
stjórnvalda að þau láti til sín taka ástandið í atvinnumálum og hafa stjórnarflokkarnir virkilega skrifað upp á það að fiskvinnslan í landi eigi að lognast út
af? Það er gífurlegur þungi í kröfu fólks á landsbyggðinni um jafnrétti í atvinnumálum, einkum á Vestfjörðum, þar sem byggð stendur veikar en dæmi
eru um.

Athugasemdir