Dómsmálaráðherra tekur fram fyrir hendur Hæstaréttar – rétturinn segir ráðuneytið fara með lögleysu

Greinar
Share

Fyrir fáum dögum fór fram umræða á Alþingi um meðferð yfirvalda á máli Hanes hjónanna bandarísku. Beindist gagnrýni að dómsmálaráðherra fyrir framgöngu ráðuneytisins og var studd áliti Hæstaréttar sem segir í úrskurði sínum að ráðuneytið hafi svipt Hanes hjónin rétti sínum til að leggja réttarágreining sinn við ráðuneytið undir dóm Hæstaréttar og ennfremur að gjörð ráðuneytisins hafi hvorki átt sér stoð í lögum um meðferð opinberra mála né annars staðar í lögum.
Það er vart hægt að fella meiri áfellisdóm yfir ráðuneytinu og ráðherra en gert er með þessum dómsorðum Hæstaréttar og segir þó þar ofangreindu til viðbótar, eins og það hálfa væri ekki nóg, að ráðuneytið hefði haft afskipti af máli sem að öðrum kosti hefði verið skorið úr innan fárra daga. Þetta þýðir með öðrum orðum að dómsmálaráðherra hafi gripið fram fyrir hendur Hæstaréttar og gert honum ómögulegt að kveða upp dóm um kæruefnið sem undir hann var borið.
I.

Áður en lengra er haldið er rétt að rifja upp aðalatriði málsins.
Hanes hjónin eru eftirlýst í Bandaríkjunum grunuð um brottnám barnsbarns síns og Rannsóknarlögreglu ríkisins hafði borist alþjóðleg handtökuskipun á hendur þeim. Í framhaldi af því var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjaness sem heimilaði handtöku hjónanna, húsleit á heimili þeirra svo og taka barnsins úr þeirra umsjá. Þennan úrskurð kærðu Hanes hjónin til Hæstaréttar. En áður en Hæstiréttur hafði fjallað um málið hafði dómsmálaráðuneytið afhent barnið bandarískum stjórnvöldum og móðir þess var farin úr landi með barnið. Þar með var Hæstarétti að eigin mati gert ókleift að kveða upp dóm sinn um réttmæti úrskurðar undirréttar í Reykjanesi. Sjónarmið gagnrýnenda er þetta: Hanes hjónin eiga þann rétt að geta borið undir Hæstarétt úrskurð undirréttar, það eru grundvallarmannréttindi, jafnvel þótt þau kunni að vera sek um brot gegn bandarískum lögum eða alþjóðasamningi um brottnám barna sem víða hefur verið lögfestur, m.a. hér á landi.
Gleymum því ekki að undirréttardómur veitir heimild til handtöku hjónanna, veitir líka heimild að fara inn á heimili þeirra og taka úr þeirra vörslu barn. Það hljóta allir að skilja og vera sammála um að það eru grundvallarmannréttindi að geta borið slíkan úrskurð undir dóm Hæstaréttar.
Þenna rétt tók dómsmálaráðherra af Hanes hjónunum, og ekki bara það heldur tók jafnframt af Hæstarétti möguleikann á því að fjalla efnislega um málið.
Framgangur ráðherra í málinu er vítaverður og hlýtur að kalla á opinbera umræðu um hvernig eigi að bregðast við nú og ekki síður ef sambærileg tilvik koma upp síðar. Þar þarf að ræða stöðu ráðherrans gagnvart Alþingi. Sérstaklega þarf að taka fyrir stöðu ráðherrans gagnvart Hæstarétti þar sem um dómsmálaráðherra er að ræða og má ég minna á að það er einmitt dómsmálaráðherrann sem skipar hæstaréttardómara.

II

Heldur syrtir í álinn fyrir dómsmálaráðherra þegar athuguð eru fyrirliggjandi gögn málsins. Þau benda nefninlega til þess að um ásetning hafi verið að ræða af hálfu ráðuneytisins en ekki mistök eða klaufaskap. Þar vil ég fyrst nefna að í bréfi lögmanns Hanes hjónanna til Hæstaréttar kemur fram að lögmaðurinn hafði verið fullvissaður um það að ráðuneytinu að barnið yrði ekki afhent bandarískum stjórnvöldum nema að undangengnum dómsúrskurði Hæstaréttar. Þar kemur líka fram að lögmaðurinn lagði ríka áherslu á það vegna þess að kæruréttur hjónanna yrði bersýnilega marklaus og brotinn ef barnið yrði afhent áður en dómur félli. Ráðuneytinu var því vel kunnugt um afleiðingar þess að bíða ekki úrskurðar Hæstaréttar. Þar kemur líka fram að ráðuneytið gerði þá aðalkröfu í Hæstarétti að málinu yrði vísað frá, það var varakrafa að Hæstiréttur staðfesti úrskurð undirréttar.
Hvers vegna ? Ef ráðuneytið hefur trúað því að það hefði lögin sín megin var þá ekki eðlilegt að það krefðist þess að úrskurður undirréttar yrði staðfestur og í framhaldi dómi Hæstaréttar yrði barnið afhent ? Hvaða nauðsyn bar til þess að ráðuneytið kom í veg fyrir að Hæstiréttur fjallaði um kæruefnið ? Hvers vegna gekk ráðuneytið á bak orða sinna gagnvart lögmanni Hanes hjónanna um að bíða dóms Hæstaréttar ?
Eftir umræðuna á Alþingi standa eftir fleiri spurningar ósvarað en fyrir hana.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir