Landsvirkjun: Skattlagning í skjóli einokunar

Greinar
Share

Fyrir fáum dögum voru afgreiddar breytingar á lögum um Landsvirkjun. Það vekur helst athygli að með breytingunum er ekki
hugsað um hag orkukaupenda, þeirra sem borga rekstur og fjárfestingar fyrirtækisins. Í lagabreytingunum eru engin ákvæði um
lækkun orkuverðs, engin fyrirmæli um að batnandi hag Landsvirkjunar verði veitt til orkukaupenda með lægra verði fyrir orkuna.
Þvert á móti, rekstraráætlun fyrirtækisins fram til ársins 2010 gerir ráð fyrir liðlega 14200 milljóna króna reiknuðum arði.

Auk þess er áætlað að verja um 1300 milljónum króna í ábyrgðargjald, sem greitt er eigendum og er í raun dulbúin arðgreiðsla.
Samtals eru þetta um 15500 milljónir króna sem áætlað er að færa úr vösum orkukaupenda, fyrst og fremst almennings í landinu,
til svokallaðra eigenda, ríkissjóðs, borgarsjóðs Reykjavíkur og bæjarsjóðs Akureyrar. Þetta á að gerast þrátt fyrir þá
stefnumörkun að lækka orkuverðið um 2-3% árlega frá og með árinu 2001.

22% lækkun strax?

Spurningin sem blasir við er þessi: hvað gæti Landsvirkjun lækkað gjaldskrá sína til almennings ár hvert mikið umfram þessi 2-3%
ef arðinum væri varið til lækkunar orkuverðs?

Þeirri spurningu vildi ríkisstjórnin ekki svara svo það liggur ekki fyrir, en eftirfarandi staðreyndir gefa allgóða vísbendingu:
Samkvæmt áætlunum Landsvirkjunar verður arðurinn, að meðtöldu ábyrgðargjaldi, um 1100 milljónir króna að meðaltali ár hvert
á tímabilinu 1997-2010.

Tekjur fyrirtækisins af raforkusölu til almenningsveitna nema um 5000 milljónum króna árlega.

Áætlaður arður er því um 22% af tekjum af raforkusölu til almenningsveitna.

Samkvæmt þessum upplýsingum verður svarið við spurningunni þetta: miðað við að öllum arðinum verði varið til lækkunar á verði
raforku til almenningsveitna er hægt að lækka verðið strax um 22% og síðan 2-3% árlega frá 2001 til 2010.

Munurinn á þessum tveimur kostum er gríðarlegur. Annars vegar leið ríkisstjórnarinnar: óbreytt verð næstu 4 ár, síðan 2-3%
lækkun á ári næstu 10 ár, hins vegar ef reiknuðum arði ásamt ábyrgðargjaldi yrði varið til að lækka raforkuverð til
almenningsveitna: 22% lækkun strax og það verði næstu 4 ár, síðan 2-3% lækkun á ári á verðið eins og það er eftir 22%
lækkunina.

Það ber að hafa í huga að hagnaðurinn er áætlaður verða mun meiri en reiknaður arður. Lætur nærri að um 1/3 hluti hagnaðar, um
6,5 milljarðar króna, verði eftir í fyrirtækinu til að styrkja eigið fé þess, þannig að það er engin goðgá að verja andvirði reiknaðs
arðs til þess að lækka raforkuverð.

Arðurinn í fyrirrúmi

Nýju lögin hafa þann eina tilgang að bæta fjárhagslega stöðu eigenda Landsvirkjunar á kostnað orkukaupenda. Meðal annars er
gripið til óvandaðra reikningsæfinga til þess að fá út að raunveruleg framlög eigenda séu 14 milljarðar króna í stað 2 milljarða kr.
eins og staðreyndin er og síðan krafist 5-6% arðs af 14 milljörðunum. Þessar kúnstir eru grundvöllur þess að reikna arð árlega
upp á 920 til 1250 milljónir kr. að meðtöldu títtnefndu ábyrgðargjaldi, í stað þess 100-200 milljónir kr. sem væri eðlilegt miðað
við raunveruleg framlög eigenda.

Staðreyndin er sú að Landsvirkjun hefur fjármagnað framkvæmdir sínar að mestu leyti með lánsfé. Vextirnir voru innheimtir af
orkukaupendum í gegnum gjaldskrá. Arðurinn á auðvitað að renna til þeirra sem borguðu brúsann, fólkið á að vera í fyrirrúmi en
ekki fégráðugir stjórnmálamenn.

Athugasemdir