Í ÞJÓÐFÉLAGI sem byggir efnahagslegt sjálfstæði sitt að mestu á sjávarútvegi, veiðum og vinnslu, skiptir miklu máli hvernig löggjöfin er á því sviði.
Sérstaklega hefur löggjöf um stjórn fiskveiða verið í brennidepli og gífurlega umdeild árum saman. Eitt hefur þó einkennt málið öðru fremur, gengið
hefur verið út frá því að fiskveiðar séu mál eigenda skipa, útgerðarmanna. Deilurnar hafa síðan snúist um þá hagsmuni. Löggjöfin ber þess merki að
hagsmunir annarra sem starfa við veiðar og vinnslu hafa verið mjög víkjandi.
Hin vanmetna auðlind
Ég vil beina athygli að þætti sem mér finnst hafa verið algerlega vanmetinn. Það er að fólkið sem veiðir fiskinn og vinnur úr honum er stærsta auðlindin.
Löggjöfin verður að tryggja að það fólk stundi störf til sjávar sem helst vill það og helst kann það. Hefðbundið sjávarpláss er mikil auðlind fyrir
íslenska þjóð, einkum og sér í lagi fyrir þá landsmenn sem kjósa að stunda önnur störf en í sjávarútvegi. Í sjávarplássinu snýst lífið um fisk og aftur fisk
og fólk sérhæfir sig á einn eða annan hátt innan sjávarútvegsins. Það er helst í andrúmslofti sjávarplássins að atvinnugreinin laði til sín dugmikið fólk,
sem oft verða svo frumkvöðlar nýjunga og framfara sem þjóðin öll nýtur góðs af. Þegar að því kemur að setja í stjórnarskrá lýðveldisins ákvæði um
að fiskistofnarnir séu sameign þjóðarinnar er óhugsandi annað en að jafnhliða verði tryggður réttur sjávarbyggðanna til nýtingar á þeim.
Grunnslóðarmið verstöðvar
Ég legg áherslu á að löggjöf um stjórn fiskveiða treysti íslenska sjávarplássið ekki síður en fiskistofnana. Til þess þarf að skipta fiskveiðilögsögunni og
taka upp grunnslóðarmið. Eðli málsins samkvæmt hafa þau mið verið sótt frá nálægum verstöðvum og öðrum ekki. Ég tel því sjálfgefið að þegar
takmarka þarf veiðar verði tryggður réttur íbúa sjávarplássanna til veiða á hefðbundnum miðum sínum. Sá réttur er einvörðungu bundinn byggðunum
og flyst ekki með bátum eða mönnum. Hér er um að ræða byggðatengdan veiðirétt grundvallaðan á sögulegri skírskotun. Tiltölulega einfalt er að
afmarka grunnslóðina og svæðisskipta henni. Þessari breytingu fylgir að leyfðri heildarveiði verður að skipta milli miðanna. Núverandi löggjöf skilur
hagsmuni byggðarlaganna eftir í uppnámi og um hana verður aldrei sátt að óbreyttu. Tillaga mín þýðir að ákveðinn hluti fiskveiðilögsögunnar er tekinn
undan heildarlöggjöfinni og um þann hluta gildi aðrar reglur. Þessar tillögur lagði ég fyrir miðstjórn Alþýðubandalagsins fyrir skömmu og í ályktun
miðstjórnar segir: "Miðstjórn telur að styrkja eigi stöðu bátaútgerðar á grunnslóð og tryggja aukinn rétt þeirra sem stunda veiðar á heimamiðum. Það
er raunhæfasta leiðin til að efla sjávarplássin og stuðla að aukinni atvinnu í landi." Þessi ályktun tekur að öllu leyti undir sjónarmið mín. Það er verkefni
sjávarútvegshóps miðstjórnar að útfæra stefnumörkun miðstjórnar nánar á næstu vikum og vonandi verður sú útfærsla lögð fyrir haustfund miðstjórnar
í nóvember næstkomandi.
Athugasemdir