Engan auðlindaskatt að óbreyttu

Greinar
Share

Innan Alþýðubandalagsins fer nú fram heildarendurskoðun á stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum. Farið er yfir málið lið fyrir lið,
veiðarnar, vinnsluna og sölumálin. Lífskjör þjóðarinnar ráðast mikið af því hvernig til tekst í sjávarútvegi og sæmileg sátt þarf að
vera um stefnuna. Launamannaflokkur eins og Alþýðubandalagið hlýtur að gæta sérstaklega að hagsmunum sjómanna og
landverkafólks í stefnumörkun sinni, bæði atvinnu- og búsetuhagsmunum.

Á miðstjórnarfundi flokksins nýlega voru einkum stjórn fiskveiðanna til umfjöllunar og lagðar ákveðnar meginlínur. Að nokkru eru
fyrri viðhorf ítrekuð en jafnframt slegnir nýir tónar sem nokkrum tíðindum sæta. Fyrst skal nefnt að þingflokki var falið að beita sér
fyrir því að gerð yrði vönduð úttekt á afleiðingum kvótakerfisins, meðal annars á viðgangi fiskistofna, byggðaþróun og kjörum
sjómanna og verkafólks.

Veiða en ekki versla

Miðstjórn samþykkti að afnema bæri réttinn til leigu á aflaheimildum. Með því er áréttað að útgerðarmenn eiga að veiða fisk en
ekki að versla með veiðiréttindi. Það er meginreglan sem stjórn veiða á að byggja á, enda eru aflaheimildir einstakra skipa
miðaðar við veiðar þess. Með þessu mun verslun miðast einvörðungu við sölu varanlegra heimilda. Það fyrirkomulag á að duga
sem svigrúm fyrir hagræðingu innan greinarinnar.

Núgildandi leigukvótafyrirkomulag vegur að hlutaskiptakerfi sjómanna með því að andvirði leigukvóta fer framhjá skiptum. Það
vegur að atvinnuöryggi þeirra og launum þar sem dæmi eru þess að sjómönnum hafi verið gert að greiða af launum sínum fyrir
kvótakaup. Þá er það óeðlilegt og gegn þeim tilgangi að stjórna veiðum að unnt sé að leigja árum saman kvóta í tiltekinni
fiskitegund án þess nokkurn tíma að veiða hann. Úthlutun kvóta til skips er í þeim tilgangi að veiða fiskinn en ekki til þess að
viðkomandi útgerðarmaður geti sótt til sín peninga upp úr vösum sjómanna á öðrum skipum með leigu á kvótanum.

Ekki veiðileyfagjald á kvóta

Miklar umræður hafa verið um veiðileyfagjald eða auðlindaskatt. Miðstjórnin tekur afdráttarlausa afstöðu til þeirrar tillögu sem
helst hefur verið uppi sem er að ríkið innheimti gjald fyrir úthlutaðan kvóta skips en að öðru leyti verði kerfið svipað. Þeirri tillögu
er hafnað með öllu. Engu óréttlæti er eytt og engar umbætur felast í slíkri gjaldtöku sem líkist mest brúttóskatti á fyrirtæki í
sjávarútvegi einvörðungu og án tillits til afkomu. Slíkur skattur myndi fyrst og fremst leiða til lækkunar á launum sjómanna og
landverkafólks eins og sannast með því að skoða áhrifin af leigukvótanum og er hann þó ekki nema brot af heildarkvótanum.

Það var mikilvægt að Alþýðubandalagið svaraði skýrt þessari spurningu. Sjávarútvegshópur miðstjórnar mun svo fjalla um önnur
álitaefni, svo sem tillögur Steingríms J. Sigfússonar um fyrirkomulag á sölu varanlegra aflaheimilda og tillögur Jóhanns Ársælssonar
um uppboðsmarkað aflaheimilda. Þá verða einnig athugaðir kostir sóknarstýringaraðferða.

Allar þessar tillögur kalla á verulegar breytingar á stjórnkerfi fiskveiða og eðlilegt að við skoðun á því sé fyrirfram engri
ofangreindri hugmynd hafnað né því hvort veiðileyfagjald eða auðlindaskattur geti komið til skoðunar í nýju stjórnkerfi. Breytingar
á kerfinu til að mæta settum markmiðum ber að skoða með opnum huga, fyrirfram er engri tillögu hafnað en hún er heldur ekki
samþykkt.

Gjaldskrá á atvinnugrein hlýtur að taka mið af afkomu fyrirtækja og má ekki verða til þess að ganga á hlut launamanna. Þá er
nauðsynlegt að tengja hugmyndir um gjald fyrir afnot af fiskimiðum almennri auðlindastefnu og hafa samræmda stefnu um nýtingu
þeirra og loks verður að gæta að því að ríkisvaldið mismuni ekki atvinnugreinum með skattlagningu.

Athugasemdir