Strúktúrvandi við Laugaveg – vantar fleiri kvótakerfi ?

Greinar
Share

Er landsbyggðin óvinur launafólks eða er fólk á landsbyggðinni og launafólk tveir aðskildir þjóðfélagshópar með ólíka hagsmuni sem rekast á? Svo er að skilja á grein sem birtist í síðasta Vikublaði undir fyrirsögninni „Ríkisstjórnin blekkir og launafólk borgar.“

Þar er sett fram sú þjóðfélagslega greining að „gengisfelling (hafi verið) til þess gerð að taka fjármuni frá launafólki til að viðhalda óbreyttri byggð í landinu“ og hnykkt á með eftirfarandi: „Valið stendur á milli þess að halda byggðinni í landinu í núverandi horfi og greiða fyrir það með hærri sköttum eða að grisja byggðina með þeim hætti að stjórnvöld haldi að sér höndum þegar skuldug fyrirtæki verða gjaldþrota en grípa ekki til gengisfellinga og lánabreytinga til að reksturinn haldi áfram.“

Þessi tónn hefur svo sem heyrst áður. Kratarnir eru mjög uppteknir af þessari hugsun og sjálfur forsætisráðherrann, hreppsnefndarmaður í Reykjavík, hélt þessu fram haustið 1991. En það kemur á óvart að málgagn Alþýðubandalagsins hafi sýkst af þessum vírus og þykir mér stunginn tólkurinn. Það er fremur ógeðfellt að flokka landsmenn í tvo hópa; annan sem býr á landsbyggðinni og starfar við sjávarútveg – sá er dýr og óhagkvæmur; og svo hinn sem býr væntanlega á höfuðborgarsvæðinu, er kallaður launafólk og verður að borga hærri skatta vegna fyrrnefnda hópsins. Fyrir utan að þessi skipting er arfavitlaus, þá má með viðlíka hundalógík búa til ýmsar skiptingar og halda því fram að einn hópur sé byrði á öðrum. Til dæmis má segja að þeir sem búa í stóru íbúðarhúsnæði séu byrði á þeim sem búa í litlu. Með einföldum reikningsæfingum er hægt að sýna fram á að hægt sé að koma 100 þúsund Reykvíkingum fyrir í minna húsnæði og færri íbúðum við færri götur o.s.frv. og reikna svo út einhverja milljarðatugi sem ekki sparast af því að veruleikinn er annar. Og kalla þetta strúktúrvanda og skrifa um það grein í Vikublaðið.

Enn ekki meira um það. Það þyrfti langa grein til þess að taka þetta efni fyrir. Aðeins tvennt til viðbótar. Það fyrra varðar hina úreltu fyrirgreiðslupólitík við sjávarútveginn eins og það heitir í Vikublaðsgreininni. Gengisfelling er ekki ákvörðuð út frá stöðu gjaldþrota fyrirtækja og gagnast þeim hvað síst. Uppsafnaður skuldavandi í sjávarútvegi er ekki fyrst og fremst að kenna mislukkuðum forstjórum heldur stjórnvaldsaðgerðum. Háir vextir og fullkomið frelsi á verðlagningu vöru og þjónustu til sjávarútvegs hækkar útgjöldin.

Tekjurnar ráðast af gengisskráningunni sem aftur er ákveðin með handafli stjórnvalda. Svo dæmi sé tekið þá flæddu milljarðatugir króna frá sjávarútvegi með fastgengisstefnunni í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Þeir komu m.a. fram í lægra vöruverði en ella hefði verið, þ.e. sjávarútvegurinn niðurgreiddi almennt vöruverð í landinu. Strúktúrvandinn í sjávarútvegi er fremur fólginn í þessu misræmi á ákvörðun tekna og gjalda en dreifingu fyrirtækjanna um landið.

Hvernig leyfa menn sé að vilja veiða…….

Síðara atriðið er um það meinta óþurftarverk Bolvíkinga að þeir vilja gera út sín skip og reka frystihús og hlut þingmanna kjördæmisins í því. Bolungavík er ekki eini staðurinn sem hefur mátt þola gjaldþrot aðalatvinnufyrirtækisins á staðnum. Þessa slóð hafa á undan gengið hin síðustu ár Patreksfjörður, Bíldudalur og Suðureyri, svo einhverjir staðir séu nefndir.

Allir staðirnir eiga það sammerkt að hafa orðið til vegna nálægðar við fiskimið. Það er forsenda tilveru þeirra, þeir liggja vel við auðlindinni. Forsendan hefur ekki breyst, fiskimiðin eru enn á sínum stað. Þar með er náttúrulegur grundvöllur enn fyrir hendi. Engan vegin getur það verið óþurftarverk að sjávarútvegur verði áfram á þessum stöðum, heldur miklu fremur þjóðhagslega hagkvæmt. Það er enginn dauðadómur fyrir pláss sem þessi að fyrirtæki fari á hausinn. Meðan náttúrulegar aðstæður eru fyrir hendi og almennur rekstrargrundvöllur í sjávarútvegi munu koma ný fyrirtæki í stað þeirra sem falla.

Óþurftarverkið eru þau mannanna verk að búa til skömmtunarkerfi réttinda sem ganga kaupum og sölum og gera að verkum að fólk í sjávarplássum verður að borga sérstakan skatt til að geta bjargað sér. Því miður eru þeir of margir blýantsnagararnir í stjórnkerfinu sem halda að hægt sé að reka sjávarútveg eins og miðstýrðan áætlunarbúskap. Þetta var reynt fyrir austan. Það kemur mér á óvart að bak við tölvu á Laugaveginum leynist stuðningur við áætlunarbúskapinn.

Hvað Bolvíkinga varðar er rétt að upplýsa málgagn Alþýðubandalagsins um að þeir þurftu að greiða um það bil hálfan milljarð króna fyrir kvótann, það er sérstakur skattur sem launamenn í plássinu þurfa að borga auk þess að greiða sinn hlut í reikningnum sem sendur er skattgreiðendum vegna gjaldþrotsins. Sá skattur rennur að mestu til opinberra sjóða og banka. Mér er ekki kunnugt um sambærilegan Laugavegsskatt.

Og að lokum; engin fyrirgreiðsla hefur fengist úr opinberum sjóðum vegna kaupa Bolvíkinga á togurum sínum og hefur ekki staðið til boða. Þeir verða að standa sjálfir að fullu undir endurreisn atvinnulífsins og munu gera það þótt kvótaskatturinn reynist þeim vafalaust þungur í skauti. Mér er spurn; hvað á Vikublaðið að borga mikið af gjaldþroti Þjóðviljans?

Höfundur er þingmaður Alþýðubandalagsins fyrir Vestfjarðakjördæmi.

Vikublaðið 9. júlí 1993.

Athugasemdir