Sjómannadagurinn í Bolungavík 1993

Greinar
Share

Ágætu hátíðargestir. Í þeim brag sem við syngjum oft á góðri stundu segir á einum stað: „Í Bolungarvík er björgulegt lífið.“ Vissulega er það svo, að oft hefur verið björgulegt lífið í þessari elstu verstöð landsins. Hafið gjöfult, gæftir góðar og aflabrögð mikil. Hitt er líka ljóst, að komið hafa tímar þar sem erfiðleikar til lands og sjávar hafa sett mark sitt á lífsbaráttuna. Í heildina tekið má það til sanns vegar færa að í Bolungarvík hafi verið björgulegt lífið, þrátt fyrir hafnleysu og erfiðar samgöngur á landi við nálæg byggðarlög. Þar höfum við notið nálægðar við fiskimiðin og þess að hér hefur búið fólk sem hefur kunnað til verka í starfi sínu til sjós eða lands og hefur haft dugnað og seiglu til þess að yfirvinna slæmar aðstæður. Samt er það svo, að þegar við gáum til veðurs þennan sjómannadag undir lok tuttugustu aldarinnar er veðurútlit þannig að varla hafa fleiri blikur verið á lofti í einu en um þessar mundir.

Efnisval í hátíðarræðu í dag getur ekki annað en tekið mið af því. Staða sjávarplássa í íslensku samfélagi er orðin slík, að hún er brýnasta úrlausnarefnið um þessar mundir á vettvangi þjóðmála.

En áður en komið er að því vil ég víkja aðeins að öryggismálum sjómanna. Um allt land hefur það verið krafa almennings að stjórnvöld sæju til þess að Landhelgisgæslan hefði yfir að ráða þyrlum, sem væru það stórar að þær gætu tekið áhafnir stærstu skipa um borð ef því væri að skipta, og sem væru aflmiklar og búnar afísingarbúnaði og gætu því brugðið við skjótt og væru síður háðar veðrum en nú er. Slíkur tækjakostur er tvímælalaust mikið öryggisatriði fyrir alla landsmenn og gildir þá einu hvort menn eru að ferðast á vegum landsins eða í óbyggðum. Samt er það svo, að heitast brennur málið á sjómönnum og aðstandendum þeirra og úr þeirri áttinni hefur helst verið knúið á um úrbætur. Það er óviðunandi að svo skuli að málum staið, að fjarri því er að sjómannastéttin búi við það öryggi sem tæknibúnaður nútímans býður upp á, þegar sjávarháska, veikindi eða slys ber að höndum. Það er þjóðfélaginu til skammar, þegar höfð er í huga sú staðreynd að íslenskt velferðarkerfi er reist á þeim grundvelli sem sjávarútvegurinn leggur. Og það er beinlínis ábyrgðarleysi af ráðamönnum þjóðarinnar að hvetja til sjósóknar langt út á haf, vitandi að ekki er hægt að sinna kalli um skjóta aðstoð og að við þær aðstæður eigi menn allt undir erlendan her að sækja, sem meti viðbrögð út frá eigin forsendum. Dæmi úr fréttum liðinnar vikur sannar svo ekki verður um villst að skjótra umbóta er þörf.

Baráttan fyrir öflugri björgunarþyrlu hefur verið löng og ströng og loks sér fyrir endann á henni. Í marsmánuði 1991 náðist það fram að Alþingi ályktaði að ráðist skyldi í kaup á því ári og veitt var heimild á lánsfjárlögum til kaupanna. Síðan hefur verið knúið á um efndir, m.a. með flutningi sérstaks lagafrumvarps undir forystu Inga Björns Albertssonar. Á yfirstandandi þingi var svo komið vegna stuðnings þingmanna úr öllum flokkum, að telja mátti víst að frumvarpið yrði samþykkt, en af atkvæðagreiðslu varð ekki þar sem þingi var frestað áður en til hennar kom.

Þrátt fyrir það varð sá árangur að ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu um að ráðist yrði í kaup á nýrri björgunarþyrlu á þessu ári. Það er vel og vonandi að öflug björgunarþyrla með afísingarbúnaði verði komin áður en sjómannadagur rennur upp að ári.

Það er gott að menn muni eftir sjómönnum á sjómannadaginn og meti störf þeirra að verðleikum þá, en hitt er betra að menn sýni það með verkum sínum að hugur fylgi máli. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að það kom í minn hlut að vera framsögumaður meirihluta allsherjarnefndar Alþingis og leggja til að áðurnefnt frumvarp yrði samþykkt. Af því tilefni þurfti ég að kynna mér fyrirliggjandi gögn, samþykktir sem gerðar höfðu verið í gegnum árin og sendar Alþingi, umræður um málið, tæknileg málefni og fleira sem því tengist og fjársöfnum almennings. Það kom mér á óvart hve almenn og víðtæk viðbrögð almennings hafa verið við kröfunni um kaup á öflugri björgunarþyrlu og ennfremur hversu reiðubúnir menn voru til að safna fé til kaupanna. Jafnframt var það lærdómsríkt að upplifa hversu seint getur gengið að ná fram máli sem allir í orði kveðnu eru sammála um. Þótt fullkomin björgunarþyrla sé dýr er hægt að kaupa 3 – 4 þyrlur á hverju ári fyrir ferða- og risnukostnað ríkisins og 2 þyrlur fyrir ónafngreint veitingahús sem snýst í hringi.

Sjávarútvegurinn er olnbogabarn í íslensku atvinnulífi.

Ég gat um það fyrr að varla hefðu fyrr verið fleiri blikur á lofti en þennan sjómannadag. Það á ekki bara við um Bolungarvík og ekki bara við Vestfirði heldur á það við um allt land. Þar kemur margt til. Nefna má stöðugt minnkandi veiði á þorski og afleitar spár fiskifræðinga. Árum saman hafa skiptahlutföll milli innflutnings og útflutnings og milli framleiðslu og þjónustu verið þannig að sjávarútvegur hefur verið olnbogabarn í íslensku atvinnulífi og ekkert fer milli mála að rekstrargrundvöllur íslensks sjávarútvegs, eins og hann er uppbyggður, er að hrynja. Að óbreyttu stefnir því í hrun sjávarútvegsfyrirtækjanna í landinu. Spurningin er ekki lengur sú hvort eigi að fara gjaldþrotaleiðina í sjávarútvegi, vegna þess að gjaldþrotaleiðin er í fullum gangi. Það hafa Bolvíkingar fengið að reyna, eins og Bílddælingar og Súgfirðingar áður. Þetta mat á stöðu sjávarútvegs er ekki bara mitt mat heldur er þetta nánast orðrétt úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 24. apríl síðastliðinn.

Fiskveiðistjórnunin er með þeim hætti að tilverugrundvöllur sjávarplássa er settur í uppnám og kemur það sérstaklega fram við þessar aðstæður. Hvort sem okkur líkar betur eða verr lifum við á tíum þar sem þau sjónarmið ríkja að byggðin sé of dreifð um landið og byggðarlögin of mörg og fámenn. Á opinberum vettvangi hefur það verið sett fram af áhrifamönnum í íslensku þjóðfélagi að vissar byggðir eigi ekki rétt á sér lengur og víða um land sé launum og þjónustu haldið niðri af þeim sökum. Slík byggðarlög hafa verið nefnd lifandi byggðasöfn og sé best að leggja þau niður e´að sameina öðrum.

Við eigum að vera meðvituð um það að byggð hefur breyst og þróast í gegnum tíðina og mun gera það áfram um ókomna tíð í takt við náttúrulegar aðstæður. Það er ógerlegt og óskynsamlegt að ætla að frysta eitthvert tiltekið ástand í þeim efnum, en við eigum heldur ekki að beita handafli til þess að knýja fram breytingar. Stjórnmálamenn eiga að vera þess minnugir að þeir eru kosnir af fólki og eiga að vinna fyrir fólk. Aðgerðir þeirra í stórum málum sem þessum eiga að virða rétt fólksins og vilja.

Sem betur fer eru uppi þess skýr merki að menn séu að átta sig á því að ekki gengur lengur að búa að sjávarútveginum eins og verið hefur og einnig að gjaldþrotastefnan gengur ekki. Forsætisráðherra hefur óskað eftir því að allir stjórnmálaflokkar taki höndum saman um það verkefni að móta tillögur um aðgerðir í sjávarútvegsmálum. Það er viðurkenning á því að eitthvað verði að gera og vonandi leiða þær viðræður til þess að bjartari framtíð verði framundan fyrir sjávarplássin.

Ég bind miklar vonir við þessar viðræður, sem hljóta að taka á öllum meginþáttum vandans, þar með talið fiskveiðistjórnunarkerfinu. En þetta skömmtunarkerfi réttinda með séreignarfyrirkomulagi á fiskistofnunum er að verða eitt helsta vandamál þjóðfélagsins. Það verður til þess að etja saman mönnum, etja saman stéttum og byggðarlögum. Það vekur upp deilur og ófrið eins og öll skömmtunarkerfi af þessu tagi.

Forsendur þess að við getum búið áfram í tólfhundruð manna samfélagi í Bolungavík.

Vandamálin sem við Bolvíkingar stöndum frammi fyrir eru ekki einangruð við okkur, þau eru að miklu leyti vandamál allra landsmanna sem hlýtur að verða tekið á og nýtist okkur þegar að því kemur. Þau eru að vissu leyti meiri en víðast hvar annars staðar þar sem aðalatvinnufyrirtæki staðarins er þegar orðið gjaldþrota. Það verðum við sjálf að glíma við og leysa úr. Það er ekki verkefni stjórnvalda að annast atvinnurekstur af þessu tagi. Ef við viljum búa í sjálfstæðu samfélagi verðum við líka að axla þá ábyrgð að standa fyrir atvinnurekstri í því samfélagi. Við getum heldur ekki varpað allri ábyrgð á fortíðinni yfir á stjórnvöld og þjóðfélagið því við vorum þátttakendur í fortíðinni og hvert okkar átti sinn hlut í því að móta hana með aðgerðum eða aðgerðaleysi, með málflutningi eða þögninni. Stundum stöndum við í þeim sporum í lífinu að við getum ekki vísað vandamálum okkar yfir á aðra. Það er enginn tilbúinn að taka þau að sér. Við verðum að horfast í augu við vandann, viðurkenna hann og leysa, hvort sem okkur líka betur eða verr, hvort sem okkur þykir það réttlátt eða ranglátt. Í þessum sporum stöndum við nú. Það er okkar verkefni að endurreisa atvinnulífið. Að sönnu getum við gert og munum gera kröfu á stjórnvöld að þau skapi skilyrði til þess að það megi takast en við getum ekki gert kröfu um það að stjórnvöld vinni verkið fyrir okkur.

Verkefni okkar er að halda togurunum ásamt aflaheimildum og að vinna aflann hér. Það er forsenda þess að við getum búið áfram í 12 hundruð manna samfélagi. Það leysir ekki öll okkar atvinnumál, e4n það er forsenda þess að við getum leyst þau. Það verður enginn skemmtiróður en það er fjarri því að vera óyfirstíganlegt. Það verður engin blómabrekka framundan. Það eru margir vantrúaðir á það að Bolvíkingar leysti þessa þraut, blað allra landsmanna hefur skrifað hverja greinina á fætur annarri til þess að telja þjóðinni og okkur trú um að þetta sé ekki hægt og í stjórnkerfinu verðum við varir við það sama. Ég er ósammála þessu. Við getum ef við viljum. Við eigum nóg af hæfu fólki og við erum tólf hundruð. Í fjöldanum býr mikið afl. Þar skilur á milli okkar og t.d. Bílddælinga. Við megum ekki vanmeta mátt okkar, þar liggur hættan, að trúa því að við getum ekki leyst þetta verkefni.

Ef við setjum okkur að safna 70 milljónum hjá almenningi, þýðir það 233 þúsund krónur á hverja fjölskyldu. Upp í það fást 97 þúsund krónur frá ríkinu í endurgreiddan tekjuskatt hjá þeim sem hafa laun yfir staðgreiðslumörkum. Endanleg greiðsla verður þá 136 þúsund krónur. Ef framlagið er greitt á þremur árum jafngildir þetta tæplega 3.800 krónum á mánuði. Þetta einfalda reikningsdæmi sýnir að vandinn er engan veginn óyfirstíganlegur. Ég hef orðið var við að sumir hér heima efast um það að rétt sé að reisa á ný stórfyrirtæki og spyrja sem svo: Er það ekki of mikil áhætta? Þau sjónarmið hafa líka komið fram að hætta sé á því að örfáir ráði hinu nýja fyrirtæki. Ég vil svara þessu þannig: Ef við höldum ekki þessum atvinnutækjum, þarf ekkert frekar um málið að ræða. Eignarhald okkar á atvinnutækjunum er forsenda uppbyggingar. Fyrsta skrefið er að tryggja það. Síðan skulum við ræða hvernig við viljum skipuleggja atvinnulífið. Um það geta verið skiptar skoðanir og við skulum takast á við það þegar að því kemur. Til þess að hafa áhrif þá verða menn að vera með í þessum upphafsróðri. Því það eitt er víst að sá sem ekki er með hefur ekki áhrif. Og það sem er rétt að menn geri sér grein fyrir er að sá sem ekki verður með getur orðið til þess að hinir nái ekki landi.
Ég hef sjálfur þá trú að fyrir mönnum vaki ekki annað en að tryggja sameiginlega hagsmuni okkar og að allir starfi á þeim forsendum að enginn hafi völd og áhrif umfram það sem eðlilegt er í almenningshlutafélagi.

Þrátt fyrir blikur á lofti um þessar mundir, þá er margt sem við Bolvíkingar eigum!

Þrátt fyrir þær blikur sem á lofti um þessar mundir er einnig að finna ýmislegt jákvætt. Við stöndum á tímamótum í okkar samfélagi og framundan er uppbyggingarstarf þar sem gefst færi til að móta framtíðina. Það mun gerast hér sem annars staðar að maður kemur í manns stað og ég er í engum vafa um að þegar upp verður staðið munum við standa betur að vígi en áður. Strax í gær var mér komið á óvart. Ég hafði frekar búist við að siglingin yrði hálfsnubbótt þar sem báðir togararnir eru bundnir við bryggju. En þess í stað varð þessi árlegi atburður óvenjulega eftirminnilegur. Á þriðja tug báta tók þátt í siglingunni og það var ógleymanlegt að horfa á bátana sigla hvern á eftir öðrum inn í höfnina. Ég minnist þess ekki að hafa séð jafnmarga báta í siglingunni áður.

Á eftir fór ég og taldi í höfninni alls 55 skip og báta. Staður sem hefur allan þennan flota er ekki að geispa golunni. Fleira er rétt að nefna. Á þessu ári lýkur framkvæmdum við nýjan brimbrjót. Þá loksins verður lokið því mannvirki sem byrjað var á í upphafi aldarinnar og komin góð höfn. Ekki má svo gleyma því að við eigum okkur Hulduher og Flotann ósigrandi og ógleymdum Geira Guðmunds og hinum óviðjafnanlegu Delila systrum.

Ég vil að lokum óska sjómönnum til hamingju með daginn og hátíðargestum öllum góðrar skemmtunar. Ég þakka áheyrnina. Gangið á guðs vegum.

Vestfirska fréttablaðið 16. júní 1993.

Athugasemdir