Tvískinnungur íslenskrar utanríkisstefnu:Mannréttindi í skugga NATO.

Greinar
Share

Utanríkisráðherra lagði fram í síðustu viku tvö þingskjöl sem ástæða er til þess að fjalla rækilega um. Annað málið er tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA og Tyrklands og hitt er skýrsla ráðherrans um utanríkismál.

Skýrsla Jóns Baldvins.

Skýrsla Jóns Baldvins hefur þegar vakið mikla athygli fyrir ný viðhorf til EB. Ekki verður það tekið til umfjöllunar hér heldur annað sem sérstaka athygli mína vekur í ljósi frétta síðustu vikurnar um mannréttindabrot í Tyrkja gagnvart Kúrdum. Ekki er að finna stakt orð um þessi mál í skýrslunni. Þögnin er æpandi þegar þess er gætt að gerð er grein fyrir þróun mála í Mið- og Austur-Evrópu og svæðisbundnum deilum og átökum víða um veröld eru gerð þar skil. En ekki orð um Tyrkland.

Í skýrslunni er ekkert um sjálfstæðisbaráttu Kúrda sem staðið hefur í mörg ár, ekkert um árásir tyrkneska hersins á þorp Kúrda, bæði í Tyrklandi og Írak, ekkert um það að tyrkneska stjórnin virðist staðráðin í því að bæla niður uppreisn Kúrda með öllum ráðum þótt hún hafi heitið því fyrir aðeins fjórum mánuðum að leysa kúrdíska vandamálið með auknu lýðræði og mannréttindum. Spurningin er hvers vegna? Hvers vegna getur utanríkisráðherra engu svarað um Tyrkland og segist þurfa að afla upplýsinga um mannréttindabrot þar í landi? Upplýsinga sem með réttu hefðu átt að vera í skýrslu ráðherrans um utanríkismál. Svarið er einfalt. Tyrkland er í NATO og íslensk utanríkisstefna er enn í viðjum fortíðarinnar. Þeirrar fortíðar sem var þegar kalda stríðið stóð yfir og tvö stórveldi stóðu andspænist hvort öðru og söfnuðu kringum sig bandamönnum. Öðru megin var NATO hinum megin Varsjárbandalagið. Þá viku mannréttindi fyrir öryggishagsmunum stórveldanna. Þá var ekkert amast við herforingjastjórnum í Grikklandi og Tyrklandi. Þessi ríki voru í NATO og því vinir okkar og samherjar í baráttunni við óvininn í austri. Vinátta þeirra skipti meira máli en mannréttindi þegnanna í ríkjunum.

Þá er þagað þunnu hljóði.

Miklar breytingar hafa orðið í heiminum, kalda stríðinu er lokið, heimsveldið í austri er hrunið, Berlínarmúrinn fallinn, Varsjárbandalagið hefur verið lagt niður og lýðræðislegir stjórnarhættir hafa verið teknir upp í Mið- og Austur-Evrópu en íslensk utanríkisstefna er frosin föst í fortíðinni. Hún þegir þunnu hljóði um mannréttindabrot í NATO-ríki, en segir frá hörmungum sömu þjóðar í Írak. Írak er ekki í NATO, en Tyrkland er í NATO. – Það er munurinn.

Þrátt fyrir gífurlegar breytingar í heiminum er íslensk utanríkisstefna óbreytt, hagsmunir hernaðarbandalagsins NATO víkja til hliðar mannréttindum þegnanna. Þetta var augljost í Persaflóastríðinu. Þá voru NATO-þjóðir í fararbroddi undir fána Sameinuðu þjóðanna og ráku Íraka frá Kúveit og réðust inn í Írak. En í stað þess að steypa Saddam Hussein af stóli, eða a.m.k. verða við kröfum Kúrda í Írak um sjálfstæði hurfu þessar þjóðir á brott. Gáfu að vísu Kúrdum fyrirheit um að öryggi þeirra yrði tryggt en það fór fyrir lítið eins og nýlegar fréttir bera með sér. Þá var nú meiri reisn yfir íslenskri utanríkisstefnu þegar Eystrasaltslöndin áttu í hlut. Íslenski utanríkisráðherrann lagið mikið á sig til þess að vera í fararbroddi þeirra sem vildu viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsþjóðanna og þjóðir V-Evrópu, sérstaklega NATO-ríki, gagrýndu harðlega mannréttindabrot í Austur-Evrópu, vildu verða við kröfum kúgaðra þjóða um sjálfstæði og beittu efnahagsþvingunum til þess að knýja fram úrbætur. Þegar hin kúgaða þjóð heitir Kúrdar er öldin önnur. Þá er þagað þunnu hljóði yfir mannréttindabrotum og lagður fram samningur um fríverslun enda nemur útflutningur til Tyrklands heilum 253 þús. kr.

Mannréttindi fyrir alla.

Tvískinnungurinn í íslenskri utanríkisstefnu er yfirþyrmandi, mannréttindi eru ekki fyrir alla. Það er vegna þess að við höfum reist utanríkisstefnu okkar á hagsmunum NATO. Það er kominn tími til þess að endurmeta þessa stefnu í ljósi breytinganna sem orðið hafa í alþjóðamálum og þar eigum við að leyfa okkur að móta stefnu em tekur mannréttindi og frelsi manna og þjóða fram yfir hagsmuni hernaðarbandalaga.

Ingvar Carlsson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur lagt til að NATO verði lagt niður. Ég tek undir þessa tillögu og tel nauðsynlegt að hún verði tekin á dagskrá í umræðu um utanríkismál. Utanríkis- og öryggismálum eigum við að beina inn á vettvang Sameinuðu þjóðanna og RÖSE, ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu og ýta til hliðar hernaðarbandalögum, sérstaklega þeim sem tilheyra heimsmynd fortíðarinnar. Viðfangsefni okkar á grundvelli þeirra aðstæðna sem n´eru uppi og því að öryggi þjóða verður best tryggt með mannréttindum fyrir alla.

Kristinn H. Gunnarsson

DV 14. apríl 1992

Athugasemdir