Sameining sveitarfélaga – tilraunaverkefni á Vestfjörðum.

Greinar
Share

Í kjölfar ferðar tveggja nefndarmanna í svokallaðri sveitarfélaganefnd, þar sem þeir ræddu við vestfirska sveitarstjórnarmenn á norðanverðum Vestfjörðum um sameiningu sveitarfélaganna, hfur hafist umræða um það mál og hvort Vestfirðingar eigi að fallast á að verða nokkurs konar tilraunaverkefni. Umræðan er æskileg og rétt að hvetja til þess að menn velti þessum málum fyrir sér. Markmiðið hlýtur að vera að skapa byggðarlögunum þá stöðu að þau geti sem mest af eigin rammleik stöðvað fólksfækkun á norðanverðum Vestfjörðum og snúið þróuninni við. Vandamálið er aflleysi landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Aðgerðir til úrbóta hljóta því að miðast við að auka afl sveitarfélaga á landsbyggðinni og jafnvel líka að draga úr styrk höfuðborgarsvæðisins.

Þær aðgerðir verða að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þannig að hlutur sveitarfélaganna aukist og hlutur ríkisvaldsins minnki. En það er ekki nóg að færa verkefni til sveitarfélaganna, það verður líka að færa valdið yfir þeim verkefnum til sveitarfélaganna. Til þess þarf að leggja niður stofnanir á vegum ríkisvaldsins og færa verkefni þeirra og störfin til sveitarfélaganna og sveitarfélögin þurfa að fá tekjustofna sem þau hafa fullt vald á. Á þessum grundvelli verðum við að miða tillögur um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það þarf að gera íbúum sveitarfélaganna kleift að nýta landkosti og auðlindir sér til styrktar, að njóta þeirra kosta sem fyrir hendi eru.

Þar ræður mestu fyrir Vestfirðinga að þeir geti nýtt sér sem mest fiskimiðin undan vestfirskum ströndum. það er ekki ásættanlegt að sumar auðlindir séu nánast séreign, eins og til dæmis heitt vatn, en aðrar skilgreindar sem þjóðareign, þar sem aðrir hafa sama rétt til afnota og heimamenn. Þannig njóta íbúar höfuðborgarsvæðisins heita vatnsins í lágum hitunarkostnaði húsnæðis, það er þeirra sérkostur og engin kvöð um að aðrir íbúar landsins eigi neitt tilkall. Þannig eigum við að nálgast þessa umræðu, með jöfnun styrks og valds að leiðarljósi. Ef nauðsynlegt verður talið að sameina sveitarfélög og stækka þau til þess að aðgerðir af þessum toga nái fram að ganga, þá eigum við að gera það.

Hitt eigum við að varast að líta á sameiningu sveitarfélaga sem markmið í sjálfu sér og með því leysist vandamálin. Það mun ekki gerast. Grundvallarvandamál landsbyggðarinnar verður ekki leyst með reglustrikunni einni saman. Það dugir ekki að teikna nýjar línur á landakort. Verkaskipting sem byggir á óbreyttri skipan stjórnsýsluvaldsins í framkvæmdavald og sveitarfélög mun fá vandamál leysa og engin til lengri tíma litið. Ef sveitarfélög eiga að starfa við óbreytta stjórnsýslu þarf enga sveitarfélaganefnd, því sveitarfélögin munu taka upp samstarf í ýmsum málum og jafnvel sameinast ef þau sjá sér hag í því. Sú þróun er hafin og mun halda áfram, en hún á sér takmörk í stjórnsýsluskipaninni sjálfri. Vilji menn ganga lengra og hraðar þarf róttækar breytingar þar sem tekið er á vandamálinu, byggðaþróuninni.

Það væri verðugt verkefni fulltrúa Byggðastofnunar í sveitarfélaganefndinni að ganga á undan með góðu fordæmi og leggja til að stofnunin verði færð undir sveitarfélögin og flutt út á land. Þá vitum við að hugur fylgir máli.

Kristinn H. Gunnarsson

Vestfirska fréttablaðið 4. júní 1992.

Athugasemdir