Vísa vikunnar (72): Hafnarmúlans hefðarfas

Molar
Share

10. ágúst 2006:

Þátturinn vísa vikunnar gefur göngu sína á ný eftir þriggja vikna sumarleyfi. Til þess að jafna vísureikninginn verða vísurnar þrjár að þessu sinni.

Bjargey Arnórsdóttir, sem búsett er á Hofsstöðum í Reykhólahreppi hinum nýja, kom í sumar í Örlygshöfn við vestanverðan Patreksfjörð í fallegu veðri eins og þar er oft. Fjallið Hafnarmúli gnæfir yfir höfninni að innanverðu og þykir mörgum sem það sé með fegurstu fjöllum landsins. Framundan Örlygshöfninni er Tálkni, sem skilur að Patreksfjörð og Tálknafjörð og að utanverðu er Blakkurinn sem sjófarendur þekkja mætavel.

Daginn eftir kom Bjargey í safnið að Hnjóti og skildi þessar vísur eftir:

Hafnarmúlans hefðarfas
hæfir kvöldsins friði
horfir niður á gróið gras
og gulan sand á iði.

Töfrum skorinn Tálkninn rís
tiginn báru ofar
bjarmann gefa birtan kýs
blíðu veðri lofar.

Blakkur á við Ægir tafl
öldur giska margar
hvorugan þá þrýtur afl
þrjóskan heiðri lofar.

Athugasemdir