Vísa vikunnar (43): áðan varð hann Valbjörn hýr

Molar
Share

Magnús Ólafsson, fyrrverandi bóndi á Sveinsstöðum í Húnavatnshreppi hinum nýja er slyngur í vísangerð. Hann á vísur vikunnar að þessu sinni, sem vel að merkja eru fyrstu vísur ársins.

Fyrir skömmu var haldin árshátíð hjá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi. Þar voru nokkrum einstaklingum veittar starfsaldursviðurkenningar. Einkum áttu konur í hlut, en þó var einn karlmaður í hópnum, að nafni Albert. Framkvæmdastjórinn og yfirlæknirinn veittu viðurkenningar, og kysstu allar konurnar. Þá sagði Albert : Ætlar enginn að kyssa mig? Framkvæmdastjórinn, Valbjörn, var fljótur til og kyssti Albert við fögnuð viðstaddra. Magnús brást snarlega við og skrifaði á blað eftirfarandi vísu, sem einhver borðfélagi hans tók og flutti

Undir þessu ekkert býr
engan þarf að sverta
áðan varð hann Valbjörn hýr
við að kyssa Berta.

Á næstu samkomu, þar sem nefndur Valbjörn og Magnús voru báðir, gerði Magnús bragarbót. Þá varð vísan svona:

Valbjörn er alveg ágætis maður
alltaf vex við kynni
Aldrei hýr, en geysi glaður
og giftur konunni sinni.

Athugasemdir