Vesalingarnir

Pistlar
Share

Nú stendur yfir enn ein áróðurhrinan hjá stórútgerðinni. LÍÚ berst um á hæl og hnakka gegn hugmyndum um innleiðingu á samkeppni í sjávarútvegi þar sem öllum fyrirtækjum yrði gert að starfa á sama grundvelli. Kjarninn í breytingartillögunum er að innkalla veiðiheimildir og setja almennar reglur um ráðstöfun þeirra. Í markaðshagkerfi er samkeppnin lykilatriðið og það er meginreglan í íslensku samkeppnislöggjöfinni.

Bæði hérlendis og erlendis er löng reynsla af því að samkeppni bætir hag neytenda. Skortur á samkeppni leiðir til fákeppni og jafnvel einokunar sem bitnar á almenningi og neytendum með misnotkun valds. Íslenska ríkið hefur frá 2002 haft þá opinberu stefnu, sérstaklega hvað varðar eigin innkaup, að efla samkeppni á markaði. Almennt útboð er leiðin sem farin er og hefur gefist það vel að engar hugmyndir eru um að víkja frá henni. Frekar hefur verið farið yfir útboðsskilmála og þeir endurbættir ef markmiðin hafa ekki náðst sem skyldi. Útboð veiðiheimilda er hin eðlilega og rökrétta niðurstaða sem samræmist stefnu ríkisins í öðrum atvinnugreinum.

Sérákvæði um sjávarútveg

Aðeins tvær atvinnugreinar eru undanþegnar ákvæðum samkeppnislaga, landbúnaður og sjávarútvegur. Hvað sjávarútveginn varðar þá hafa verið sett lagaákvæði til þess að takmarka samþjöppun en að öðru leyti er útgerðin meðhöndluð sem vesalingar sem þurfa sérstaka vernd ríkisins til þess að geta rekið fyrirtæki sín. Handhafa veiðiréttarins fá ótímabundna úthlutun. Þeir hafa öryggi um aldur og ævi og þurfa ekki að óttast samkeppni um veiðiheimildirnar. Þeir þurfa ekki að hagnýta veiðiréttinn sjálfir og mega láta aðra veiða en hirða sjálfir afraksturinn. Útgerðin greiðir ríkinu brot af markaðsverði réttindanna sem hún lætur aðra greiða sér.

Í þorskveiðiréttindunum fær handhafi réttindanna 93% af markaðsvirðinu en ríkið 7%. Ríkið sjálft býr til stórkostlegan efnahagslega mismun milli fyrirtækja. Þetta nefnist ríkisstuðningur, og er í öðrum atvinnugreinum andstæður EES samningnum og eru þungar refsingar við slíkum brotum. Þar sem samkeppnishvatinn er tekinn út verður ekki endurnýjun á markaðslegum forsendum sem hverri atvinnugrein er nauðsynlegt. Afleiðingin verður stöðnun og síðan afturför.

Ofverndaðir útgerðarmenn

Sjálft kerfið, það er langtímayfirráð réttindanna, breytir valdahlutföllum í samskiptum atvinnurekenda og launþega á þann hátt að útgerðin hefur tögl oghaldir, hún ræður algerlega ferðinni og setur sjómönnum reglurnar. Annaðhvort gera sjómenn eins og þeim er sagt eða þeir geta farið annað eða þá að þeim er beinlínis hótað brottrekstri. Útgerðin hefur gengið á lagið og ákveður leikreglurnar sér í vil.

Lítum á nokkur atriði:

20% afsláttur – Nýundirritaðir kjarasamningar færa útgerð sem jafnframt er fiskkaupandi fiskinn með 20% afslætti frá markaðsverðinu. Þetta þýðir miðað við 2015 að verðið á fiski sem seldur er í beinum viðskiptum er með 11 milljarða króna afslætti. Það lækkar laun sjómanna að sama skapi. Eru útgerðarmenn svo miklir vesalingar að þeir þurfa að fá 20% afslátt frá markaðsverði til þess að geta rekið fyrirtæki sín? Geta þeir ekki keppt við aðra fiskkaupendur?

nýsmíðaálag – þrátt fyrir hástemmdar lýsingar á arðsemi íslensks sjávarútvegs og yfirburðafærni núverandi kvótahafa verða þeir að sækja hluta af kaupverði nýrra skipa í vasa sjómanna. Nýsmíðaálagið lækkar laun sjómanna um allt að 10%. Eru útgerðarmenn slíkir vesalingar að þeir geta ekki í besta fiskveiðikerfi í heimi greitt skipin sín án þess að seilast ofan í vasa áhafnarinnar?

olíukostnaður – fyrir rúmum 30 árum voru aðstæður þannig að olíukostnaður tók nærri 30% af tekjum útgerðarinnar. Þá voru sett lög sem heimiluðu útgerðinni að draga 30% af tekjunum frá óskiptu. Um allmörg ár hefur staðan verði mun betri og síðustu árin er olíukostnaðurinn um 11% af tekjunum. Engu að síður er útgerðin enn að fá 30% af tekjunum framhjá skiptum til sjómanna. Sjómenn greiða allan olíukostnaðinn, ekki einu sinni heldur þrisvar sinnum. Eru útvegsmenn slíkir vesalingar að í myljandi arðbærum atvinnurekstri þar sem framlegðin er um 30% og 70 – 75 milljarðar króna á hverju ári þurfi að velta olíukostnaðinum að fullu yfir á sjómenn?

sjómannafsláttur – um áratugaskeið niðurgreiddi ríkið launakostnað útgerðarinnar með sjómannaafslættinum. Fyrir fáum árum var því hætt og útgerðin talin geta borið sjálf þennan kostnað. Aðstæður í útgerð hafa líka verið með besta móti. En það var ekki við því komandi að útgerðin greiddi þennan 1,5 milljarð króna. Kjör sjómanna rýrnuðu sem þessu nemur. Eru útgerðarmenn slíkir vesalingar að þeir geta ekki greitt laun sjómanna í bestu afkomu um áratugaskeið?

Afleiðing einokunar – þessar aðstæður þekkjast ekki í öðrum atvinnugreinum. Þar verða atvinnurekendur að standa sig. Þeir eru í samkeppni við önnur fyrirtæki og geta ekki bannað nýjum aðilum að hasla sér völl. Samkeppnin nær ekki bara til framleiðslunnar heldur einnig til vinnuaflsins. Aðstæður í sjávarútveginum er afleiðing einokunar. Útvegsmenn eru ekki vesalingar. Þeir geta vel rekið fyrirtæki sín við eðlileg samskeppnisskilyrði. En einokunaraðstaða þeirra og óeðlileg völd er afleiðing af lagaumgjörðinni. Sjómenn og íbúar sjávarbyggðanna eru meira og minna í gíslingu fárra eigenda sjávarútvegsfyrirtækja sem bera engar lagalegar skyldur um hag þeirra.

LÍÚ vill viðhalda einokunaraðstöðunni, þeir eru á móti því að þjóðin eigi veiðiheimildirnar, þeir eru á móti innköllun þeirra, þeir eru á móti samkeppni um þær, þeir eru á móti því að greiða markaðsverð fyrir fiskinn, þeir eru á móti því að greiða markaðsverð fyrir veiðiheimildirnar til ríkisins, þeir eru á móti byggðatengingu veiðiheimildanna. Þeir vilja óbreytt ástand. Það færir fáum mikið. En margir tapa og þjóðin mestu.

Kristinn H. Gunnarsson

pistillinn birtist fyrst í Bæjarins besta á Ísafirði

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir