Skjaldborgin um kvótakerfið fremur en fólkið

Pistlar
Share

Sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, flutti erindi á ráðstefnu á Ísafirði í byrjun september. Óvíða skiptir sjávarútvegur meira máli en á Vestfjörðum. Síðustu tvo áratugina hefur árlegur heildarþorskkvóti minnkað um helming og hlutur Vestfirðinga hefur að auki minnkað um helming. Samtals er minnkunin um 3/4 þess sem var um 1990. Íbúum hefur á þessum tíma fækkað um 30% og fasteiganverð hrunið. En ráðherranum var kvótakerfið sjálft efst í huga en ekki hagur og velferð íbúanna. Í ávarpi sínu tók hann sérstaklega fram að Vestfirðingar hefðu verið kvótakerfinu andsnúnir og hefðu þess vegna ekki nýtt sér kosti kerfisins.

En almenningur fær engu ráðið um þróun í sjávarútvegi og er leiksoppur örfárra handhafa kvótans hverju sinni. Það eru 50 fyrirtæki sem ráða 86% af öllu aflamarki í dag. Það eru kannski um 300 eigendur sem skipta á milli sín nærri öllum 80 milljörðunum króna sem rekstrartekjur sjávarútvegsins eru umfram rekstrarútgjöld á hverju ári. Þessir fáu eigendur eru í krafti kvótans langsamlega valdamestu menn landsins á flestum sviðum þjóðlífsins. Kerfið sjálft er undirstaða valdanna og sjávarútvegsráðherrann slær skjaldborg um það. Það var kjarni máls hans. Því hefur hann fylgt eftir með því að skipa nefnd sem á að ná samkomulagi við þessa fáu kvótahafa um ásættanlega skipan mála an þeirra mati.

Það er nauðsynlegt að leiðrétta sakbendingu sjávarútvegsráðherrans. Almenn afstaða Vestfirðinga til kvótakerfisins skýrir ekki byggðaþróunina. Það þarf að líta til þeirra sem stjórnuðu fyrirtækjunum. Langstærstur hluti kvótans var fluttur burt af eigendum þriggja stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna á Vestfjörðum á árunum 1997 til 1999. Í öllum tilvikum var unnið samkvæmt leikreglum kvótakerfisins, vestfirsk fyrirtæki sameinuðust fyrirtækjum utan fjórðungsins og hagrætt var í rekstri. Í öllum tilvikum voru uppi heitstrengingar af hálfu nýrra eigenda að efla og styrkja vestfirsku fyrirtækin en í öllum tilvikum var kvótinn fluttur til heimkynna nýju meirihlutaeigendanna.

Svik og prettir

Hrönn hf á Ísafirði sameinaðist Samherja og forstjóri Samherja lýsti því yfir að aflaskipið Guðbjörg myndi áfram vera ÍS, áfram vera gul og áfram vera gerð út frá Ísafirði. Það var óðara svikið. Bolvíkingar settu fjöregg sitt, kvótann, í umsjá Grindvíkingana sem eiga Þorbjörn hf. Ekki skorti á fögur fyrirheit,en innan tveggja ára var bolfiskkvótinn fluttur suður. Bæjarstjórinn Ólafur Kristjánsson gat ekki leynt vonbrigðum sínum í viðtali við Morgunblaðið og lét svo um mælt að gefin fyrirheit hefðu ekki verið efnd og að hann óskaði þess að Þorbjörninn hefði aldrei komið vestur. Þriðja fyrirtækið var Básafell. Það varð til með sameiningu 6 vestfirskra fyrirtækja og stærsti eigandinn var olíufélagið Essó. Það ætti að vera hæg heimatökin hjá sjávarútvegsráðherranum að fá upplýsingar frá flokksbræðrum sínum, sem áttu og stjórnuðu Essó, um afdrif kvótans. Þeir seldu hlut sinn til Guðmundar Kristjánssonar á Rifi sem bútaði fyrirtækið sundur og flutti drjúgan hluta bolfiskkvótans á skip sín á Snæfellsnesi. Kvótaverð á þessum árum var mun lægra en síðar varð og nýir eigendur högnuðust um milljarða króna og það styrkti verulega eiginfjárstöðu fyrirtækja þeirra. Þessi þrjú fyrirtæki eru öll meðal 6 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins í dag. Öll þessi fyrirtæki gátu haldið áfram starfsemi á Vestfjörðum af fullum krafti, en eigendurnir ákváðu annað.

Allur þessi kvótatilflutingur veikti gríðarlega stoðir atvinnulífsins í byggðunum og bitnaði á fólkinu, bæði því sem flutti burt og hinum sem eftir sátu. Íbúðaverð lækkaði á Vestfjörðum um 27% að raungildi í kjölfarið, sem er ekki minna áfall en fáum árum síðar varð á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar bankahrunsins. Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins,stóð að því að lofa stórfelldri niðurfærslu skulda vegna lækkunar fasteignaverðs, einkum á höfuðborgarsvæðinu, í kjölfar bankahrunsins. Íbúðaeigendur á Vestfjörðum hafa þurft að bera skaða sinn bótalaust. Það er ekki sama hvort það eru misvitrir eða ófyrirleitnir eigendur sjávarútvegsfyrirtækja sem valda almenningi skaða eða stjórnendur fjármálafyrirtækja og það er ekki sama hvort fólkið sem verður fyrir tjóni býr á Vestfjörðum eða á höfuðborgarsvæðinu.

Það hafa mörg sjávarplássin um allt land orðið undir vegna þeirrar pólitísku ákvörðunar að láta handhafa kvótans hafa sjálfdæmi um ráðstöfun og framsal veiðiheimilda. Þúsundir heimila hafa orðið fyrir fjárhagslegum skakkaföllum vegna ákvarðana stjórnenda fyrirtækjanna sem tóku í eiginhagsmunaskyni. Það er ekki aðfinnsluefni að gagnrýna harðlega framsalsreglur og tekjuskiptingu kvótakerfisins heldur er það þvert á móti til marks um heilbrigða dómgreind og eðlilegt siðferði. Það er mál til komið að pólitískir varðhundar kerfisins axli ábyrgð á afleiðingum kerfisins.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir