Makríll: 32 milljarða kr ósóttur vinningur

Pistlar
Share

Þegar verst stóð á eftir bankahrunið fengu Íslendingar einstæðan happafeng. Ný verðmæt fiskitegund, makríllinn, tók að veiðast í miklu magni. Frá 2010 hafa veiðst 550 -600 þúsund tonn og útflutningsverðmætið er um 70 milljarðar króna. Þetta bætist við góða afkomu sjávarútvegsins síðan 2008 af hefðbundnum veiðum vegna lágs gengis krónunnar. Ekki hefur þurft að leggja út í neina teljandi fjárfestingu til þess að ná í þessa 70 milljarða króna. Skip, veiðarfæri og annar búnaður er þegar til staðar og greiddur af öðrum veiðum og vinnslu.

Einu útgjöldin vegna makrílsins eru breytilegi kostnaður, einkum laun og olía. Fái útgerð tekjur, sem greiða breytilega kostnaðinn , er hver króna umfram það ávinningur og það borgar sig að stunda veiðarnar. Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og opinberum gögnum Hagstofunnar má ætla að breytilegi kostnaðurinn sé um 37% af útflutningsverðmæti markríls. Hagnaðurinn frá 2010 hefur því orðið samtals um 45 milljarðar króna. Greiðslur fyrir veiðiréttinn urðu hins vegar aðeins um 2.4 milljarðar króna. Skipting ágóðans milli ríkis og útgerðarinnar var 95%:5%, útgerðinni í vil.

Makríllinn er ekki í kvóta, enginn kostnaður hefur fallið til. Makríllinn er alger viðbót utan við kerfið. Ákvörðun um makrílveiðar hefur engin áhrif á núverandi kvótakerfi. Fram til þessa hefur kvótasetning fiskitegundar í samræmi við veiðireynslu haft þann tilganga að tryggja útgerðum öruggar tekjur um ótiltekinn tíma til þess að greiða útlagðan stofnkostnað í skipum og búnaði sem stofnað var til meðan veiðar voru tiltölulega frjálsar. Þetta á ekki við núna af þeirri einföldu ástæðu að stofnkostnaðurinn er hverfandi. Fyrirliggjandi fjárfesting vegna veiða á kvótabundnum tegundum ber kostnaðinn og makrílveiðarnar einfaldlega nýta fjárfestinguna enn betur. Fyrirhuguð gjaldlítil kvótasetning á makríl er fráleit hvernig sem á málið er litið.

Verðið sem útgerðin mun sjá sér í að greiða fyrir veiðiréttinn á markaði mun nema allt að öllum tekjum umfram breytilegan kostnað. Veiðiréttinn á markaði er hægt að verðleggja á markaði eins og útgerðarmenn hafa sjálfir sýnt fram á fyrir kvótabundnar tegundir. Gefum okkur að markaðsverð verði 80% af hagnaðinum fyrir veiðiréttinn. Það er ekki ósennilegt miðað við markaðsverð á þorski og ýsu, svo dæmi sé tekið. Hefði markaðsfyrirkomulag verið tekið upp árið 2010 Þá hefði ríkið líklega fengið 34 milljarða króna í stað 2.4 milljarða kr. og hagnaður af makrílveiðunum og -vinnslunni samt orðið um 8.5 milljarða króna.

Síðasta ríkisstjórn hefði hæglega getað sótt þessar tekjur, en ákvað að skilja þær eftir í vösum eigenda sjávarútvegsfyrirtækjanna. Ávinningurinn af markrílnum hefði getið hlíft heilbrigðiskerfinu og almannatryggingum við verulegum niðurskurði síðustu ár. Tækifærið var ekki nýtt.
Vinningurinn var ekki sóttur heldur úthlutað til útvalinna. Það er sár niðurstaða fyrir almenning.

Ekki eru fyrirætlanir núverandi ríkisstjórnar betri. Sannast þar að lengi getur vont versnað. Það má hafa veiðarnar eftir kvótabundnu skipulagi og það væri skynsamlegt að skipta heildarkvótanum eftir skipaflokkum í samræmi við það sem gilt hefur og þannig hafa minni skip og bátar átt þess kost að fá hlutdeild í hagnaðinum af veiðunum. En kvótann ætti að ráðstafa frá ári til árs með uppboði. Markaðsfyrirkomulag á að viðhafa í sjávarútvegi rétt eins og öðrum atvinnugreinum og markaðslausnin á úthlutun veiðiheimilda byggir á samkeppni. Vænlegasta fyrirkomulagið er uppboðs eða tilboðsfyrirkomulag eftir almennum reglum þar sem allir sitja við sama borð.

Það er kominn tími til þess að stjórnvöld sæki vinninginn.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir