Fjölskyldufólk er greinilega mikilvægasti kjósendahópurinn. Einhverra hluta vegna eru aldraðir og sjúkir ekki jafnmikilvægir í augum stjórnmálaflokkanna. Stjórnarflokkarnir hafa á kjörtímabilinu vaðið í gegnum og eld og brennistein til þess að koma fram, að þeirra mati nauðsynlegum niðurskurði og samdrætti í heilbrigðiskerfinu og greiðslum almannatrygginga til aldraðra og öryrkja. Nú þegar kosningar eru framundan gefa þeir fyrirheit um að unnt verði á komandi árum að auka útgjöld – nei ekki til aldraðra heldur til hækkunar barnabóta. Framsóknarflokkurinn gengur enn lengra og heldur áfram að lofa hundruðum milljarða króna úr ríkissjóði til þess að greiða íbúðaskuldir en minnist ekki á kjör gamla fólksins, tryggasta kjósendahóps flokksins um áratugi.
Þetta er mikið áhyggjuefni, þar sem þarna verður æ ljósari þróun sem verið hefur í gangi um árabil, að litið er á á stjórnmálin sem hvert annað markaðstorg þar sem frambjóðendur verða að vera með girnileg tilboð til fjölmennustu hópanna til þess að ná marktækum árangri. Flokkarnir bæði móta þessa þróun og bregðast við kröfum frá kjósendum um lífsgæði sér til handa. Auðvitað má segja að krafa kjósenda sé eðileg að vissu marki, en bæði þeir og flokkarnir mega ekki víkja sér undan þeirri ábyrgð að hafa skýra og sanngjarna stefnu um dreifingu lífsgæðanna þannig að fyrst sé veitt þeim sem verst standa og svo koll af kolli. Þegar fullfrískt fólk lætur það eftir sér að gera kröfur fyrst til sín og skeytir ekki um hvernig það bitnar á öldruðum, sjúkum og öryrkjum er þjóðfélagið komið í siðferðilega kreppu.
Undanfarin ár hafa verið gífurlega erfið fjárhagslega og ríkisstjórnin hefur að mörgu leyti unnið kraftaverk. Við sumt hefur stjórnarflokkunum líka tekist ágætlega að jafna niður byrðunum á þann hátt sem allflestir Íslendingar eru sáttir við. En stjórnarflokkarnir hafa líka brugðist á jafnaðarmannavaktinni og beygt af leið og fært tekjur á milli þjóðfélagshópa á þann hátt að ekki er hægt að una því.
Á kjörtímabilinu hafa kjör aldraðra og öryrkja verið skert um 13 milljarða króna en á sama tíma hafa bætur til fjölskyldufólks verið hækkaðar um 9 milljarða króna. Þarna hefur verið fært á milli þjóðfélagshópa á ósanngjarnan hátt. Aldraðir og öryrkjar eru ekki hópurinn sem helst eru aflögufærir í þjóðfélaginu. Það er umhugsunarefni og þarfnast rökstuðningis hvers vegna hópunum er raðað þannig að fjölskyldufólk er framar öryrkjum og öldruðum. Það er hægur vandi að réttlæta hækkun vaxtabóta í mikilli verðbólgu og að beita ríkissjóði til þess, en það er öllu torveldara að færa rök fyrir því að það svigrúm eiga aldraðir og öryrkjar að skapa með sérstakri skerðingu á sínum kjörum.
Á miðju ári 2009 voru kjör aldraðra og öryrkja skert með lögum um 3.650 mkr miðað við heilt ár. Það gerir samtals um 13 milljarða króna kjaraskerðingu til næstu áramóta. Hún bitnar á um 35.000 einstaklingum. Lækkun bóta var 2009 um það bil 8% í krónum talið vegna lagasetningarinnar. Á sama tíma voru útgjöld til fæðingarorlofssjóðs, barnabóta og vaxtabóta samanlagt hækkaðar um 9 milljarða króna. Lítilsháttar skerðing er í greiðslum fæðingarorlofssjóðs, nokkur skerðing á barnabótum en mikil hækkun í vaxtabótum. Nú boðar ríkisstjórnin að nota svigrúm til kjarabóta til þess að hækka barnabæturnar aftur og bæta það sem skert hefur verið.
En ekki er stafkrókur í áfornum ríkisstjórnarinnar um að bæta að einhverju leyti skerðingu til aldraðra og öryrkja. Björgvin Guðmundsson, fyrrv borgarfulltrúi bendir á í blaðagrein að kjaranefnd Félags eldri borgara telji þurfa að hækka lífeyri aldraðra um 20% til þess uppfylla ákvæði laga um að lífeyrir aldraðra hækki til jafns við laun og verðlag. Frá ársbyrjun 2009 hafa lágmarkslaun hækkað um 33% en lífeyrir aldraðra og öryrkja aðeins um 13%. Skýrar getur ríkisstjórnin ekki talað og ekki eru gömlu stjórnarandstöðuflokkarnir að ónáða hana með gagnrýni.
Það er reyndar enn meira umhugsunarefni hvers vegna ríkisstjórnin telur sig hafa minni skyldur við aldraða og öryrkja en við þessi fáu útgerðarfyrirtæki sem hafa fengið obbann af gróðanum í sjávarútvegi á kjörtímabilinu. Um 200 milljarða króna rekstrarafgangur hefur orðið í sjávarútvegi frá 2009 og það er ekki fyrr en núna á síðasta fiskveiðiári kjörtímabilsins að ætlunin er að taka í ríkissjóð 5-6 milljarða króna með hækkun veiðigjaldsins. Aldraðir og öryrkja eru vegnir og metnir og léttvægir fundnir í samanburði við hagsmuni kvótahafanna. Eðlilegra hefði verið að taka af gróðanum í útgerðinni og nota hann til þess að verja kjör þeirra sem helst var talið að þyrftu á því að halda.
Niðurstaðan sem blasir við er önnur en búast mátti við. Eðlilegt er að spyrja um jafnaðarstefnuna . Hvar er hún í þessu ferli?
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir