Nýtingarréttur Vestfirðinga og Breiðfirðinga: 33% af þorskveiði og 25% af ýsuveiði árin 1991 – 2009.

Pistlar
Share

Fiskimiðin frá Snæfellsnesi að Horni eru gjöful með afbrigðum. Þetta kemur fram í gögnum sem Hafrannsóknarstofnun vann upp úr afladagbókum skipstjórnarmanna fyrir árin 1991 til 2009. Veiðar á þorski og ýsu voru sundurliðaðar eftir veiðislóðum og þeim skipt í fimm svæði. Á norðvestursvæðinu, sem nær frá Snæfellsnesi og norður að Horni, voru veidd 33% af öllum þorski og 25% af ýsu á öllum Íslandsmiðum á þessu 18 ára tímabili. Þetta er mun meira en skip frá verstöðum við Vestfirði og Breiðafirði veiddu enda veiða á þessum miðum skip víðar að og þau sigla yfirleitt með aflann til sinnar heimahafnar.

Fiskimiðin eru ekki aðeins þjóðareign heldur ber að haga nýtingu þeirra þannig að atvinnustarfsemin verði kjölfesta búsetu í byggðunum sem liggja að miðunum. Það verður ekki gert nema að nýtingarrétturinn sé bundinn viðkomandi landssvæði og þannig tryggt að íbúarnir njóti afrakstursins í samræmi við afrakstur fiskimiðanna. Það verður ekki gert nema með því að tryggja að hluti af gjaldinu fyrir veiðiréttinn renni til að standa undir þjónustu og verkefni fyrir íbúa viðkomandi landssvæðis. Rétt eins og veiðin er mismunandi eftir laxveiðiám landsins eru fiskimiðin mismunandi gjöful og líka mismunandi hagkvæm. Sum fiskimið eru svo arðbær að þau eru nýtt af fjarlægum útgerðum þrátt fyrir aukinn sóknarkostnað. Eðlilegt er að aðliggjandi landssvæði fái af þeim veiðum líka hlut af gjaldinu fyrir veiðiréttinn.

Hafrannsóknarstofnun vann að minni beiðni skiptingu á þorsk- og ýsuveiðum upp úr afladagbókunum fyrir árin 1991 – 2009. Stofnunin skipti miðunum í fjögur svæði: vestur, sem er norðan 64° N og vestan 22°V; norður , sem er norðan 66°N að Eyjafirði og austan við 22°V; austur sunnan 66°N og austan 15°V og loks suður, sem er sunnan 64°N og vestan við 15°V auk tilkynningarskyldureita 415 og 416. Síðan var vestursvæðinu skipt í tvennt um Öndverðarnes, annars vegar Faxaflóa og hins vegar Breiðafjörð og Vestfirði. Í ljósi þess hversu gjöful fiskimiðin eru er það sláandi að einmitt þessi 18 ár, frá 1991 – 2009, hefur hallað mjög undan fæti í byggðum Vestfjarða. Reyndar er fólksfækkunin slík á tímabilinu að erlendis yrði það kallað hrun og stjórnarandstaðan myndi tafarlaust krefjast afsagnar ráðherra sem ábyrgð bæru á óhæfuverkinu.

Þorskveiðarnar voru á norðvestursvæðinu ( Breiðafirði og Vestfjörðum) minnst 29.000 tonn og mest 100 þúsund tonn yfir árið. Hlutfallið var minnst 28% og mest 43% af veiðum ársins. Samtals voru veidd á þessum miðum 33% af öllum þorski á Íslandsmiðum eða ríflega 1.1 milljón tonna á þessum 18 árum. Það gerir um 62.000 tonn á ári að meðaltali. Töluverðar sveiflur voru í ýsuveiðunum frá 7 þúsund tonnum upp í 31 þúsund tonn. Hlutfallið var frá 17 – 34%. Heildarveiðin á norðvestursvæðinu var 276 þúsund tonn eða fjórðungur alls ýsuafla. Að meðaltali var veiðin rúm 15 þúsund tonn á ári.

Ef við gerum ráð fyrir því að á komandi árum verði þorskaflinn að jafnaði 200 þúsund tonn á ári og ýsuveiðin 50 þúsund tonn og jafnframt að hlutur norðvesturmiðanna verði 33% af þorskinum og 25% í ýsuveiðunum yrði hlutur þessara miða um 67 þúsund tonn af þorski og um 12.500 tonn af ýsu ef heildaraflamarkinu yrði skipti eftir skiptingu Hafrannsóknarstofnunar. Með því að skipta veiðiheimildunum á landssvæðin eftir raunverulegri reynslu á fiskimiðunum fæst sanngjörn skipting kvótans og eðlileg tenging við byggðir landsins. Það eru ekki útgerðarmenn hverju sinni sem eiga kvótann heldur þjóðin og íbúar byggðanna. Hins vegar eiga útgerðarmenn að nýta kvótann samkvæmt reglum sem þeim eru settar og gjaldið sem greitt er fyrir veiðiréttinn á að skiptast milli ríkisins og heimamanna.

Ég minni á tillögur sem hópur manna hefur sett fram og sjá má að heimasíðunni betrakerfi.is. Þar er lagt til að skipta kvótanum á fimm svæði eftir veiðireynslu undanfarinna ára. Kvótann verður ekki hægt að færa frá viðkomandi svæði. Útgerðarmenn alls staðar frá geta sóst eftir kvóta og fyrir hann myndu þeir greiða gjald sem skiptist að jöfnu milli ríkis og svæðisins. Þeir yrðu að veiða fiskinn innan svæðisins og þar að auki yrðu þeir að landa á svæðinu afla sem veiddur væri innan tiltekinna marka frá landi. Þessar tillögur eru róttækasta og öflugasta aðgerðin sem komið hefur fram til þess að tengja saman sjávarbyggðir og fiskimiðin og láta byggðirnar njóta auðlindarinnar. Þessi leið stuðlar að hagkvæmustu nýtingu fiskimiðanna. Verðmæti íbúðarhúsa og annarra fasteigna myndi hækka verulega bara við það eitt að festa veiðiheimildirnar við byggðirnar.

Þetta er hin eðlilega leið, byggðin eflist þar sem miðin eru gjöful og þar sem þau eru ekki fyrir hendi mun búsetan breytast.

Tekjur Vestfjarða og byggðanna á Snæfellsnesi af gjaldi fyrir veiðiréttinn myndur skipta milljörðum króna árlega til viðbótar við tekjur af auknum sjávarútvegi ef farið yrði eftir þessum tillögum. Það er efni í annan pistil að leggja rökstutt mat á fjárhæðina, en hún yrði ekki undir 5 milljörðum kr.

Vestfirðingar eru engir þurfalingar á þjóðarbúinu, þeir eiga ekki að þurfa að betla fé til lífsnauðsynlegra vegaframkvæmda. Það er öðru nær, þeir hafa í mörg ár verið hlunnfarnir um sinn hlut af arðinum af fiskimiðunum. Miðað við verðlagningu LÍÚ á kvótanum sem útgerðarmenn hafa samþykkt með kaupum og leigu þá skuldar þjóðarbúið Vestfirðingum og Breiðfirðingum ekki undir 50 milljörðum króna fyrir afnotaréttinn síðan framsalið var heimilað. Það er komið að því að sækja það sem okkur ber.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir