66 milljarða króna verðhrun íbúðarhúsnæðis – algerlega óbætt

Pistlar
Share

Víðast hvar á landsbyggðinni fellur verð á nýbyggðum húsum mjög fljótt eftir að þau hafa verið tekin í notkun og fjölskyldurnar tapa. Um það er ekkert rætt. Einstaklingarnir og fjölskyldurnar sem í hlut eiga fá enga athygli stjórnmálamanna og hagsmunasamtök heimilanna varðar ekkert um fjárhag þessara heimila, hvort sem þær eru á Raufarhöfn, Breiðdalsvík eða Flateyri. Auðvitað eigum við, sem búum í þessum byggðarlögum, ekki að sætta okkur við að vera meðhöndluð af ríkisvaldinu, sem annars flokks íbúar sem ekki eru einu sinni virtir viðlits.

Þær skipta þúsundum,fjölskyldurnar í sjávarbyggðunum og sveitunum, sem hafa mátt þola milljóna og tugmilljóna króna tap undanfarna tvo áratugi vegna þess eins að hafa keypt eða byggt sér húsnæði á „röngum stöðum“ á landinu. Okkar tap er ekki minna en fjölskyldnanna á höfuðborgarsvæðinu, það er reyndar miklu meira, og ef það á að bæta tapið á einum stað þá verður að gera það líka á hinum stöðunum. Það eiga allir að vera jafnir í þessu sem öðru.

Tap Vestfirðinga er langmest allra landsmanna, þar sem þar hefur verð fasteigna farið lægst. Um langt árabil hækkaði það minna á hverju ári en sem nemur hækkun verðlags. Áhvílandi skuldir hækkuðu hins vegar í takt við lánskjaravísitölu og síðar neysluverðsvísitölu og hækkuðu meira en húsnæðið, einkum vegna mikillar verðhækkunar húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu! Eigið fé íbúðareigandans á Vestfjörðum minnkaði. Hvers vegna er þetta ekki „leiðrétt“ og skuldir lækkaðar ?

Byggðastofnun birti í síðasta mánuði fróðlega útreikninga um verð á sams konar einbýlishúsi á mismunandi stöðum á landinu. Meðalverðið í Reykjavík er 34 mkr. Á Ísafirði er sama hús metið á 19.5 mkr eða aðeins um 58% af verðinu í Reykjavík. Það munar 14 mkr á matinu en byggingarkostnaðurinn er mjög svipaður. Sá sem byggir á Ísafirði svona hús tapar 14 mkr. Í Bolungavík er húsið metið á aðeins 10.6 mkr eða 37% af Reykjavíkur verðinu. Matið er enn lægra á Patreksfirði eða 9.2 mkr og 27%. Ef gert er ráð fyrir að verð annarra íbúða á Vestfjörðum sé sama hlutfall af sams konar íbúð í Reykjavík og reyndist með þetta staðaleinbýlishús má áætla stærðirnar sem um er að ræða.

Heildarfasteignamat íbúðarhúsnæðis á Vestfjörðum er um 33 milljarðar króna. Að jafnaði má áætla að fasteignamatið sé aðeins um þriðjungur þess sem er í Reykjavík. Þá blasir við að tap Vestfirðinga er um 66 milljarðar króna. Þá þarf að athuga að húsnæði á Vestfjörðum er líklega að jafnaði eldra og leiðrétta þarf fyrir því, en ég hef ekki upplýsingar til þess að meta þá stærð og læt það því ógert.

Til samanburðar þá er mat á íbúðarhúsnæði á Snæfellsnesi ( miðað við mat á Grundarfirði og í Stykkishólmi) í umræddri könnun Byggðastofnunar tvöfalt hærra en á Vestfjörðum. Segjum sem svo að nægjanlegt sé að gera þá kröfu að verði á íbúðarhúsnæði á Vestfjörðum sé sambærilegt og á Snæfellsnesi þá er tap Vestfirðinga engu að síður 33 milljarðar króna.

Hvað ætla stjórnmálaflokkarnir að gera til þess að leiðrétta þetta langvarandi ranglæti á Vestfjörðum og í flestum byggðarlögum á landsbyggðinni? Þetta misvægi á verðmæti eigna er fyrst og fremst afleiðing af ákvörðunum stjórnvalda um atvinnumál, svo sem í sjávarútvegi, skort á uppbyggingu í samgöngum, miskunnarlausum niðurskurði á þjónustu ríkisins og gengdarlausri samþjöppun og uppbyggingu á fáeinum stöðum , en einkum þó á höfuðborgarsvæðinu.

Eignatap landsbyggðarfólks er mannanna verk byggðar á meðvituðum ákvörðunum um að gera sér mannamun eftir búsetu. Það sem stjórnmálaflokkarnir gera fyrir íbúðareigendur á einum stað verða þeir að gera líka á öðrum stöðum. Verðfall eigna og hækkun skulda í Reykjavík verður ekki bætt nema verðfall eigna á landsbyggðinni og hækkun skulda þeirra vegna verði bætt líka. Annað verður ekki lengur liðið. Það á ekki að skipta máli hvenær verðhrunið varð, það sem gerðist 2008 á höfuðborgarsvæðinu gerðist fyrr annar staðar og varð miklu alvarlegra verðhrun. Allir eiga að fá sömu meðhöndlun. Við eigum að vera ein þjóð í landinu.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir