Vafasöm vigtun sjávarafla

Pistlar
Share

Hinar opinberu reglur um vigtun fiskafla eru hriplekar sem gatasigti. Látið er að mestu eftirlitslaust í hendur vinnsluaðila að ákvarða magn, stærð, meðalþyngd og tegund aflans. Framkvæmd vigtunarinnar þýðir að kaupendum aflans einum er treyst fyrir því að gefa ríkinu upp hve mikill kvóti hefur verið nýttur. Þetta er vafasamt fyrirkomulag.

Afli er að jafnaði vigtaður fyrst á hafnarvog sveitarfélagsins. Hins vegar hafa um 90 fiskkaupendur um allt land leyfi til þess að endurvigta aflann. Það er gert innan veggja fyrirtækisins án viðveru opinberra eftirlitsmanna. Endurvigtunin er send til hafnarvogarinnar þar sem fyrst var vigtað. Beri tölunum ekki saman ræður endurvigtunin og er færð inn í gagnagrunn Fiskistofu. Ekkert samband er milli vigtunarkerfanna tveggja og því engin leið að staðreyna mælingu fiskkaupandans.

Gildandi fyrirkomulag bíður hættunni heim, þar sem endurvigtunin er að mestu í höndum aðila sem fjárhagslegan ávinning hafa af því að hafa rangt við. Sé fiskaflinn vanvigtaður er hægt að veiða meira en nemur útgefnum kvóta og sé meðalþyngd lækkuð verður fiskverðið lægra en rétt er. Afleiðing af svindli er að meira er veitt en kvóti leyfir og að ríkið, sveitarfélögin, fiskseljandi og sjómenn eru hlunnfarin um kvóta og tekjur.

Sáralítið af veiddum afla er endanlega vigtaður af hinu opinbera eða hlutlausum og trúverðugum aðila. Fiskur sem vinnsluskip veiða er aldrei vigtaður heldur er stuðst við mælingar á afurðum eftirá. Óunninn fiskur sem seldur er erlendis er vigtaður þar. Mest af óunnum fiskum sem seldur er innanlands er vigtaður af fiskkaupandanum. Aðeins afli sem seldur er á innlendum fiskmarkaði er vigtaður af hlutlausum aðila. Það eru um 15% af veiddum þorski, hin 85% eru vigtuð af aðilum sem hagnast fjárhagslega af frávikum.

Í frumvarpi Jóns Bjarnasonar var í fyrralagt til að breyta þessu og láta hina opinbera vigtun gilda. En það hefur verið dregið til baka. Kvótakerfið hvílir á ótraustum mælingum og býður upp á umfangsmikil undanskot og svik. Hið opinbera líður ekki slíkt í öðrum atvinnugreinum. Hverju sætir þessi sérmeðferð sem útgerðargreifar landsins fá?

Athugasemdir