Það sem forsetinn getur gert en hefur ekki gert

Pistlar
Share

Umræðan um hlutverk forseta Íslands takmarkast mjög af fortíðinni en minna er litið til þess sem stjórnarskráin mælir beinlínis fyrir um. Þannig eru frambjóðendur spurðir um það hvernig þeir hyggist nota synjunarvaldið 26. greininni. Það er vegna þess að því hefur þrisvar sinnum verið beitt síðan 2004. Fyrir þann tíma var það almenn skoðun stjórnmálamanna og fræðimanna að ákvæðið væri dauður bókstafur, þótt vissulega væri hún ekki óumdeild. En þegar menn stóðu frammi fyrir því að forsetinn nýtti ákvæðið gugnuðu allir talsmenn dauða bókstafsins. Það er af þeirri einföldu ástæðu að þegar til kastanna kemur þá gildir lagabókstafurinn framar öllum túlkunum, hefðum , greinargerðum og meiningum um anda laganna. Dómstólar dæma samkvæmt lögum og það gildir.

Forsetanum er ætlað mun meira hlutverk í stjórnarskránni en hann hefur hingað til tekið sér. Það er ekki eðlilegt að forsetarnir hafi hingað til vikið sér undan hlutverki sem stjórnarskráin felur embættinu. Sé almenn samstaða um að forsetinn láti öðrum eftir sitt hlutverk í reynd á að breyta stjórnarskránni til samræmis við þann skilning. Það hefur ekki verið gert og þess vegna ætti að inna frambjóðendur eftir því hvernig þeir hyggist beita valdi forseta. Þar eru nokkur mikilvæg atriði þar sem forsetinn getur haft veruleg áhrif á framvindu mála:

1. Þingrof. Forseti rífur þing og stofnar með því til kosninga. Það getur hann ekki gert einn þar sem alltaf þarf undirskrift ráðherra. Forsetinn getur hins vegar neitað að skrifa undir og þannig komið í veg fyrir áform forsætisráðherra um þingrof. Hann hefur frjálsar hendur, enda engin fyrirmæli eru í stjórnarskránni sem afmarka svigrúm forsetans.
Hvernig hyggjast frambjóðendur svara ósk um þingrof? Hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að þeir samþykki þingrof? Mun forseti neita þingrofi ef meirihluti alþingismanna er því andvígur?

2. Embættisveitingar. Forseti veitir þau embætti er lög mæla fyrir um. Þar sem ráðherra framkvæmir vald forseta kemur ráðherrann með tillögu til forseta um ráðningu. Forsetinn þarf að skrifa undir annars verður ekkert af ráðningunni. Forsetinn á alltaf val og hann getur neitað að staðfesta tillögu ráðherra.
Hvernig hyggjast frambjóðendur fara með þetta vald? Munu þeir umyrðalaust samþykkja tillögu ráðherra hverju sinni eða munu þeir gera kröfur um almennan og skýran ráðningarferil, vandað hæfnismat og málefnalega röðun umsækjenda?

3. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn og ákveður fjölda ráðherra. Þarna þarf eins og í hinum atriðunum tillögu sem forseti fellst á. Enginn verður ráðherra nema forseti lýðveldisins fallist á það. Þar sem forsetinn á val er ætlast til þess að hann vegi og meti erindið og þá þarf hann að hafa skýrar hugmyndir um málefnið. Það þurfa kjósendur að vita. Mun hann t.d. neita að skipa fleiri karla en konur í ríkisstjórn? Mun hann gera hæfniskröfur til verðandi ráðherra?

4. Forseti náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Þarna er enn eitt málefnið sem forseta á að leiða til lykta og fær engar leiðbeiningar í stjórnarskránni um það hvernig hann eigi að gera það. Hvernig hugmyndir hafa frambjóðendur t.d. um sakaruppgjöf dæmdra bankaglæpamanna sem sköðuðu þjóðfélagið stórkostlega?

Forsetinn ákveður ekkert einn í þessum ofangreindum málum, en ekkert gerist nema hann samþykki. Svona er það ákveðið í stjórnarskránni og þá ber að fara eftir henni. Frambjóðendur til embættisins verða þess vegna að skýra afstöðu sína þar sem mikið svigrúm er fyrir forsetann til ákvörðunar. Gildandi stjórnarskrá ætlar forseta lýðveldisins að taka endanlega ákvörðun í mörgum mikilvægum málum og hann hefur nokkurt sjálfdæmi um það hvernig embættið verður í hans höndum. Það er hægt að virkja mun fleiri ákvæði stjórnarskrárinnar en synjunarvaldið og sá sem það mun gera í framtíðinni verður í fullum rétti.

Þess vegna þarf að ræða í yfirstandandi kosningabaráttu það sem gæti gerst en ekki bara það sem hefur gerst.

Athugasemdir