Kúgun útgerðarvaldsins vegur að lýðræðinu.

Pistlar
Share

Landssamband íslenskra útvegsmanna og aðildarfélög þess ætla ekki að sætta sig við lýðræði á Íslandi. Sá fámenni hópur manna , sem ræður ferðinni í þessum félagsskap , vill að útvegsmenn láti skip sín liggja í landi þar til löglega kjörin stjórnvöld, ríkisstjórn og Alþingi, hafa verið beygð í duftið og verið knúin til þess að gera engar aðrar breytingar á lögum um atvinnugreinina en þær sem LÍÚ samþykkir.

Í hartnær aldarfjórðung hefur hefur útvegsmönnum með handhöfn kvótans, verið falið með lögum að annast nýtingu sjávarauðlindar landsmanna. Þetta fyrirkomulag hefur reynst gallað og óhjákvæmilegt að gera breytingar á því. Það er hlutverk stjórnmálamanna að setja leikreglurnar í þjóðfélaginu og það er hlutverk stjórnenda atvinnufyrirtækja að vinna eftir þeim. Þessi verkaskipting er í meginatriðum virt, nema í sjávarútvegi.

Deilan, sem LÍÚ hefur stigmagnað með nýjustu ákvörðun sinni, snýst um lýðræðið. Deilan snýst orðið meira um það hverjir ráða en því sem í lögunum er. Gripið er til þess að banna skipunum að fara á sjóinn til þess að knésetja stjórnvöldin.

Þetta á ekki að koma neinum á óvart. LÍÚ hefur verið á þessari leið allt frá því að framsal kvótans var leyft. Einokunarvaldið yfir veiðiréttinum í langan tíma er öflugt tæki til þess að stjórna. Með því var útgerðarmönnum fært tæki upp í hendurnar sem sumir hafa notað og aðrir hafa misnotað.

Sumir hafa breytt því í peninga í eigin vasa. Hundruðum saman hafa útgerðarmenn selt kvóta fyrir tugir milljóna króna hver, hundruð hafa selt fyrir hundruð milljóna króna hver, og tugir hafa selt fyrir þúsundir milljóna króna hver. Sumir hafa misnotað traustið með því að hóta stjórnvöldum því að einstaka fyrirætlanir þeirra myndu bitna á starfmönnum og öðrum íbúum í sjávarplássunum. Íbúar þessarar byggðarlaga eru ekki lengur frjálsir í því að láta skoðanir sínar í ljós. Það er orðið til ástand sem minnir á ógnarstjórn og skoðanakúgun.

Gleggasta dæmið um ógnarmátt kvótans er yfirlýsing stéttarfélaganna í Vestmannaeyjum, þar sem boðað er til samstöðufundar í dag, mánudag, og landsbyggðarfólk er hvatt til þess að „láta ekki nokkra einstaklinga á Alþingi Íslendinga eyðileggja sjávarútveginn og landsbyggðina“. Fundarboðendur vilja ekki breyta leikreglunum í útgerðinni. Leikreglunum sem sópaði kvótanum úr nærliggjandi byggðarlögum til Vestmannaeyja, Fjarðarbyggðar og Sauðárkróks. Leikreglunum sem hreinsaði veiðiheimildir af Vestfjörðum til Grindavíkur og Akureyrar.

Forystumenn verkafólk í Vestmannaeyjum tala eins og fjölmörg byggarlög í öllum landsfjórðungum sem hafa farið illa út úr flutningi veiðiheimilda hafi ekki verið á landsbyggðinni eða að fólkið sem þar bjó hafi verið einhver óværa sem þurfi að hreinsa land og þjóð af. Auðvitað er þetta ekki þannig meint, en óttinn við vald kvótahafans blindar og bjagar dómgreindina svo að verkalýðsforystunni í Vestmannaeyjum finnst þetta eðlilegur málflutningur; þangað til að kvótagreifarnir eða erfingjar þeirra selja kvótann, þá munu þeir átta sig – of seint.

LÍÚ og baráttuaðferðir þeirra á undanförnum vikum hafa vonandi opnað augu almennings á Íslandi fyrir því gífurlega þjóðfélagslega valdi örfárra manna sem kvótaúthlutunarkerfið færir þeim. Þeir hafa allt í hendi sér í sjávarplássum landsins. Þeir ráða mestu um það hverjir verða alþingismenn í landsbyggðarkjördæmunum. Það er engin tilviljun að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna setti hornin einmitt úthlutun kvótans. Það getur hver maður séð hvernig ástandið verður að 20 árum liðnum ef fram gengur það sem ætlað er með nær óbreytta kvótaúthlutun þann tíma.

Ríkisstjórnin ætlaði sér að friða LÍÚ með 20 ára gjöfinni, en henni ætti nú að vera ljóst að LÍÚ ætlar sér ekki að þiggja neitt. Þvert á móti, LÍÚ ætlar áfram að stjórna stjórnvöldum. Róðrarbann LÍÚ er tilraun til fjárhagslegrar kúgunar og er aðför að lýðræðinu sjálfu. Svar stjórnvalda er að koma á nýju úthlutunarkerfi kvótans eins og boðað var fyrir kosningar. Það verður að taka kúgunartækið úr höndum LÍÚ.

Athugasemdir