Allt rangt hjá Þorsteini

Pistlar
Share

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, setur hann fram staðhæfingar um jákvæð áhrif af framsali kvóta. Opinber gögn sýna hins vegar að fullyrðingar Þorsteins eru rangar. Núverandi löggjöf um stjórn fiskveiða hefur yfirskuldsett sjávarútveginn, fært fáum gífurlega auðævi og komið í veg fyrir hagræðingu og framfarir sem ætíð verða í eðlilegu samkeppnisumhverfi. Óvíða í heiminum hefur einkavæðing almannaverðmæta gengið svo langt sem hér á landi undanfarna tvo áratugi.

Allir vita, segir Þorsteinn, að skuldir útgerðar eiga fyrst og fremst rætur í fjárfestingum í nýjum skipum og tækjum og viðbótaaflaheimildum. Staðreyndin er önnur. Rannsóknar- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) segir í skýrslu frá maí 2010 að fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum hafi frá 2003 ekki hækkað skuldir í sjávarútvegi.

RHA telur að 40-50% af nærri 400 milljarða króna skuldaaukingu frá 1997 til 2008 sé vegna fjárfestinga í rekstri ótengdum sjávarútvegi og vegna gjaldeyris- og afleiðuviðskipta. Rúmur helmingur skuldaaukningarinnar er vegna kaupa á aflaheimildum á uppsprengdu verði. Verð á þorskkvóta fimmtánfaldaðist frá 1995 til júní 2008, en féll þá í einu vetfangi um ríflega helming. Allir vita, nema Þorsteinn, að fáir tugir kvótahafa fengu að selja veiðiréttinn til langrar framtíðar á tilbúnu verði og færðu andvirðið í eigin vasa.

Allir vita, segir Þorsteinn, að skuldaaukningin hefur leitt til betri nýtingar og arðsemi. Skýrsla RHA segir að engin framleiðniaukning hafi orðið í veiðum frá 1991 til 2008. Fiskiskipaflotinn hefur elst síðan framsalið var lögleitt og meðalaldur togaraflotans er nú 27 ár samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Þrátt fyrir að verð á íslenskum sjávarafurðum hafi frá 1991 til 2009 hækkað um 20% að raunvirði og þrátt fyrir að óverulega hafi verið fjárfest í skipum og búnaði á sama tíma segir RHA að efnahagsleg staða sjávarútvegsins hafi stórversnað.IFS Greining segir í nýlegri skýrslu að stór hluti útgerðarfélaga virðist vera yfirskuldsettur og þurfi á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda.

Þetta er reynslan af 20 ára framsali Þorsteins Pálssonar. Fáir hafa efnast mikið og þjóðin á að borga með því að neita sér um bætt lífskjör.

Athugasemdir