Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Einar K. Guðfinnsson gengur ákaft fram fyrir LÍÚ og berst um á hæl og hnakka gegn öllum breytingum á kvótakerfinu. Vill hann útfæra svonefnda samningaleið þannig að núverandi kvótahöfum verði hlíft við samkeppni um veiðiheimildirnar og að þeir fái áfram að hafa kvótann með langtímasamningi svo til endurgjaldslaust. Með öðrum orðum, engin opnun verði á úthlutunarkerfinu heldur hert á ranglætinu með því að gera ómögulegt með samningaleiðinni að breyta kerfinu næstu áratugi án þess að borga kvótahöfunum skaðabætur.
Einar K. Guðfinnsson er í hópi þeirra sem hefur gengið hvað lengst í því að halda fram eignarrétti útgerðarmanna á kvótanum og að þess vegna sé torvelt að gera breytingar á lögunum án þess að bótaréttur skapist. Í því samhengi verður þó að minna á dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá febrúar 2006. Þar sýknaði dómurinn íslenska ríkið af bótakröfu vegna breytinga á kvótakerfinu og kvað skýrt og ótvírætt upp úr með það að veiðiheimildir væru ekki varðar af ákvæðum 72. gr. stjórnarskráninnar vegna ákvæða í lögunum umstjórn fiskveiða þar sem segir að úthutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir þeim.
En til er lýsinga fyrrverandi sjávarútvegsráðherra á því hvernig hann telur að breyta megi kerfinu án bótaskyldu. Hana er að finna í svari hans til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna dags. 6. júní 2008. Eftir að hafa lýst því að ótvírætt sé að unnt sé að breyta lögunum um stjórn fiskveiða fjallar hann um mögulega bótaskyldu og telur hana ráðast af því hvernig lögunum yrði breytt.
Svo segir í svari ráðherrans: „Á hinn bóginn væri að öllum líkindum heimilt að gera ýmsar breytingar á kerfinu, t.d. með því að innkalla úthlutaðar veiðiheimildir í áföngum á lengra tímabili og endurúthluta þeim gegn gjaldi, tímabundið eftir atvikum, þar sem allir ættu jafnan rétt til að bjóða í þær. Erfitt er hins vegar að leggja nákvæmt mat á það hve mikið magn megi taka og á hve löngum tíma. Grundvallarsjónarmið hlýtur að vera það að þeir, sem hafa fengið úthlutað veiðiheimildum í núverandi kerfi og öðlast hafa á þeim grundvelli atvinnuréttindi, fái sanngjarnan og hæfilegan frest til að laga rekstur sinn að breyttu laga- og rekstrarumhverfi“.
Ástæða er til þess að árétta þann áskilnað Einars K. að endurúthlutunin yrði að vera tímabundin, gegn gjaldi og það sem athyglisverðast er, þar sem allir ættu jafnan rétt til að bjóða í þær.
Það þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta eða hvað?
Athugasemdir