Feigðarflan í fjárfestingum

Pistlar
Share

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA lýsir því yfir í Morgunblaðinu föstudaginn 18. mars að hann sé mjög óttasleginn út af hugmyndum um breytingar á kvótakerfinu. Telur hann að tal um breytingar skapi óvissu um getu sjávarútvegsins til þess að fjárfesta. Óvissan hafi svo komið í veg fyrir að greinin hafi skapað ný störf að undanförnu.

Hinn óttaslegni framkvæmdastjóri vill engar breytingar. Hann vill hafa kerfið áfram eins og það er. Í óbreyttu kerfi búa fáir við vissuna um milljarðana sínar í kvótanum og margir búa við viðvarandi mikla óvissu um starf sitt, verðmæti eigna sinna og eru háðir duttlungum kvótahafana 166 í aflamarkskerfinu. Framkvæmdastjóri SA hefur ekki áhyggjur af þeirri óvissu. Viðhorfið til óvissunnar er afstætt.

Tólf ára reynsla af kerfinu, sem Vilhjálmur vill ekki breyta, liggur fyrir og henni er lýst í skýrslu Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri frá maí 2010. Fjárfesting var gríðarleg árin 1997 – 2008. Skuldir sjávarútvegsins fimmfölduðust og bókfært eigið fé greinarinnar þurrkaðist út. Nettóskuldir voru 465 milljarðar króna í árslok 2008, en aðeins 87 milljarðar króna í lok ársins 1997. Nettóskuldirnar voru 90% af útflutningstekjum ársins 1997 en voru komnar í 272% af útflutningstekjum árið 2008. Svo sannarlega hækkuðu skuldirnar í óskakerfi Vilhjálms. En í hverju var fjárfest?

Skýrsluhöfundar áætla að 50-60% af hækkun skuldanna hafi verið vegna kaupa á veiðiheimildum, 20-30% vegna fjárfestinga í ótengdum rekstri og afgangurinn 10-15% vegna taps á gjaldeyris- og afleiðuviðskiptum. Það er mat þeirra að fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum, skipum, tækjum og húsum, hafi ekki aukið skuldir sjávarútvegsfyrirtækja frá árinu 2003, en þá urðu vatnaskil í skuldasöfnuninni.

Það var ekki fjárfest í afkastaaukningu. Engin framleiðniaukning varð í veiðunum frá 1991. Afli á hvert starf var 112 tonn af þorskígildum árið 1991 en 111 tonn árið 2008. Aflinn minnkaði um þriðjung í þorskígildum á tímabilinu en flotinn minnkaði aðeins um 13% mælt í brúttótonnum og enn minna eða 7% mælt í afli aðalvéla. Framsalinu var ætlað að leiða til hagræðingar en það hefur ekki gerst.

Það var ekki fjárfest í endurnýjun skipaflotans. En það var fjárfest í kvóta og hlutabréfum í viðskiptabönkunum og í öðrum fjármálafyrirtækjum. Fjármagnið sem greitt var fyrir fjárfestinguna fór frá einu fyrirtæki til annars og mikið til þaðan úr úr fyrirtækjunum í vasa eigendanna. Eftir eru sjávarútvegsfyrirtækin með skuldirnar.

Verðmæti kvótans var í stórum stíl tekið út og flutt í bankabækur eigendanna. Viðskiptabankarnir veittu lánin og sjávarútvegsfyrirtækin voru sett að veði fyrir skuldinni. Það var feigðarflan í fjárfestingum um 12 ára skeið. Feigðarflanið var einkavæðing á andvirði kvótans sem þjóðin á.

Rúm ákvæði um framsal kvótans, óbein veðsetning hans og samráð fárra um verðmyndun á veiðiheimildunum í góðu samstarfi við viðskiptabankana gerir eigendunum kleift í óbreyttu kerfi að viðhalda í meginatriðum núverandi skuldaþoli sjávarútvegsins og draga úr úr atvinnugreininni um 35 milljarða króna árlega. Það er von að Samtök atvinnulífsins berjist um á hæl og hnakka fyrir umbjóðendur sína í LÍÚ. Þetta snýst allt að lokum um peninga.

Athugasemdir