Nýlega kom út lokaskýrsla um áhrif stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi. Þar gekk flest vel en sumt miður eins og gengur, en megin niðurstaðan er að framkvæmdirnar urðu landi og þjóð til hagsbóta og þá sérstaklega Austfirðingum.
En því miður var umfjöllum fjölmiðla að miklu leyti ekki í samræmi við skýrsluna. RÚV gekk einna lengst í því að setja málið í neikvætt ljós. Í kvöldfréttum útvarps síðastliðinn sunnudag 31. október var það aðalatriði fréttarinnar og fyrirsögn að „bygging álversins á Reyðarfirði hafði lítil sem engin áhrif á jaðarbyggðum á Norðaustur- og Suðausturlandi“. Á textavarpinu er yfirskriftin: „Hafði ekki áhrif á fólksfækkun“!
Þetta var ekki niðurstaða skýrsluhöfunda. Hún var allt önnur en RÚV setti fram. Í stað þeirrar jákvæðu niðurstöðu að íbúum á miðsvæði Austurlands, þar sem áhrifa framkvæmdanna einkum gætti, fjölgaði um 1700 manns eða 22%, lagði fréttastofan áherslu á þá neikvæðu frétt að fólki hefði fækkað utan áhrifasvæðis framkvæmdanna. Hvers vegna breytti RÚV jákvæðu í neikvætt? Því verður að fá svar við. Um það verður ekkert fullyrt, en spyrja má hvort hinar jákvæðu staðreyndir hafi ekki verið fréttamanninum, sem útbjó fréttina, að skapi. Er neikvæð afstaða til álversframkvæmda eða atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni hugsanlega undirliggjandi? Hvers vegna var ekki greint frá efni skýrslunnar eins og það er sett fram? Er það eitthvað viðkvæmt að greina frá jákvæðum staðreyndum um áhrif virkjana- og álversframkvæmda?
Í fréttinni sjálfri, eftir að fréttastofan hefur fellt sinn dóm með yfirskrift og texta í fréttayfirlitinu, „helstinu“, kemur fram það rétta um fólksfjölgun á miðsvæði Austurlands og að fólksfækkunarsvæðið í Skaftafellsýslu og Þingeyjarsýslu hafi verið of fjarri framkvæmdunum. Með öðrum orðum, það var aldrei við því að búast að álversframkvæmdirnar hefðu áhrif á íbúaþróun þessara fjarlægu svæða. Þess vegna er það ekki mikil frétt þegar það kemur á daginn, hvað þá aðalatriðið. Þvert á móti hefði gagnrýninn eða glöggur fréttamaður getað bent á með áberandi hætti að líklegt væri að einmitt sambærileg fólksfækkun hefði orðið raunin á miðsvæði Austurlands ef ekki hefði komið til stóriðjuframkvæmdanna. Það var ekki gert. Það var þagað um það.
Hinn sívakandi fréttamaður hefði líka getað bent á að ríkisvaldið hefði ekki staðið sig í þvi að efna til aðgerða í atvinnumálum Skaftfellinga og Þingeyinga sem hefði getað komið í veg fyrir fólksfækkunina. Hefði ekki álver við Bakka á Húsavík næsta víst fjölgað íbúum í Þingeyjarsýslu umtalsvert í ljósi reynslunnar frá Reyðarfirði? En það var ekki gert. Það var þagað um það.
Kjarni málsins er þessi: Stóriðjuframkvæmdirnar höfðu þau áhrif sem spáð var.
1. Íbúum fjölgaði um 1700 manns eða 22%. Frávik frá spám er óverulegt eða um 2%.
2. Um 800 störf á miðausturlandi urðu til vegna stóriðjunnar. Hafnar eru framkvæmdir við nýja kersmiðju sem skapar 70 störf til viðbótar. Um 160 manns munu fá vinnu við byggingu smiðjunnar.
3. Meðaltekju á landsbyggðinni hafa verið hæstar á Austurlandi síðan 2002. Meiri tekjuaukning hefur orðið á Austurlandi en annars staðar á landinu.
4. Raforkusala jókst um 40% með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar og fær ríkið um 12.5 milljarða króna á ári fyrir raforkuna. Arðsemi eigin fjár er um 13.4%.
5. Efnahagsleg áhrif framkvæmdanna urðu mun minni en áætlað var í upphafi. Framkvæmdakostnaður við virkjun og álver varð um 266 milljarðar króna og aðeins um 85 milljarðar þar af komu inn í íslenska hagkerfið. Heildarfjárfesting á Íslandi árin 2002 –2008 voru um 1500 milljarðar króna. Innlendi hluti stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi er aðeins tæplega 6% af heildarfjárfestingunni á tímabilinu.
Um allt þetta var þagað í frétt Ríkisútvarpsins. Maður spyr í forundran, af hverju? En ekki voru allir fjölmiðlar heillum horfnir í þessu máli. Fréttavefurinn Eyjan gerði skýrslunni betri skil í tveimur fréttum í síðasta mánuði og hafi vefurinn þökk fyrir.
Athugasemdir