Skýrar línur: Það mátti ekki spyrja – það mátti ekki tala

Pistlar
Share

Í kvöld var einn allra einkennilegasti fundur sem ég hef setið. LÍÚ stóð fyrir baráttufundi á Ísafirði gegn öllum breytingum á kvótakerfinu og hafði safnað ýmsum aðilum með sér undir því yfirskini að berjast gegn fyrningarleið og gegn afnámi sjómannaafsláttar. Þegar til fundarins kom baráttufundurinn orðinn að málþingi sem ekki ályktaði. Baráttufundurinn gufaði upp, LÍÚ gugnaði.

Þegar til kom þorði LÍÚ liðið ekki að standa fyrir máli sínu og þorði ekki í umræðu við almenning, þorðu ekki að láta á það reyna hvað fundargestir vildu. Það mátti ekki reifa sjónarmið, það mátti ekki andmæla, það mátti ekki spyrja. Fundargestir mátti ekki taka til máls og þeir mátti heldur ekki bera fram fyrirspurnir. Þeir máttu bara sitja og þegja. Umræðan var bönnuð. Það er LÍÚ útfærslan á lýðræðinu.

Formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga var frummælandi og hann gagnrýndi fyrirkomulagið harðlega. En því var ekki breytt. Smábátafélagið Elding stóð að fundinum og vildi leyfa umræður og fyrirspurnir. En mennirnir í stóru kvótafélögunum vildu það ekki. Enginn fulltrúi ríkisstjórnarinnar var auglýstur meðal frummælenda. Enda stóð ekki til að reifa ólík sjónarmið. Það stóð bara til að ráðast á allar tilraunir til þess að breyta kvótakerfinu.

Þrír frummælendur gerðu ekkert annað en að úthúða fyrningarleið. Einn hefur verið í prófessorstöðu sem LÍÚ kostaði. Annar reiknaði í nafni endurskoðunarskrifstofu sjávarútveginn í gjaldþrot undir fyrningarleið. Báðir unnu svikalaust fyrir kaupinu sínu. Hvorugur vék að því orði hvers vegna sjávarútvegur væri yfirskuldsettur í kerfinu sem þeir vilja viðhalda. Hvorugur hafði neina athugasemd við kerfið, það þurfti ekki neinu að breyta, það var ekkert að. Það eina sem var gagnrýnivert að þeirra mati var vilji stjórnvalda til þess að breyta kerfinu. Hvorugur lagði það á sig að útskýra hvers vegna framkvæmdastjóri LÍÚ hafði sagt í fráttaviðtali fyrr í dag að það þyrfti að afskrifa 100 milljarða króna af sjávarútvegsfyrirtækjum. Það mátti ekki spyrja þá. Þessir ágætu menn voru illa dulbúnir áróðursmenn í dulargervi sérfræðingsins. Sá þriðji, formaður farmanna- og fiskimannasambandsins talaði eins og Þorsteinn Már Baldvinsson. Þorsteinn sjálfur er betri.

Einn frummælandi var ekki auglýstur enda var honum ekki boðið. Það var Björn Valur Gíslason, alþm og varaformaður nefndarinnar sem er að endurskoða fiskveiðilöggjöfina. Hann einfaldlega kom og krafðist þess að fá að tala og fékk það. Hann og formaður Verkalýðsfélagsins töluðu fyrir umræðum og skoðanaskiptum. Þeim varð ekki að ósk sinni. Þeir töluðu fyrir endurbótum á kerfinu og gagnrýndu sérstaklega framsalsreglurnar. Þeirra framlag varð til þess að fundurinn varð ekki algerlega áróðursfundur fyrir LÍÚ.

En Vestfirðingar láta ekki bjóða sér kúgun LÍÚ og munu svara með fundi um sjávarútvegsmál þar sem verða skoðanaskipti og umræður og unnið að nauðsynlegum breytingum á kvótakerfinu.

Fundurinn gerði eitt algerlega ljóst: LÍÚ berst með öllum tiltækum ráðum gegn sérhverri breytingu á kvótakerfinu.Línurnar eru skýrar.

Athugasemdir