Skynsamlegast er fyrir stjórnvöld að draga til baka umsóknina um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fyrir því eru nokkrar ástæður:
1. Aðild er of dýru verði keypt. ESB fengi forræði yfir fiskimiðunum, sjávarútvegur yrði í eigu erlendra aðila, pólitísk völd yrðu úr höndum íslenskra kjósenda og flutt úr landi. Örfáir innanlands, einkum flokksformenn og embættismenn, hefðu áhrif á framgang hagsmunamála.
2. Harðvítugar deilur hafa geysað innanlands í kjölfar hrunsins. Átökin hafa ekki verið jafn hörð og íllvíg í marga áratugi. Ekki sér fyrir endann á því ástandi og á meðan er óráð að bæta við nýju afar hörðu deilumáli, sem er aðild Íslands að Evrópusambandinu.
3. Það má heita næsta víst að aðild að ESB verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.
4. Undirrótin að byrði landsmanna vegna bankahrunsins er EES samningurinn með fjórfrelsinu. Útrás fjármálafyrirtækja á ábyrgð innlendra aðila byggist á frelsi fjármagnsins yfir landamæri innan allra landa Evrópska efnahagssvæðsins. Íslendingar höfðu ekki bolmagn til þess að standa undir sínum hluta af því sem frelsinu fylgdi, vandaðri löggjöf, faglega sterku eftirliti og Seðlabanka og síðast en ekki síst ráðherra, sem rísa undir ábyrgð sinni. Aðild að ESB opinberar enn frekar vanmátt okkar. Við eigum að einbeita okkur að því að ná tökum á stjórn og löggjöfinni innanlands og á meðan verður starfsemi innlendra fyrirtækja erlendis að vera á ábyrgð þarlendra yfirvalda.
5. Samstarf eins og EES og ESB grundvallast á því að í sem flestum málum gildi sömu lög og sömu reglur í öllum aðildarlöndunum. Því fylgir að hafa yfirþjóðlegar eftirlitsstofnanir og dómstóla. Íslendingar eru ekki tilbúnir til þess. Því fylgir of mikið framsal valds úr landi.
6. Íslendingar eru líka enn sem komið er of uppteknir af því að um þá gildi sérreglur þegar það á við. Stuðningsmenn aðildar að ESB gera sér grein fyrir þessu og hafa undanfarin ár ítrekað haldið því fram, til þess að gylla aðildina fyrir landsmönnum, að Íslendingar fengju sérmeðferð og undanþágur frá hinum og þessum reglum. Sem er að koma á daginn að er meira og minna skrum og ósannindi. Í samstarfi margra þjóða getur ein þeirra ekki valið sér bara það sem hana hentar hverju sinni. Stjórnvöld og reyndar allir stjórnmálaflokkar halda því blákalt fram að fjármagnsfrelsi EES samningsins eigi bara við um réttindi íslensku fjármagnsfyrirtækjanna til þess að athafna sig erlendis og féfletta sparisfjáreigendur þar, en þegar til ábyrgðarinnar kemur þá nái hún ekki til útlendinga.
7. Íslendingar hafa byggt upp velferðarþjóðfélag á grundvelli auðlinda lands og sjávar sem er í fremstu röð í heiminum eftir að þeir fengu fullveldið 1918. Þá var þjóðin meðal þeirra fátækustu í Evrópu. Fullveldið og sjálfstæðið hefur reynst vel.
Nú þarf að lægja öldur og setja niður deilur í íslensku samfélagi. Það þarf að horfast í augu við innlend mistök, spillingu, valdbeitingu og viðurkenna og færa til betri vegar. Það er ærið verkefni sem krefst allra okkar krafta á næstu árum. Það er um of að bæta ESB málinu við.
Athugasemdir