Fréttastofa RÚV sýndi í kvöld sérstakan fréttaskýringaþátt um Ísland og Evrópusambandið. Ætlunin var að varpa ljósi á hvað Evrópusambandið væri, hvert það stefndi og hvaða breytingar yrðu hér á landi við aðild. Útkoman eru mikil vonbrigði. Þrátt fyrir að margt í þættinum væri ágætt báru efnistökin í heild sinni þess augljóslega merki að gylltir voru kostir aðildar og dregið úr ókostum. Fréttastofan féll á prófinu.
Fyrst vil ég nefna að lítið sem ekkert var upplýst um skerðingu sjálfstæðis þjóðarinnar við aðild. Þar ber auðvitað hæst framsal dómsvalds til Evrópudómstólsins, en einnig verður umtalsvert framkvæmdavald og löggjafarvald flutt til Evrópusambandsins. Það hefði verið áhugavert að bera saman stöðu Íslands innan Evrópusambandsins nú við fullveldið sem fékkst frá Dönum 1918. Samhliða því að gera grein fyrir því sem sjálfstæðið 1944 færði þjóðinni umfram fullveldið.
Það er óumdeilt að stjórnarskráin heimilar ekki aðild að Evrópusambandinu. Þess vegna verður að breyta henni áður en til aðildar kemur. Hvað er mikilvægara en einmitt að gera grein fyrir því hverju þarf að breyta og hvernig og hvaða áhrif það hefur á sjálfstæði þjóðarinnar? Það er satt að segja ótrúlegt að fréttastofa Ríkisútvarpsins skuli algerlega sneyða hjá þessu lykilatriði málsins.
Mér finnst það líka verulegt áhyggjuefni að ungir og vel menntaðir fréttamenn skuli aðeins einblína á efnahagsleg áhrif á einstaklinga, en geta að engu sjálfstæði þjóðar eða veruleg skert áhrif kjósenda hér á landi til þess að hafa áhrif á framvindu mála. Oft hefur verið fjallað um skerðingu á vægi kjósenda af minna tilefni. Og víst er þörf á því að vekja athygli á vaxandi völdum embættismanna, hagsmunaaðila og einstakra ráðherra, innlendra sem erlendra, sem verður við aðild. Sjálfstæði og lýðræði eru hugtök sem voru varla til umfjöllunar í þættinum.
Annað sem vakti athygli mína er að efnið var framsett þannig engu líkara væri að umræðan væri tæmd með því að ræða við „óháða sérfræðinga“ enda fælu orð þeirra í sér hina einu réttu niðurstöðu. Undir þessum kufli hefur oft gefist vel að fela áróðurinn. Það er hlutverk fréttamanna að draga fram öll sjónarmið og koma þeim á framfæri við kjósendur. Kjósendurnir eru þeir sem taka afstöðu og eiga að fá að gera það án leiðbeiningar eða innrætingar frá fréttamönnum.
Einn sérfræðingurinn sem vitnaði í þættinum, Aðalsteinn Leifsson, er fjarri því að vera óhlutdrægur. Hann er of eindreginn stuðningsmaður aðildar til þess að hann geti verið einn til frásagnar um áhrif aðildar á sjávarútveginn eða vaxtagreiðslur af húsnæðislánum. Sá sem fenginn var til þess að meta áhrifin á landbúnað hafði allt aðra sögu að segja en talsmenn atvinnugreinarinnar án þess að gerð væri grein fyrir þeim sjónarmiðum.
Í heild má segja dregið var nánast í hvívetna úr neikvæðum áhrifum aðildar á einstakar greinar.Þar sem þó kom fram að áhrifin yrðu slæm var oftar en ekki sagt að mögulega fengjust undanþágur eða að mál myndu varla þróast á þann veg heldur annan betri. Meira að segja var reynt að halda því að áhorfendum að hin ríka þjóð Ísland, í samanburði við flestar þjóðir Evrópusambandsins, myndi fá meira úr sjóðum sambandsins en hún greiddi til þeirra.
Að sama skapi var því slegið föstu að aðild að Evrópusambandinu myndi sjálfkrafa lækka vexti og verð á innfluttum vörum. Ekki kom fram sú staðreynd að verð á innfluttum fatnaði og matvælum ýmsum sem þegar í dag er án tolla eða aðflutningsgjalda hefur um árabil verið hátt og langt yfir meðaltalsverði ESB landanna. Afnám eða lækkun tolla og aðflutningsgjalda hefur ekki haft þau áhrif til lækkunar sem ætti að vera. Ástæðan er einföld. Það er frjáls verðlagning og verðlagning tekur mið af því verði sem kaupandi er tilbúinn að greiða. Afnám tolla og gjalda breytir litlu sem engu, nema aukin samkeppni eða opinber verðstýring komi til.
Ríkisútvarpið hefur um áratugi verið flaggskip trúverðugrar fréttamennsku. Mikið traust landsmanna á stofnunni hefur líka staðfest það. Fréttaflutningurinn undanfarna mánuði um Evrópusambandið og Ísland hefur dregið mjög úr trú minni á áreiðanleika stofnunarinnar. Útvarpsstjórinn mætti eyða meiri tíma í að varðveita trúverðugustu fréttastofu landsins og minni tíma í það að vera sjálfur á skjánum.
Athugasemdir