Inn í Evrópusambandið til þess að bjarga ríkisstjórninni

Pistlar
Share

Ákvörðun Alþingis fyrr í dag þess efnis að sækja um aðild að Evrópusambandinu er dapurleg. Samþykktin er fengin fram með atkvæðum þingmanna Vinstri grænna, sem segjast vera andvígir málinu sem þeir studdu og þeir boða andstöðu við þann samning sem væntanlega verður gerður. Það gera þeir til þess eins að tryggja að flokkurinn verði áfram í ríkisstjórn.

Engin mál eru stærri en aðild að Evrópusambandinu og flokkur sem er á móti aðild getur ekki veitt henni brautargengi án þess að alvarleg eftirmál verði. Þingmenn sem velja það að verja valdastóla sína og koma svona fram við flokksmenn sína og kjósendur eru að vinna skemmdarverk á stjórnmálahreyfingunni og trúverðugleika hennar. Ríkisstjórninni var bjargað um sinn er flokknum fórnað.

Umboðið sem Alþingi veitir ríkisstjórninni er bæði opið og óljóst. Engin skilgreind samningsmarkmið né skilyrði eru í samþykktinni. Aðeins er vísað til þess að ríkisstjórnin skuli fylgja sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í nefndaráliti. Það er mjög óljóst og opið fyrir túlkun hvað slíkt þýðir, auk þess sem nefndarálit er ekki borið upp til atkvæða og er ekki hluti af þeim texta sem greidd eru atkvæði um. Álitið bindur ekki ríkisstjórnina. Þetta er vísvitandi gert. Ríkisstjórnin vill hafa mikið svigrúm til samninga og fær það með stuðningi Vinstri grænna.

Þetta þýðir að það verður gerður samningur. Hversu lélegur sem hann verður mun verða hægur vandi fyrir ríkisstjórnina að telja sig hafa haft umboð til þess að undirrita hann og það mun hún gera. Og það verður með öllum ráðum reynt að fá samþykki fyrir samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað ætla ráðherra Vinstri grænna að gera þá? Trúir því einhver að þeir muni þá fórna ráðherrastólunum og leggjast gegn samningnum?

Annað sem er hryggilegt í afgreiðslu málsins er þáttur Framsóknarflokksins. Þrír þingmenn flokksins komu fyrst í veg fyrir að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um umsóknina og tryggðu síðan framgang aðildarumsóknarinnar með atkvæði sínu. Það gerðu þeir þrátt fyrir að skilyrði flokksins fyrir aðildarumsókn sé hvergi að finna í samþykkt Alþingis. Andstaðan við aðild að Evrópusambandinu er mjög mikil innan Framsóknarflokksins ekki síður en innan Vinstri grænna. Ætla má að um 80% flokksmanna séu eindregnir andstæðingar aðildar.

Sundrung þingflokksins í atkvæðagreiðslunni á eftir að draga á eftir sér langan slóða og valda flokknum miklum erfiðleikum. Margir kjósendur flokksins munu telja sig illa svikna, þegar þingmenn sem hétu því í kosningabaráttunni að fylgja samþykkt flokksins í málinu bregðast eigin fyrirheitum. Undan þeim svikum svíður sárar þar sem þingmenn flokksins réðu úrslitum.

En þetta ætti að opna augu manna fyrir því að það er ekki hægt að gera samþykkt í svo stóru máli milli andstæðra sjónarmiða sem gefur báðum fylkingum færi á að túlka samþykktina sínu sjónarmiði í vil. Það er ekki hægt að tala með tungum tveim og sitt með hvorri. Það endar illa eins og atburðir dagsins draga berlega fram.

Stjórnmálaflokkur á að vera um skýra stefnu en ekki utan um einstaklinga með gerólík sjónarmið. Stefnan er meginmálið en ekki tilvist flokks. Stjórnmálaflokkur er tæki til þess að ná stefnunni fram. En nú eru of margir flokkar tæki fyrir einstaklinga til þess að ná fram eigin metnaði burtséð frá stefnunni. Það kann ekki góðri lukku að stýrra.

Athugasemdir