Út úr ógöngunum

Pistlar
Share

Sjávarútvegurinn á Íslandi er líklega staddur í verri ógöngum en nokkru sinni áður. Löggjöf um stjórn fiskveiða er stórlega gölluð vegna ófullnægjandi ákvæða um framsal veiðiheimilda. Í 20 ár hafa allar viðhorfskannanir sýnt mikla óánægju almennings með kerfið og um 85% vilja breyta því eða leggja það niður.

Fyrir réttum 10 árum ráðist í heildarendurskoðun laganna. Niðurstaðan varð eftir mikil átök að hafa kerfið óbreytt en leggja á svonefnd veiðigjald, sem útgerðarfyrirtæki áttu að greiða fyrir afnotin af veiðiheimildunum til þess að friða gagnrýnendur kerfisins.
Heimildir til framsals hafa verið nánast óskertar á þessum tíma og leigugjaldið hefur verið á bilinu 150 – 250 kr. fyrir hvert kg. af þorski. Handhafi veiðiheimildanna skilar aðeins 1 – 2% af leigunni til ríkisins en heldur eftir ríflega 98%.

Veiðigjaldið var aldrei svar gagnrýnendanna við ágöllum kerfisins heldur svonefnd sátt boðin fram af LÍÚ og þáverandi ríkisstjórnarflokkum. Sátt sem var svo aldrei staðið við og reyndist svikasátt. Almenningur var blekktur. Þessi svik hafa reynst íslensku þjóðarbúi og sjávarútveginum dýrkeypt. Fimm hundruð milljarða króna skuldir sjávarútvegsfyrirtækja segja alla söguna. Það var hægt að komast hjá þessum ógöngum og þeir bera mikla ábyrgð sem komu í veg fyrir það.

Fimm ástæður

Ég vil nefna fimm ástæður fyrir því að ráðast verður í róttækar breytingar. Sú fyrsta er að framsalið var strax í upphafi óréttlátt. Það færði handhöfum veiðiheimilda vald til þess að velja þriðja aðila sem fengi aðgang að fiskimiðunum gegn gjaldi. Þegar veiðar voru takmarkaðar árið 1984 var það eðlileg ráðstöfun að þeir sem höfðu verið að stunda veiðar fengju úhlutað veiðirétti. Það gerði þeim kleift að stunda áfram það sem þeir höfðu verið að gera, að veiða fisk og vinna.

En með framsalinu, sem tekið var upp árið 1990, varð eðlisbreyting á kerfinu og þá átti að byrja upp á nýtt með nýju úthlutunarkerfi. Það er óréttlátt að nýir útgerðarmenn séu þeim eldri algerlega háðir um aðgang að heimildum. Það er óréttlátt að nokkur stór útgerðarfyrirtæki hafi árum saman aflað sér gríðarlegra tekna með leigu kvóta án nokkurs tilkostnaðar. Útgerðirnar sem greiða leiguna og veiða fiskinn eru verr stödd sem því nemur. Það er ekki sanngjarnt samkeppnisumhverfi.

Önnur ástæða fyrir breytingum er sú að framsalið hefur leitt til þess að skuldir atvinnugreinarinnar hafa fimmfaldast og eru nú um 500 milljarðar króna. Framsalið leiddi að sönnu til hagræðingar en hún var öll tekin út strax og henni eytt og það langt fram í tímann. Eftir eru skuldirnar sem hafa farið vaxandi með hverju árin. Þær verða ekki greiddar nema með því að ganga á hlut launamanna í sjávarútvegi . Það þarf ekki mikla snillinga til þess að stofna til skulda , það reynir fyrst á menn í atvinnurekstri þegar þarf að borga.

Þriðja ástæðan er að andvirði verðmætanna í veiðiheimildunum hvarf út úr greininni. Það reyndist bábilja að verðmætin yrði áfram í greininni þótt þau flyttust milli fyrirtækja við sölu. Peningarnir voru teknir út og fluttir í annað. Athyglisvert er að fjármunirnir hafa mest verið notaðir til fjárfestingar á höfuðborgarsvæðinu eða erlendis en sáralítið á landsbyggðinni. Skuldasöfnunin í sjávarútveginum hefur styrkt höfuðborgarsvæðið en er fyrst og fremst klafi á landsbyggðinni.

Fjórða ástæðan er að smánarlega lágir skattar voru greiddir af öllum þessum peningum sem teknir hafa verið út úr sjávarútveginum. Stofnuð voru félög um hlutabréfaeignina og þau gengu kaupum og sölu. Felldur var niður tekjuskattur af söluhagnaði bréfanna og látið duga að innheimta 10% fjármagnstekjuskatt. Þessu til viðbótar voru félögin sum hver a.m.k. færð til heimilis í skattaparadísum erlendis og af umsvifum þeirra fengist engir skattar.

Loks skal nefndur sá skaði sem framsal veiðiheimilda hefur haft á verðmæti fasteigna einstaklinga í einstökum byggðarlögum og lækkandi atvinnutekjur þeirra. Skaðinn er gríðarlegur og nemur mörgum tugum milljarða króna og fólkið hefur þurft að bera þann skaða algerlega óbættan. Þróunin í sjávarútvegi er langveigamesta ástæðan fyrir því hvernig komið er þótt það sé auðvitað fleiri ástæður sem koma til. Ávinningurinn af framsalinu var einkavæddur en tapið bera einstaklingarnir og fjölskyldurnar.

Ábyrgðarlausar reglur um framsal veiðiheimilda og ótímabundin úthlutun þeirra eru höfuðorsökin fyrir því hvernig komið er. Það mun aldrei þrífast heilbrigður rekstur í svo gölluðu umhverfi.

Athugasemdir