Lengi hefur verið barist fyrir því að helstu auðlindar lands og sjávar verði lýstar þjóðareign með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins. Á þann veg væri tryggðir hagsmunir landsmanna og komið í veg fyrir að aðilar innlendir sem erlendir gætu slegið eign sinni á auðlindirnar. Með eignarhaldinu geta eigendurnir fénýtt einstaka auðlind og að sama skapi féflett þá sem nýta hana eins og hefur gerst í sjávarútveginum með hörmulegum afleiðingum.
Þess vegna var því tekið fagnandi þegar forystumenn fjögurra flokka hugðust gera einmitt þetta og setja þjóðareignarákvæði í stjórnarskrána. En þegar að var gáð var þjóðareignakápan aðeins klæðið sem huldi raunverulegan tilgang. Þetta þekkist í stjórnmálunum og hefur svo sem gerst áður að menn segja eitt en meina annað. Þegar frumvarpið var lesið vöknuðu strax tvær áleitnar spurningar.
Fyrri spurningin er þessi: Af hverju á ekki að leggja þessa tillögu fyrir þjóðina og spyrja hana hvort hún vilji samþykkja hana ? Það er frekar dularfullt að segja sem svo, að héðan í frá á þjóðin að samþykkja breytingar á stjórnarskránni af því að það er krafa þjóðarinnar um aukið lýðræði, en áður en það verður ætlar ríkisstjórnin og fulltrúar flokkanna fjögurra að gera tvær breytingar án þess að spyrja þjóðina. Önnur breytingin er þjóðareignaákvæðið og hin er stjórnlagaþingið, sem ég hef áður fjallað um á heimasíðu minni.
Líklegast svarið við spurningunni er að það var ekki verið lýsa náttúruauðlindirnar þjóðareign í stjórnarskránni. Það var bara í plati. Staðreyndin er sú, sem almenningur hefði séð og áttað sig á við kynningu á málinu, ef til þjóðaratkvæðagreisðlu hefði komið, að það var verið að fela Alþingi að ákveða með lögum hvort auðlind væri þjóðareign eða ekki. Hefði Alþingi samþykkt tillöguna nú og aftur eftir kosningar þá væru fiskistofnarnir ekki þjóðareign eins og flestir örugglega halda. Meira að segja er sérstaklega tekið fram að það yrði engin breyting á kvótakerfinu og tangarhaldi útgerðarinnar á fiskveiðiheimildunum. Það er annað en kjósendum hefur verið sagt.
Þetta kemur skýrt fram í greinargerð með frumvarpinu á bls. 26, en þar segir berum orðum: „vegna þess að aðstæður og viðhorf geta breyst í tímans rás er ekki gert ráð fyrir að náttúrurauðlindir í þjóðareign verði skilgreindar í sjálfri stjórnarskránni, heldur verði það gert í almennum lögum.“ Síðar er greint frá því að til þess að nytjastofnar á Íslandsmiðum féllu undir þjóðareignina yrði að setja sérstök lög þar um síðar. Staðreyndin er nefnilega sú að ætlun flutningamanna var sú að ríkisstjórn á hverjum tíma gæti í krafti meirihluta síns á Alþingi sett lög sem færi auðlind í þjóðareign eða hið gagnstæða úr þjóðareign og einkavætt hana.
Þetta er sannleikurinn um hið háleita markmið stjórnarskrárfrumvarpsins. Flutningsmennnirnir treystu ekki þjóðinni til þess að ákveða hvaða auðlindir eigi að vera í þjóðareign. Þeir ætluðu að taka sér stjórnarskrárvaldið úr höndum þjóðarinnar og hafa það sem meðfærilegt tæki í höndum fárra ráðamanna.
Með öðrum orðum þeir voru ekki að færa þjóðinni vald heldur að fara öfuga leið, að færa sjálfum sér vald framhjá þjóðinni. Það er mikið hættuspil að fela framkvæmdavaldinu, í gegnum tök sín á Alþingi, meira og minna allt vald til þess að ákveða hvað stjórnarskráin mælir fyrir um að þessu leyti. Í stjórnarskránni sjálfri eiga að vera skýr fyrirmæli um þjóðareign á auðlindum og ríkisstjórn og Alþingi eiga að lúta þeim fyrirmælum og vinna samkvæmt þeim. Annað er valdarán.
Þá er það síðari spurningin sem vaknaði: Af hverju vilja flokkarnir ekki hafa það skýrt hvaða auðlindir eru þjóðareign? Mér finnst líklegasta skýringin vera sú að ætlun flutningamanna er að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu strax að loknum Alþingiskosningum. Þeim er það ljóst að aðild fæst ekki nema yfirráð yfir fiskveiðiauðlindinni verði færð til Brussel. Þess vegna yrði í raun sjálfhætt ef komið væri í stjórnarskrána skýrt og ófrávíkjanlegt ákvæði um þjóðareignina. Það skýrir líka hvers vegna ætlunin var að setja strax sveigjanlegt auðlindaákvæði í stjórnarskrána og sniðganga þjóðina.
Það er ekkert ókeypis í veröldinni og það á við um aðild að Evrópusambandinu. Hún fæst ekki án gjalds og það sem Evrópuþjóðir ásælast er aðgangur að auðlindum okkar, fiskistofnum og orkunni. Aðildarviðræður eru viðskipti en ekki þróunarhjálp Evrópu við Íslendinga sem hafa komið sér í vandræði. Höfum það í huga.
Athugasemdir