Fyrri hálfleikur

Pistlar
Share

Alþingiskosningarnar, sem verða eftir 10 daga, bera greinilega þann svip að vera aðeins fyrri hálfleikur í uppgjöri og endurmati þjóðarinnar vegna bankahrunsins. Seinni hálfleikurinn verður með næstu Alþingiskosningum og þær verða innan fjögurra ára, líklega innan tveggja ára.

Kjósendur eru reiðir en líka að nokkru leyti ráðvilltir. Reiðin fær útrás í því að þeir flokkar sem hafa mest verið við völd undanfarin ár, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, munu fá slæma kosningu. Að sama skapi munu Samfylkingin og Vinstri grænir fá góða útkomu og líklega hreinan meirihluta. Það er því útlit fyrir alger skipti á flokkum í ríkisstjórn. Það er fyrsta svar kjósenda og það sem ég kalla fyrri hálfleik í uppgjörinu.

Tvennt kemur á óvart ef þetta verður raunin. Annars vegar skellur Framsóknarflokksins sem verður síst minni en í kosningunum fyrir tveimur árum ef kosningaspár ganga eftir. Flokkurinn krafðist kosninga og fékk sitt fram við stjórnarskiptin 1. febrúar síðastliðinn. Greinilegt er að of skammt er síðan Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn og því ekki laus undan ábyrgð á bankahruninu að mati kjósenda. Kosningarnar sem eru í boði Framsóknar, að eigin sögn, eru að springa framan í flokkinn sjálfan og gætu orðið til þess að festa hann í sessi sem smáflokk.

Hitt sem vekur athygli er útreið Frjálslynda flokksins. Hann mun missa nær allt sitt fylgi og þurrkast út af þingi ef fram fer sem horfir. Það er ótrúlegt þegar litið er til þess að flokkurinn hefur verið í stjórnarandstöðu allan þann tíma sem kjósendur virðast vera að gera upp sakirnar við í þessum Alþingiskosningum og þess vegna í kjörstöðu til þess að sækja fram og auka fylgi sitt. En það mistekst algerlega.

En kjósendur eru líka ráðvilltir. Það er vegna þess að myndin af bankahruninu er ekki orðin skýr. Það mun taka nokkurn tíma enn áður en megindrættirnir verða orðnir ljósir. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, sem er væntanleg fyrir 1. nóvember, mun varpa ljósi á aðdragandann, bæði atburðarrásina og þátt einstakra aðila, fyrirtækja, einstaklinga, ríkisstjórnar, stofnana og Alþingis. Sama er að segja um verk sérstaks saksóknara og annarra sem eru að vinna að því að skýra málið og finna hvar ábyrgðin liggur.

Þegar þetta liggur fyrir verða stjórnmálaflokkarnir að svara því hvernig þeir ætla að bregðast við og gera grein fyrir því hver stefna þeirra verður í framhaldinu. Það er hið pólitíska uppgjör sem kjósendum munu krefjast og þeir munu ekki una því að bíða í fjögur ár eftir því. Þess verður krafist og það fer fram með Alþingkosningum. Þá fer fram seinni hálfleikurinn í uppgjörinu við bankahrunið.

Það sem verður sérstaklega áhugavert að fylgjast með er hver áhrifin verða á stjórnmálaflokkana og stefnu þeirra. Það er margt sem bendir til þess að uppgjörið, sem verður við hugmyndafræði og stefnu flokkanna, muni leiða til verulegra breytinga á stjórnmálasviðinu. Stefna sumra flokka mun taka verulegum breytingum og aðrir munu líða undir lok og nýir flokkar verða til. Ég sé fyrir mér ákaflega spennandi tíma í stjórnmálunum þar sem tekist verður á um grundvallarhugtök í þjóðmálunum.

Athugasemdir