Stjórnmálaflokkarnir á Alþingi hafa náð samkomulagi um það að láta fara fram rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Sett verða sérstök lög um rannsóknina og skipuð þriggja manna nefnd óháðra og valikunnra manna sem fær viðtækar heimildir til þess að afla sér gagna og upplýsinga um málið.
Nefndin á að leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.
Nefndin skal í þessu skyni:
1. Varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir þess vanda íslenska bankakerfisins sem varð Alþingi tilefni til að setja neyðarlögin.
2. Gera úttekt á reglum íslenskra laga um fjármálamarkaðinn í samanburði við reglur annarra landa og framkvæmd stjórnvalda á þeim.
3. Leggja mat á hvernig staðið hafi verið að eftirliti með fjármálastarfsemi hér á landi á síðustu árum og upplýsingagjöf af því tilefni milli stjórnvalda, til ríkisstjórnar og til Alþingis.
4. Koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu sem miða að því að gera íslenskt fjármálakerfi færara um að bregðast við þróun og breytingum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.
5. Gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.
6. Skila Alþingi skýrslu um rannsóknina ásamt þeim samantektum og úttektum sem nefndin ákveður að láta vinna í þágu rannsóknarinnar.
Að því marki sem nefndin telur nauðsynlegt er henni heimilt að láta rannsókn sína taka til atburða eftir gildistöku neyðarlaganna eða gera tillögu um frekari rannsókn á slíkum atburðum.
Í tengslum við athugun á fyrrgreindum atriðum skal enn fremur fara fram rannsókn þar sem lagt verði mat á hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði á fjármálamarkaði.
Skylt verður að veita nefndinni umbeðnar upplýsingar og nær það meðal annars til upplýsinga og gagna sem að öllu jöfnu eiga fara leynt og bankaleynd ríkir um. Þung viðurlög eru við því að synja nefndinni um svör.
Nefndin á að skila til Alþingi skýrslu fyrir 1. nóvember á næsta ári og verður hún opin almenningi.
Formenn allra flokka flytja málið og rökstyðja það meðal annars með þessu:
Mikilvægt er að afmarka með skýrum hætti í upphafi að hverju rannsóknin eigi að beinast. Huga þarf að tveimur atriðum í því sambandi. Annars vegar þarf rannsóknin að vera nægilega heildstæð til að geta svarað þeim spurningum sem brenna á þjóðinni um ástæður þeirra áfalla sem hér hafa orðið og hverjir beri ábyrgð á þeim. Hins vegar þarf að gæta að því að verkefnið verði viðráðanlegt og að unnt verði að vinna það á sem skemmstum tíma.
Það er kannski kjarni málsins að flutningsmenn benda á að til þess að þjóðin geti gert upp bankahrunið í næstu kosningum þurfi fyrst að fara fram rannsókn og gagnaöflun. Það er forsenda upplýstrar umræðu og ákvörðunar.
Athugasemdir