Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á fasteigna- og fjármálamarkaði kennir marga einkennilegra grasa. Tormelt er sú staðhæfing að veruleg kólnun fasteignamarkaðarins muni koma niður á íbúðarkaupendum og íbúðareigendum.
Síðasta áratug hefur raunverð íbúðarhúsnæðis meira en tvöfaldast á höfuðborgarsvæðinu og raunar víðar. Mest var verðhækkunin árin 2004 og 2005. Þessi verðhækkun hefur drifið áfram verðbólguna og nærri helmingur hennar er af þeim sökum. Verðtryggingin hefur svo séð um að hækka íbúðalánin og afborganir af þeim í samræmi við verðbólguna.
Þennan bagga hafa skuldarar um land allt þurft að bera, jafnvel þótt verðhækkun íbúða þeirra hafi verið lítil sem engin í samanburði við höfuðborgarsvæðið. Nú hillir undir verðlækkun á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, sem mun um land allt lækka skuldir íbúðareigenda og afborganirnar af lánunum og rétta af að nokkru leyti misvægið á verðþróun eftir landshlutun. Þá grípur ríkisstjórnin til aðgerða.
Þegar offramboð íbúða, hækkandi vextir og lækkandi kaupmáttur leiða til verðlækkunar á höfuðborgarsvæðinu ætlar ríkisstjórnin að stöðva gangverk markaðslögmálanna. Það er ekki í þágu skuldara að skuldir lækki ekki. Það er ekki í þágu væntanlegra íbúðakaupenda að verð íbúðanna endurspegli ekki kaupmátt. En það er í þágu bankanna að botnveðsettar íbúðir lækki ekki í verði. Og það er í þágu bankanna og byggingarverktakanna að hægt verði að selja þúsundir af óseldum íbúðum á háu verði. Þetta er stóra mótvægisaðgerð ríkisstjórnarinnar.
Ríkisábyrgð á útlánum bankanna
Boðað er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að ríkisbankinn Íbúðalánsjóður endurfjármagni lán sem lánastofnanirnar hafa þegar veitt með veði í íbúðarhúsnæði. Eftir því sem næst verður komist eru þessi lán um 500 milljarðar króna. Lánin komu til að mestu leyti á síðustu fjórum árum þegar bankarnir ætluðu að knésetja Íbúðarlánasjóð og lánuðu fólki eins og verðmæti húsnæðisins leyfði allt upp í 100% án tillits til þess hvort einhver íbúðakaup fóru fram eða ekki.
Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á Íbúðalánasjóður að endurfjármagna þessi láni og taka veð í þeim. Ekki er að finna nokkurt orð í yfirlýsingunni sem dregur úr eða takmarkar þá fjárhæð sem Íbúðalánasjóður á að endurfjármagna.
Þá vakna ýmsar spurningar. Á að taka veð í lánum sem eru umfram 80% af verðmati íbúðar? Á að búa til lánavöndla af tryggum og ótryggum lánum sem Íbúðalánsjóður á að taka veð í? Á Íbúðalánasjóður að endurfjármagna erlend lán heimilanna, en þau munu vera um fimmtungur allra lána þeirra? Hver á þá að bera gengisáhættuna af þeim lánum?
Þá á sjóðurinn líka að fjármagna ný íbúðalán sömu stofnana. Í staðinn eiga lánastofnanirnar að greiða sérstakt ríkisábyrgðargjald af báðum lánaflokkunum. Það getur varla farið á milli mála að þessi áform stríða gegn reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um ríkisaðstoð.
Viðskiptabankarnir hafa höfðað mál gegn ríkinu fyrir ESA dómstólnum fyrir ríkisaðstoð með ríkisábyrgð á lánveitingum Íbúðalánasjóðs, sem er að þeirra mati ólögmæt. Hvernig ætla þeir að þiggja ríkisaðstoðina á sama tíma og þeir eru í málaferlum við ríkið? Ef þeir gera það verður ekki annað séð en að málareksturinn falli um sjálft sig og til hvers var þá barist?
Síðan er það spurningin um alla milljarðana sem bankarnir fá frá ríkinu gegnum þessa Haarde aðstoð sem gæti orðið stærri en Marshall aðstoðin á sínum tíma. Það verður ekki séð að neinar skorður verði settar um ráðstöfun þeirra. Fimm hundruð milljarðar króna eru miklir peningar og það til frjálsrar ráðstöfunar fyrir einkaframtakið.
Það er stóra mótvægisaðgerðin á ábyrgð ríkissjóðs.
Athugasemdir