Gefur Alþingi utanundir

Pistlar
Share

Árið 1991 voru gerðar róttækar breytingar á starfsemi Alþingis. Felld var niður deildaskipting þingsins og eftir það varð lagasetning mun fljótvirkari en áður. Alþingi er starfshæft allt árið, allar þingnefndir halda umboði sínu jafnvel þótt þinghlé sé, forseti Alþingis og önnur trúnaðarembætti eru ávallt skipuð. Þingið getur komið saman hvenær sem er með mjög skömmum fyrirvara. Að auki hafa verið gerðar breytingar síðan sem lengja starfstíma þingsins og auka starf þingnefnda. Í vetur var t.d. ákveðið að þing komi saman 1. september eða mánuði fyrr en verið hefur.

Áður var það svo að þingi var formlega slitið að vori og umboð nefnda og þingforseta féll niður og nýtt þing ekki sett fyrr en um haustið. Fjóra til fimm mánuði á hverju ári var þingið ekki starfandi , engar þingnefndir til og enginn þingforseti. Vegna þessa gamla fyrirkomulags var algengt að sett voru bráðabirgðalög á hverju ári um ýmis málefni stór og smá. Mikið óánægja var með þetta meðal þingmanna úr öllum flokkum og leiddi hún til þess að hinar róttæku breytingar voru gerðar 1991.

Meira að segja var mikill þungi fyrir því að afnema með öllu heimild í stjórnarskrá til einstakra ráðherra til þess að setja bráðabirgðalög. En það mætti harðri mótspyrnu eins og vænta mátti frá ráðherrum og forystumönnum flokkanna og niðurstaðan varð að heimildin fyrir bráðabirgðalögum er enn í stjórnarskránni, en hún var þrengd verulega og að auki fengu ráðherrarnir ströng fyrirmæli frá þinginu um að beita henni aðeins við stórum málum sem vörðuðu heildarhagsmuni og að svo skjótt yrði að bregðast við að Alþingi gæti ekki komið saman í tæka tíð.

Þetta hafa forystumenn ríkisstjórna sem setið hafa frá 1991 virt að mestu. En seinni árin er farið að bera aftur á því að sett eru bráðabirgðalög sem hæglega var hægt að komast hjá og þess í stað að leggja frumvarp fyrir Alþingi. Þrjú síðustu dæmi eru öll af verri sortinni. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra setti sumarið 2003 bráðbirgðalög til þess að vernda hagsmuni eins fyrirtækis á Suðurlandi. Hagsmunirnir voru þarna alltof smáir og staðbundnir til þess að beita bráðabirgðalagavaldinu og öllu verra var að ráðherrann hafði lagt frumvarp fyrir þingið vorið áður um þetta efni , en landbúnaðarnefnd þingsins vildi ekki afgreiða málið með hraði og lét það liggja yfir sumarið, enda var efni frumvarpsins afar umdeilt. Í þessu máli var bráðabirgðalagavaldinu beitt beinlínis til þess að setja ofan í við þingið.

Í fyrra brá svo við að viðskiptaráðherra fetaði í þessi fótspor og setti bráðabirgðalög og heimilaði að raflagnir og rafföng í íbúðum og skólabyggingum á Keflavíkurflugvelli uppfylltu ekki þær kröfur sem gerðar eru í íslenskum lögum og reglugerðum. Þarna var freklega gengið framhjá Alþingi sem gat hæglega tekið málið fyrir innan þess tíma sem talið var þurfa.

Í þriðja sinn er nú höggvið í sama knérunn með bráðabirgðalögum um Viðlagatryggingu Íslands vegna jarðskjálftana 29. maí sl. Aðeins er vika síðan Alþingi gerði hlé á þingfundum og reyndar hafa sumar þingnefndir haldið fundi síðustu daga. Ekkert er því til fyrirstöðu að leggja frumvarp fyrir þingið þegar í stað, ef ríkisstjórnin telur að málið þoli enga bið.

Það verður að bregðast mjög hart við þessari sívaxandi áráttu einstakra ráðherra sem augljóslega eru að beita bráðabirgðalagavaldinu til þess að komast hjá því að leggja málið fyrir þingið og standa fyrir máli sínu þar. Þess í stað er þingið nú sett í þá stöðu að þegar það kemur saman 1. september verður væntanlega búið að greiða út bætur skv. hinum nýju skilmálum og þingið stendur frammi fyrir orðnum hlut.

Vissulega kunna að vera rök fyrir því að leggja til breytingar á lögunum um Viðlagatrygginguna en þau þurfa að koma fram og til þess er ætlast í stjórnarskránni að það sé gert á Alþingi og málið rætt og athugað áður en lög eru sett.

Ég hef verulega efasemdir um það að breyta skilmálunum eftir á eins og ráðherrann er að gera. Það er meginregla í tryggingum á menn tryggi ekki eftir á. Sem dæmi má nefna að árið 1994 hafnaði Alþingi því að breyta þessum sömu lögum á þann veg að bættar yrðu skíðalyftur á Ísafirði sem höfðu eyðilagst í snjóflóði. „Þá er í ákvæði til bráðabirgða afturvirkt ákvæði um að Viðlagatryggingu Íslands verði heimilt að greiða bætur vegna tjóns sem varð á skíðalyftum á Ísafirði í snjóflóðum veturinn 1994“ eins og sagði í frumvarpinu.. Þingnefndin varð sammála um þetta og í áliti hennar stendur: „Nefndin telur ekki rétt að lögfest sé afturvirkt ákvæði sem byggir á því að munir séu tryggðir eftir á eins og frumvarpið gerir ráð fyrir“.

Frekar ætti að huga að því að setja ákvæði um sérstakar greiðslur til tjónþola en að breyta skilmálum trygginganna og hækka bæturnar , ef það er talið rétt að minnka tjón einstaklinganna. Það væri t.d. rétt að upplýsa hvernig sambærileg tjón voru bætt í Suðurlandsskjálftanum árið 2000 og hver sjálfsábyrgðin var þá.

Eitt stingur verulega í augu í ráðherralögunum. Þar gefur hann sjálfum sér þá heimild að geta hvenær sem er hækkað sjálfsábyrgðina. Það þýðir að sjálfsábyrgðin getur verið breytileg frá einu tjóni til annars og frá einu landssvæði til annars og ráðherrann er í lögunum ekki bundin neinum ákvæðum eða skilyrðum. Hann gefur sjálfum sér fullt sjálfdæmi. Hvers konar sjálftaka á löggjafarvaldi er þetta? Alþingi er gefið rækilega utanundir og var þó nóg komið.

Athugasemdir