Sjómannadagur – Ísafjarðarkirkja – ræða 1.júní 2008

Pistlar
Share

Ágætu gestir og góðir Ísfirðingar.
Ég vil óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.

Sjómannadagurinn skipar mikilvægan sess í hugum Íslendinga, á þessu ári eru 70 ár síðan hann var fyrst haldinn hátíðlegur og Ísfirðingar voru frumkvöðlar á því sviði eins og mörgu öðru sem lýtur að sjávarútveginum. 1938 riðu þeir á vaðið ásamt Reykvíkingum og efndu til sérstaks hátíðardags fyrir sjómenn.

Það þarf engan að undra að almenn samstaða hafi fljótlega orðið um að halda sérstakan hátíðisdag til heiðus sjómannastéttinni. Sjávarútvegurinn er atvinnugreinin sem hefur skilað landsmönnum bættum lífskjörum og stuðlað að framförum í þjóðfélaginu með slíkum hraða að engar þjóðir í veröldinni geta státað að viðlíka afrekum.

Í upphafi síðustu aldar var íslenskt þjóðfélag með þeim frumstæðustu sem fyrirfundust í gervallri Evrópu. Fátækt var mikil og lífskjörin hörð, vinnufólk háð húsbændum sínum og enn voru við líði vistarbönd. Vegir ekki til, byggingar fáar, bæjar- og borgarmyndun varla hafin, engar almannatryggingar og samhjálp af skornum skammti.

En það lýsti af nýrri öld, þjóðin sótti fram hröðum skrefum, tók stjórn innanlandsmála í eigin hendur, fyrst með heimastjórn, svo fullveldi og loks sjálfstæði. Sjálfstæðið færði okkur að lokum full yfirráð yfir auðlindum sjávarins og gerði okkur kleift að efla sjávarútveginn á Íslandi, atvinnugreinina sem breytir fiski í hafinu í lífskjör, sem eru með þeim bestu sem þekkjast í heiminum. Það væri mikið glapræði að kasta frá sér því sem hefur reynst okkur best í einhverju óðagoti þegar tímabundnir erfiðleikar steðja að.

Við eigum sjómönnum mikið að þakka í þessu aldarlöngu framfaraskeiði. Þeir hafa lagt sig í hættu við störf sín, hafa sýnt áræðni, útsjónarsemi og hugdirfsku við veiðarnar. Það er ekki nóg að eiga auðlindir, þær eru engum til gagns ef enginn er til að nýta þær. Það hefur verið gæfa íslensku þjóðarinnar að eiga slíka menn. Þess vegna hefur okkur farnast vel.

Vestfirðingar hafa löngum verið í fararbroddi í útgerð. Þeir tóku sér fyrir hendur að halda uppi siglingum til annarra landa af eigin rammleik og voru þannig í beinum samskiptum við erlenda markaði eins og Ásgeirsverslunin á Ísafirði er besta dæmið um. Ísfirðingar settu fyrstir vél í bát og hófu útgerð mótorbáta og hafa lengst af síðan verið brautryðjendur í nýjungum í útbúnaði skipa og veiðarfæra.

Nálægðin við gjöful fiskimiðin hefur dregið að sér athafnamenn sem nýttu sér tækifærin sem voru í sjósókninni á hverjum tíma. Það er líklegasta skýringin á þeim krafti sem hefur einkennt Vestfirðinga um langt árabil. Mörg dæmi er hægt að nefna því til sönnunar.

Gleggasta dæmið er að til Vestfjarða streymdi fólk úr öðrum landsfjórðungum, einkum Norðurlandi, á síðustu áratugum 19. aldar og fyrstu árum þeirrar 20., en á sama tíma fluttust þúsundir Íslendinga til Vesturheims. Hafísár, eldgos og önnur harðindi gerðu það að verkum að fólkið flosnaði upp af jörðum sínum og fór þangað sem tækifærin lágu til þess að skapa sér og fjölskyldu sinni lífvænlega framtíð, til Vesturheims og Vestfjarða.

Annað dæmi er af öðrum toga. Á Ísafirði voru um tíma tveir einfættir menn, sem hvor um sig með útgerð lítils báts, gat séð sér og sínum farborða. Þetta var fyrir miðja síðustu öld og lítt vinnufært fólk átti á þeim tíma mikið undir góðu fólki, ef það fyrirfannst ekki þá átti það aðeins erfiða ævi. Þessir dugnaðarmenn tókust á við erfiðleikana og leystu þá, þeir fundu í sjósókninni tækifærin til þess að vera sjálfbjarga og hluti af hinu skapandi þjóðfélagi, tækifærin sem ekki voru annars staðar. Þeir voru stoltir Ísfirðingar og Ísfirðingar voru stoltir af þeim.

Á stríðsárunum máttu Vestfirðingar búa við það harðræði umfram aðra að tundurdufl voru lögð yfir fiskimið þeirra. Fremur en að leggja árar í bát fundu vestfirskir sjómenn með áræðni og dirfsku leiðir til þess að róa innan um duflin og leggja veiðarfæri sín í sjóinn. Með því móti héldu þeir þrótti í vestfirskum byggðum og öfluðu fiskjar sem siglt var til Englands til þess að fæða fólkið þar.

Fáir stóðust Vestfirðingum snúning þegar komið var að útgerð skuttogara og hér á Ísafirði voru menn sem báru af öðrum í þeim veiðum. Sama má segja síðar þegar kvótakerfið var komið til sögunnar og tækifærin opnuðust í smábátaútgerðinni. Fyrr en varði komu fram á sjónarsviðið ungir menn í hverju þorpinu á fætur öðru sem náðu góðum árangri í sinni útgerð og efldu atvinnu- og mannlíf hver á sínum stað, þar til lokað var fyrir þessa leið.

Það er samandregin lærdómur af sögunni að á Vestfjörðum hafa tækifærin legið í sjósókninni og nýtingu fiskimiðanna. Og þar hefur lifað og starfað fólk, sem hefur sýnt framúrskarandi dugnað, þrautseigju og útsjónarsemi við það að umbreyta tækifærunum í lífskjör fyrir þjóðina.

Sjómannsstarfið er heillandi, en það krefst líka fórna og Vestfirðingar hafa ekki farið varhluta af þeim. Þetta ljóð var farið með fyrir mig í gærdag. Það gerði sjómannskona á Patreksfirði, en maður hennar hafði mikið dálæti á því:

Hafið brosir blítt um sumarnóttu
bárur stíga dans í sólarglóð
hafið æðir villt um vetrarnóttu
veðurofsinn þrumar dánarljóð.
Hafið eyðir hjartans bestu vonum
hafið veitir mörgum lífsins gjöf
hafið er og verður Íslandssonum
vagga ljúf og einnig þögul gröf.

Við skulum í dag þakka sjómönnum fyrir störf sín og ómetanlegt framlag þeirra til þjóðfélagsins og óska þess að veiðarnar verði þeim gjöfular og sóknin áfallalaus í náinni framtíð.

Ég hef bent mjög á að Vestfirðingar hafa sótt í tækifærin til þess að nytja sjávarauðlindina og að þar hefur umfram allt legið styrkleiki þeirra. Það er vegna þess að þá hefur Vestfirðingum gengið best, þegar þeir stóðu jafnfætis öðrum í almennum skilyrðum til veiða og leikreglurnar voru skýrar, einfaldar og sanngjarnar. Við þær aðstæður njóta Vestfirðingar nálægðarinnar við fiskimiðin og yfirburða sinna í kunnáttu og færni við sjósóknina.

En það vitum við öll að mjög hefur hallað undan fæti fyrir Vestfirska byggð síðasta áratuginn eða svo. Það er ástæðulaust að draga fjöður yfir það og láta eins og ekkert sé. Slíkt háttalag hæfir aðeins strútnum sem stingur höfði í sandinn þegar á bjátar.

Formenn á vestfirskum bátum vita það að meta verður aðstæður rétt til þess að sem mestar líkur séu til þess að sjóferðin endi vel. Enginn formaður kemst upp með það að taka ákvarðanir út frá ímynduðum veruleika og ýta raunveruleikanum til hliðar. Ef það er gert þá er ekki von á góðu.

Ég tek undir það sjónarmið að menn eiga ekki að leggja árar í bát þótt á móti blási, það er vísasta leiðin til þess að illa fari. Það er einmitt aðaleinkenni Vestfirðinga og styrkur að halda óskertri dómgreind og fumlausri stjórnun. En mér er engin launung á því að mér finnst of langt gengið í því að láta eins og ekkert sé, segja að engu verði breytt og jafnvel að ástandið sé bara býsna gott. Svona tal er til þess að draga máttinn úr mönnum og beina athyglinni frá raunverulegri ástæðu undanhaldsins í vestfirskum byggðum.

Það gengur ekki vel um þessar mundir vegna þess að tækifærin eru ekki lengur til staðar. Unga fólkið sem spratt fram hvarvetna á síðasta áratug sér ekki lengur nein tækifæri í þeim óskapnaði sem kvótakerfið er í sjávarútveginum. Það er okkar vandi.

Það þarf að takmarka veiðarnar, víst er það. En það má horfa meira til þess að takmarka notkun veiðarfæra sem spilla lífríkinu og það má horfa meira til þess að takmarka notkun olíufrekra og mengandi skipa fremur en að einblína á magnið eitt.

Kerfi sem er þannig:
að sjómenn eru þvingaðir til þess að láta af sínum hlut,
að veiddum fiski er hent úti á sjó
og fiski er landað framhjá vikt

er kerfi sem gengur á rangindum. Slíkt kerfi er ranglátt og spillir siðferði manna og auðlindinni sjálfri. Það leiðir til þess að vísindamenn styðjast við rangar upplýsingar og taka þar af leiðandi rangar ákvarðanir.

Grundvallarmeinið er reglan, sem leyfir handhafa kvótans að selja og leigja veiðiréttinn til annarra aðila á markaðsverði í stað þess að veiða sjálfur fiskinn. Þetta mein hefur breiðst út sem illvígt krabbamein. Læknisráðið er það að taka fyrir meinið sjálft.

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur komist að þessari sömu niðurstöðu um það hvert meinið er í íslenska kvótakerfinu. Það er að upphaflega fengu ákveðnir aðilar veiðiréttinn , sem svo var síðar umbreytt í einkarétt þannig að úthlutaðan kvóta máttu þeir selja eða leigja á markaðsverði. Í stað þess að kvótarnir gengju aftur til stjórnvalda til úthlutunar til nýrra handhafa í samræmi við sanngjarnar og réttlátar leikreglur.

Mannréttindanefndin segir í áliti sínu sem allir landsmenn þekkja, að íslensk stjórnvöld hafi ekki sýnt fram á að þessi sérstaka skipan og útfærsla kvótakerfisins samræmist kröfunni um sanngirni og ályktar nefndin að forréttindin í mynd varanlegs eignarréttar, sem veitt voru upphaflegum handhöfum kvótans séu ekki byggð á sanngjörnum forsendum.

Það er ekki gerð athugasemd við að veiðar séu takmarkaðar, það er ekki gerð athugasemd við það að notað sé kvótakerfi, en það er gerð athugasemd við úthlutunina og leikreglurnar. Þær eru ekki sanngjarnar og ganga gegn alþjóðlegum samningi sem Íslendingar eru aðilar að og Mannréttindanefndin byggir álit sitt á. Það vita Vestfirðingar og hafa alltaf sagt og eiga að halda áfram að segja. Og Vestfirðingar eiga að gera þá kröfu til forystumanna sinna að þeir tali máli sínu.

Ég fagna því að Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur gefið það út að hann vilji virða álit nefndarinnar, en honum má vera ljóst að það verður aðeins gert með því að breyta sjálfum grundvelli kerfisins, úthlutun og framsali veiðiheimildanna. Leiðin að sanngjörnum leikreglum er skýrt vörðuð í áliti Mannréttindanefndarinna. Sú leið er studd áliti um þriggja fjórðu hluta landsmanna samkvæmt vönduðum könnunum um margra ára skeið. Þegar hin sanngjarna leið verður farin, sem er óhjákvæmilegt að verði, tekur við að nýju framfaraskeið á Vestfjörðum byggt á tækifærunum sem ávallt er að finna í sanngjörnum leikreglum.

Ég vil þakka ykkur sem hlýdduð á mál mitt og ítreka árnaðaróskir mínar til sjómanna og fjölskyldna þeirra og óska landsmönnum öllum til hamingju með daginn og íslenska sjómannastétt.

Athugasemdir