Þingflokkurinn styður komu flóttamanna

Pistlar
Share

Þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur gert samþykkt um málefni flóttamanna og væntanlega komu flóttafólks til Akraness. Fyrri hluti ályktunarinnar er almenn stefnumörkun í málefnum flóttamanna en í síðari hlutanum er fjallað með gagnrýnum hætti um Akranesmálið. Fram hefur komið að ágreiningur var í þingflokknum, en hann afmarkaðist við Akraneskaflann. Ég er ekki sammála málflutningnum í því máli og tel að stjórnvöld hafi staðið sig vel á undanförnum málum við móttöku flóttamanna og að ástæðulaust sé að leggjast gegn því að Akraneskaupstaður taki að sér næsta hóp. Þvert á móti tel ég að fagna eigi vilja ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og vinna með henni að því að láta komu og dvöl erlendu flóttamannanna ganga sem best.

Vert er að vekja sérstaka athygli á því að samstaða náðist í þingflokknum um hinn almenna kafla ályktunarinnar, sem lýsir meginatriðum flóttamannastefnunnar. En hún er byggð á grundvallarstefnuskrá flokksins, sem er að finna í málefnahandbók hans og er aðgengileg á heimasíðu Frjálslynda flokksins.

Segja má að flóttamannastefnan sé fjórþætt. Í fyrsta lagi áréttar þingflokkurinn stefnu flokksins í málefnum flóttamanna og lýsir vilja sínum til þess að bjóða flóttafólki búsetu og dvöl hér á landi. Flóttafólk er velkomið til landsins. „Við skorumst ekki undan ábyrgð í málum flóttafólks og viljum að Íslendingar taki virkan þátt í mannúðar- og hjálparstarfi á erlendum sem innlendum vettvangi“ segir einnig í samþykkt þingflokksins.

Í öðru lagi segir í samþykktinni að Íslendingar eigi að beita sér í auknum mæli fyrir bættum hag flóttafólks og hvetur þingflokkurinn Alþingi og ríkisstjórn til þess að auka fjármagn til málaflokksins á komandi árum og ályktar að stórefla eigi hjálparstarf annars vegar sem veitt er á erlendum vettvangi og hins vegar til þess að veita flóttamönnum hérlendis móttöku.

Í þriðja lagi, og það er mikilvægt að það komist til skila, ályktar þingflokkurinn, að veita eigi flóttamönnum móttöku hérlendis án tillits til kynþáttar eða trúarbragða þeirra. Með þessu er sagt, svo ekki verður misskilið, að Frjálslyndi flokkurinn gerir sér ekki mannamun varðandi flóttamenn sem koma til landsins. Múslimar eru jafnvelkomnir og kristnir, hörundsdökkir jafnvelkomnir og hvítir svo dæmi séu tilfærð.

Loks er í fjórða lagi tekið fram í ályktuninni að mikilvægt sé til þess að tryggja góðan árangur, m.a. við aðlögun flóttamanna að íslensku samfélagi , að sýna erlendum flóttamönnum að þeir séu velkomnir til landsins og til þátttöku í þjóðfélaginu.

Ofangreind fjögur atriði eru kjarninn í tillögu um almenna stefnu í málefnum flóttamanna sem ég lagði fyrir þingflokkinn og hann féllst á . Samþykkt þingflokksins var kynnt fyrir miðstjórn flokksins og það er athyglisvert að miðstjórnin ályktar ekki um hana eða einstök atriði í flóttamannastefnunni í samþykkt sem gerð var um deilurnar á Akranesi og meirihlutaslitin í bæjarstjórninni. Það verður aðeins skilið sem samþykki miðstjórnar við stefnumörkun þingflokksins. Að öðrum kosti hefði miðstjórnin látið það koma fram í ályktun sinni, ef hún gerði ágreining við þingflokkinn um stefnuna í málefnum flóttafólks.

Ekki er annað vitað en að góð samstaða sé innan Frjálslynda flokksins um stefnumörkun þingflokksins og að með samþykktinni hafi tekist að skýra stefnu flokksins. Stefnan er frjálslynd eins og vera ber hjá frjálslyndum flokki og felur í sér umburðarlyndi og mannúð.

Hinu er ekki að leyna að ágreiningur er um málflutninginn á Akranesi undanfarnar vikur og verkefnið er að jafna hann. Það ætti að vera viðráðanlegt þegar fyrir liggur með skýrum hætti hver stefna flokksins er í málefnum flóttamanna. Áherslur í einstökum sveitarfélögum þurfa eðlilega að vera innan hinnar almennu stefnu flokksins.

Athugasemdir