Bjóðum flóttamenn velkomna til landsins

Pistlar
Share

Íslendingar eru ein ríkasta þjóð veraldar og á að beita sér af myndarskap í mannúðar- og hjálparstarfi hvort sem er á innlendum eða erlendum vettvangi. Ríkisstjórn og Alþingi eiga að setja mun meira fjármagn til málaflokksins á komandi árum en verið hefur til þessa. Í stefnuskrá Frjálslynda flokksins er vikið að málefnum flóttamanna ogþar er lýst yfir stuðningi við því að bjóða þeim til búsetu og dvalar hér á landi.

Erlendis blasa verkefnin við hvert sem litið er svo sem í Palestínu, Írak eða Darfur, svo nokkur dæmi séu nefnd sem ofarlega hafa verið á baugi síðustu vikur og eru lýsandi fyrir það hve skortur og neyð bjargarlauss fólks er yfirþyrmandi. Það er verðugt verkefni fyrir Íslendinga að beita sér í auknum mæli fyrir bættum hag flóttafólks. Þegar í stað á að auka stórlega fjármagn til málaflokksins og verja því til þess að efla annars vegar hjálparstarf sem veitt er erlendis og hins vegar til þess að taka á móti flóttamönnum hér á landi.

Ég vil benda á farsælt starf stjórnvalda,Rauða krossins og einstaklinga á undanförnum árum, þar sem 9 sveitarfélög hafa tekið á móti flóttamönnum með góðum árangri og miklum sóma. Minnistætt er hversu vel Ísfirðingar stóðu sig í erfiðu árferði í sjávarútvegi fyrir vestan og aðeins ári eftir mannskæð snjóflóð. Á þessum grunni á að halda áfram og bjóða flóttamönnum að koma til landsins og það án þess að horfa til þjóðfélagslegrar stöðu, kynþáttar eða trúarbragða.

Hingað hefur komið fólk frá stríðshrjáðum löndum , kristnir sem múslimar, karlar sem konur og einstæðar mæður með börn sín, fólk frá ýmsum menningarheimum ólíkum okkar og það hefur gengið vel. Sveitarfélögin sem hafa tekið við hópunum 9 eru dreifð um landið, misfjölmenn og ólík að gerð, en í öllum tilvikum hefur tekist vel til að taka við flóttafólkinu, búa því góðar aðstæður og gera því kleift að taka sjálft ákvörðun um eigin framtíð.

Það er rík ástæða til þess að þakka þeim sem að þessu verki hafa komið á undanförnum árum fyrir störf sín. Engin ástæða er til þess að ætla að einhver breyting verði á árangursríku starfi stjórnvalda og hjálparsamtaka við undirbúning og móttöku næstu hópa flóttamanna. Hingað til hafa íbúarnir í sveitarfélögunum ekki gert athugasemdir við flóttamannahjálpina, svo ég viti til, né talið hana skaða almenna félagsmálaþjónustu sveitarfélagsins.

Ég get ekki tekið undir málflutning sem er til þess fallin að sá efasemdum og tortryggni í garð flóttamanna eða dregur í efa getu einstakra sveitarfélaga til þess að taka við hópi flóttamanna. Ég vil hvetja til þess að menn láti af slíku háttalagi og sameinist frekar í því verkefni að sýna flóttamönnum að þeir séu velkomnir til landsins og að óskað er eftir þátttöku þeirra í samfélaginu. Umræða um einstaka þætti sem varða málefni flóttamanna er þörf en hún á að grundvallast á viljanum til þess að gefa þeim kost á því að lifa og starfa í íslensku þjóðfélagi.

Athugasemdir